Bæjar- og menningarhátíðin Vor í Árborg var haldin dagana 25. til 28. apríl síðastliðinn. Hátíðin hefur verið haldin árlega í rúm tíu ár, eða síðan árið 2008. Fjöldi sýninga, tónleika og annarra viðburða eru á hátíðinni fyrir alla fjölskylduna auk þess sem fjölskylduleikurinn „Gaman saman“ er alltaf á sínum stað.
Ólafur Rafnar Ólafsson, atvinnu- og viðburðafulltrúi sveitarfélagsins segir að hátíðin hafi verið með svipuðu sniði frá því að hún var sett á laggirnar.
„Hann segir að fulltrúar sveitarfélagsins Árborgar hafi ákveðið eftir hrun að spýta í lófana og gera eitthvað sem væri frítt fyrir börn og fjölskyldur á svæðinu og úr varð að þetta yrði árviss viðburður. Sveitarfélagið leggur fjármagn í tónleika og styrka ákveðna viðburði að sögn Ólafs en bætir við að annars séu þetta félagasamtök og einstaklingar sem bjóða upp á þessa fjölbreyttu dagskrárliði.
Ólafur segir að hátíðin hefjist alltaf á sumardaginn fyrsta á fimmtudegi og stendur yfir fram á sunnudag. Að hans sögn eru ákveðnir liðir sem eru alltaf ár hvert, líkt og að menningarverðlaun Árborgar eru veitt við hátíðlega athöfn. Í ár voru yfir fjörutíu viðburðir og segir Ólafur að margir viðburðir séu oftar en einu sinni yfir hátíðina. Sautján af þessum fjörutíu viðburðum er tengt fyrrnefndum fjölskylduleik, „Gaman saman“ sem er ætlaður fyrir fjölskylduna.
„Það var nóg um að vera allstaðar og veðrið í ár var bara ágætt. Sumir höfðu áhyggjur af því að þetta væri of umfangsmikil dagskrá, en held að svo sé ekki.
„Það er mestmegnis heimafólk sem sækir þessa hátíð og höfum ekki auglýst þetta mikið út á við. Við höfum gert meira fyrir heimafólk en þetta er auðvitað opið fyrir alla og allir viðburðir eru fríir. Auk þess er þetta fyrir alla aldurshópa og reynum að ná til sem flestra.“ segir Ólafur.
Sem dæmi um dagkrárliði nefnir Ólafur að Svavar Knútur hafi spilað í Eyrarbakkakirkju á afar vel heppnuðum tónleikum að sögn nærstaddra. Fuglatónleikarnir hjá Valgeir og Ástu í Bakkastofu voru á dagskrá ásamt tónleikum í kaffihúsinu Gimli á Stokkseyri. Skátarnir buðu upp á skrúðgöngu og leiki og afmælishátíð Litla Hrauns var haldin með glæsilegri sýningu.
„Það sem er frábært við þessa hátíð er að þarna geta félagasamtök og einstaklingar kynnt sína starfsemi. Svo eru fjölbreytileikinn svo mikill, það eru t.a.m. ýmsar vinnustofur í boði, bæði fyrir börn og fullorðna. Það eru t.d. með vinnustofur fyrir þroskaskerta, Byggðasafn Árnesinga var með skemmtilegar smiðjur fyrir börn. Svo á sumardaginn fyrsta voru útileikir líka fyrir börn sem vöktu mikla lukku. Það var líka boðið upp á skák í Fischersetrinu og svo er frítt í sund fyrir alla yfir hátíðina.“ segir Ólafur.
Að sögn Ólafs væri ekki mögulegt að halda svona hátíð ef fólk væri ekki að gefa sína vinnu og væri svona duglegt. „Ef einhversstaðar var verið að selja vöfflur þá fer sá ágóði í rekstur á félagi.
„Þetta er mjög gefandi og stórkostlegt, maður er í hæstu hæðum eftir svona viðburð. Það er að mörgu að huga og eru langir dagar þegar maður er að undirbúa þetta, en það er vel þess virði. Svo er maður auðvitað fyrstur til að sjá villurnar í eigin verki en þetta gekk mjög vel í alla staði myndi ég segja.“ segir Ólafur.
Samkvæmt Ólafi er stemningin góð í sveitarfélaginu Árborg og segir hann að það hafi verið fólksfjölgun þar síðastliðin tvö ár. Margt af því fólki sem hafi flutt vinni á höfuðborgarsvæðinu og keyri svo á milli. Ólafur leggur áherslu á að gott umhverfi sé fyrir hendi fyrir fjölskyldufólk og að mikið sé lagt uppúr félagsstarfi og íþróttum.
„Við erum að sjá yngri kynslóðina koma aftur. Eins og t.d. út við ströndina, við fórum í ferðir yfir allt Suðurlandi í fyrrasumar og hvar sem við stoppuðum þá voru sögur af yngra fólki sem var að flytja þangað og taka við rekstri. Það er líf í gangi á landsbyggðinni og það eru möguleikar, sem er auðvitað frábært. Það er bara um að gera að grípa það að njóta!“ segir Ólafur að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comentarios