top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Rannsakar hlutverk menningar í litlum samfélögum


Yasuaki Tanago, þingeyri, Patreksfjörður, japan, landsbyggðin, samfélagsleg verkefni, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Japanski arkitektinn Yasuaki Tanago. Ljósmynd Yasuaki Tanago

Þeir eru ófáir sem heillast af Vestfjörðum eftir dvöl þar og þeirra á meðal er Yasuaki Tanago, japanskur arkitekt. Hann hefur ekki látið það duga að dvelja einungis á Vestfjörðum, heldur hefur hann unnið samfélagsleg verkefni bæði á Þingeyri og nú nýlega hóf hann vinnu við verkefni á Patreksfirði í samstarfi við Húsið-Creative Space þar í bæ.


Blaðamaður ÚR VÖR hitti Yasuaki þegar hann dvaldi á Patreksfirði síðastliðið haust og spurði hann spjörunum úr um verkefni sín og margt annað. Yasuaki fæddist og ólst upp bænum í Fukuoka í suðurhluta Japans. Hann útskrifaðist með BA í arkitektúr og borgarhönnun við SIT skólann Tokyo, MA í sömu fræðum frá YNU Yokohama og USI Mendrisio í Sviss.

Yasuaki starfaði sem arkitekt víða í Evrópu, í Króatíu, Írlandi og Sviss í yfir tíu ár. Eftir að hafa flutt aftur til Japan hefur hann rekið sína eigin arkitektarstofu og kennt við SIT í Tokyo frá árinu 2014. Sérþekking hans snýst meðal annars um samfélögsþróun á landsbyggðinni.

Yasuaki segist lengi hafa haft áhuga á Íslandi því Ísland og Japan eiga margt sameiginlegt líkt og eyjasamfélög, fiskveiðar, lítil og einangruð þorp, mikil nálægð við náttúruna, eldfjöll, vindasamt, jarðskjálfta og svo framvegis. „Ég fékk tækifæri til að taka þátt í fyrstu gestavinnustofu „Westfjords Residency“ vorið 2015. Það voru nokkrir aðrir alþjóðlegir þáttakendur þar á sama tíma, tónlistarmaður og ljóðskáld meðal annars. En ég er ekki listamaður, ég er arkitekt og varð ég því fyrir miklu áhrifum og fékk mikinn innblástur frá þeim og umhverfinu á Vestfjörðum. Á meðan á dvöl minni stóð þá vann ég undirbúningsvinnu og kynnti verkefnið „Tankinn“ á Þingeyri. Fljótlega í kjölfarið, árið 2016 hóf ég vinnu við verkefni um samfélagslega uppbyggingu á Þingeyri sem kallast „Þingeyri Value Creation Autonomy“, síðan þá hef ég komið til Vestfjarða tvisvar til þrisvar á ári.“ segir Yasuaki.

Yasuaki hélt fyrirlestur á Japanskri helgi á Þingeyri haustið 2018. Ljósmynd Haukur Sigurðsson.

Verkefnið „Tankurinn“ snýst um gamlan olíutank á Þingeyri og nýtt hlutverk hans. Við leyfum Yasuaki að útskýra þetta betur með eigin orðum.

„Tankurinn er hugsaður sem útsýnispallur þar sem hægt er t.d. að skoða norðurljósin og stunda ýmsa hversdagslega útiveru. Þetta er yfirgefinn og tómur olíutankur í enda bæjarins sem hefur lokið hlutverki sínu og hugmyndin er að hann fái nýtt hlutverk. Og af því að hann hafði þjónað hlutverki sínu þá er hann nú þegar hluti af umhverfi bæjarins. Að hluta til er hann táknmynd ris og falls sjávarútvegs á Þingeyri og það er mikilvægt að hann gangi í endurnýjun lífdaga.

„Að verkefninu standa fjölmargir heimamenn líkt og arkitekt, járnsmiður, múrari og garðyrkjumaður og samfélagið hefur tekið þátt í hugmyndavinnunni.“ segir Yasuaki og er greinilega spenntur fyrir þessu verkefni.

Yasuaki Tanago, Oddi hf, Patreksfjörður, Kristján Guðmundur Sigurðsson, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Kristján Guðmundur Sigurðsson, starfsmaður Odda hf. á Patreksfirði og Yasuaki. Ljósmynd Yasuaki Tanago

Með „Þingeyri Value Creation Autonomy“ verkefninu segir Yasuaki að ætlunin sé að endurvekja samfélagið með samstarfi við fyrirtæki, yfirvöld og háskólasamfélaginu og um leið að kynna erlenda menningu, vísindi og rannsóknir. Markmiðið sé að komast að því hverjar ástæðurnar séu fyrir fólksfækkuninni á Þingeyri, en fólksfækkun hefur einnig hrjáð þorp á landsbyggðinni í Japan að sögn Yasuaki.


„Fólksfækkun og hækkun meðalaldurs hefur orðið í úthverfum Tokyo og úthverfum annarra stórra borga og á landsbyggðinni. Þessi alvarlega þróun hefur valdið fólki áhyggjum og nokkur verkefni um samfélagsuppbyggingu eru farin af stað með það að marki að snúa þessari þróun við. Og það hefur tekist á nokkrum afskekktum eyjum og í litlum fjallaþorpum, þar hefur fólk flutt aftur heim og aðrir sýnt þeim stöðum áhuga.

„Fólk er farið að leggja áherslu á aðra hluti og gildi fólks hafa breyst, það sér ekki lengur tilganginn í að sækja allt saman til Tokyo, fólk hefur ekki lengur þráhyggju fyrir borginni og dæmi eru um nýsköpunarverkefni sem hafa verið árangursrík í barátunni um að endurbyggja samfélög á landsbyggðinni.“ segir Yasuaki.
Yasuaki Tanago, Patreksfjörður, Húsið-Creative Space, Vestfirðir, landsbyggðin, samfélags verkefni, úr vör, vefrit, frumkvöðlastarf
Yasuaki hélt fund í Húsinu-Creative Space með nokkrum íbúum Patreksfjarðar þegar hann dvaldi þar síðastliðið haust. Ljósmynd Yasuaki Tanago.

Að sögn Yasuaki er aðal ástæðan fyrir því að hann hefur hafið verkefnavinnu á Patreksfirði sú að á viðburði á Þingeyri haustið 2018, svokallaðri Japanskri helgi, hafi hann kynnst Aroni Inga Guðmundssyni og Julie Gasiglia, fólkinu sem stofnuðu og reka Húsið-Creative Space á Patreksfirði. „Ég sé mikla möguleika varðandi starfsemi þeirra sem snýr að list og menningu í því litla einangraða þorpi sem Patreksfjörður er. Mig langar að vinna með þeim og öðru fólki þar til að rannsaka hlutverk menningar í samfélagsuppbyggingu. Ég hef mikla trú á sérstöku hlutverki menningar og listar í litlum samfélögum, þetta er auðvitað bara byrjunin á verkefninu og myndi ég vilja þróa það áfram með heimafólki. Þetta er mjög ólíkt verkefninu á Þingeyri, þetta er annað samhengi.

„Ég myndi gjarnan vilja koma reglulega til Patreksfjarðar til að vinna að þessu verkefni og get vel hugsað mér að búa á Íslandi einn daginn. Heimafólk tekur mér vel og hef ég verið heppinn með það að hafa kynnst mörgum þeirra, ég á margar góðar minningar með því fólki nú þegar.“ segir Yasuaki og ljóst er að spennandi verður að fylgjast með framvindu mála er kemur að þessu verkefni.
Yasuaki Tanago, Patreksfjörður, Vestfirðir, Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, landsbyggðin, Húsið-Creative Space, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Yasuaki og nokkrir íbúar Patreksfjarðar við vinnu á SWOT greiningu á Patreksfirði síðastliðið haust. Ljósmynd Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir


Comments


bottom of page