Vestfirðir hafa alltaf verið frjór jarðvegur frumkvöðla og þegar við horfum til baka á glæsta frumkvöðlasögu svæðisins fyllumst við stolti. Í síðustu viku fékk ég tækifæri til að skoða hvað fyrirtækin eru að gera á Vestfjörðum og vil opinbera að ég fylltist stolti yfir því frábæra starfi sem frumkvöðlar eru að vinna um allt.
Heimsmarkmið sameinuðuþjóðanna
Hópur fólks frá öllum heimshornum kom saman í Blábankanum á Þingeyri í síðustu viku til að skoða hvernig Íslendingar hafa staðið að málum varðandi hafsvæðin og fiskeldi. FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna stóð að þessu ásamt ítölskum grasrótarsamtökum. Útgangspunkturinn eru 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni sem hafa verið sett upp á mjög aðgengilegan hátt til að gera öllum íbúum heimsins kleift að skilja markmiðin og þá í framhaldinu að vinna að þeim markmiðum sem snerta þeirra samfélag og aðstæður.
Eitt af verkefnunum er að endurskilgreina hvað er hagsæld og móta stefnu til að ná þangað.
Eitt stærsta verkefnið er að endurhugsa alla mataröflun heimsins og hvernig við getum brauðfætt heiminn án þess að ganga á auðlindirnar sem við höfum. Það liggur fyrir að maðurinn er hryggjarsúlan í bæði vandanum og lausninni, því við þurfum öll að borða en við þurfum líka að hugsa um afleiðingarnar af matvælaframleiðslu heimsins og hvernig við getum látið þessa jöfnu ganga upp til framtíðar.
Antartika og háskólasetur Vestfjarða
Fluttur var fyrirlestur beint frá Antartiku þar sem hópur vísindamanna starfar við að rannsaka og mæla umhverfi sitt og ýmsa þætti er varða náttúruna en þarna mælast öll umhverfisáhrif sem aðrir heimshlutar valda. Fundurinn var í beinni útsendingu en á Antartiku mættu allir, kokkurinn, tæknimenn og vísindamenn því það þarf að vera sérfræðingur á hverju sviði til að samfélagið gangi upp. Þetta á reyndar við öll samfélög við þurfum fjölbreittan hóp af fólki, með ólíka hæfileika, til að samfélög gangi upp.
Því næst komu sérfræðingar frá Háskólsetri Vestfjarða og kynntu sínar rannsóknir á sviði sjávarútvegs og samfélaganna sem lifa á þeim greinum og þvílíkt frumkvöðlastarf sem þar er unnið, virkilega flott. Það eru nú til fjöldi rannsókna sem hafa fókusinn á Vestfjörðum og samfélögunum hérna.
Það er til dæmis búið að sanna það vísindalega að kvótakerfið virkar mjög vel efnahagslega fyrir þjóðina, mjög vel til verndar fiskistofnanna en virkar hvorki efnahagslega né til að vernda samfélögin við strendur landsins. Þar er nú til mikið efni sem hjálpar Vestfirðingum að móta framtíðina en öllum er ljóst að frumkvöðlastarf mun verða eitt af leiðarljósunum á öllum sviðum.
Fiskeldi
Sameinuðu þjóðirnar leggja mikla áherslu á fiskeldi sem vaxtarbrodd í fæðuöflun mannkyns. Það byggir á þeirri staðreynd að borið saman við annað dýraeldi eru umhverfisáhrifin mun minni.
Það var vel tekið á móti hópnum hjá Artic Fish í Dýrafirðinum og öllum boðið að koma út í kvíar og skoða allan aðbúnað. Fiskeldið er ASC (Aquaculture Stewardship Counsile) vottað sem staðfestir að eldið er að rækta á umhverfislega- og samfélgaslega ábyrgan hátt. Það tryggir að eldið er stundað á best mögulegan hátt miðað við núverandi þekkingu og tækni.
Það er fróðlegt að fylgjast með ungu fólki sem er komið aftur í heimabyggð vinna að þessu spennandi verkefni sem krefst mjög fjölbreyttrar sérfræðikunnáttu og finna kraftinn. Hér eins og á öðrum sviðum þurfum við auðvitað að finna jafnvægið milli skynsamlegrar framleiðslu og náttúrunnar.
Frumkvöðlar
Hátæknifyrirtækið Kerecis kynnti sína starfsemi og þar er á ferðinni snilldar silla í lækningavörum sem eru að virka svo vel og eru nú í mikilli sókn í læknaheiminum þar sem varan er notuð í tilfellum þegar öll önnur ráð þrýtur.
Arna mjólkurbúið í Bolungavík var heimsótt og þar sannaðist að lítil fyrirtæki geta líka náð fótfestu ef þau koma með snjallar hugmyndir sem falla að lífsstíl og bæta líf fólks.
Skaginn 3X tók vel á móti hópnum og kynnti sögu fyrirtækisins sem farin er að telja nokkra áratugi og það spennandi starf sem þeir eru að vinna.
Það má ekki gleyma því að tækninýjungar í matvælavinnslu miða allar að því að bæta meðferð matvæla svo sem minnst fari til spillis og þar er bæði unnið með sem minnst hnjask og rétt hitastig. Það er ávalt mesta umhverfisverndin að það sem við ræktum eða veiðum nýtist eins vel og framast er unnt.
Að lokum
Farið var í hvalaskoðunarferð um Ísafjarðardjúp og silgt inn að Kaldalóni þar sem var gott útsýni upp á Drangajökul en það var mikill áhugi fyrir því að sjá jökulinn. Hvalirnir léku sér allt í kringum skipið og veðrir lék við þáttakendur alla vikuna sem hafði gríðarlega góð áhrif á heimsóknina. Síðasta daginn var svo sest niður með gestum í Blábankanum en allir voru velkomnir og framtíðarsýnin rædd.
Það sem er að gerast í heiminum núna er að fólk er að líta til baka til þess tíma þegar fólk lifði í meiri tengslum við náttúruna og hvort annað. Einn mikilvægur þáttur sem var nefndur til að bæta heiminn er sú mikilvæga stund þegar fjölskyldan eldar saman og borðar saman. Að eiga aftur þessar samverustundir sem hraði nútímans hefur rænt frá okkur, en þar fer fram mjög mikilvæg fræðsla milli kynslóðanna.
Texti: Guðrún Anna Finnbogadóttir
Comments