top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Um tilvist hins smáa


Vist, Svo grænt!, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, list, listasýning, bóka, bókaútgáfa, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Hún gaf frá sér andvarp. Rétti svo úr blöðunum sínum. Sólin átti enn eftir að hækka á lofti og vindurinn var byrjaður að snúa sér.“ Ljósmynd Arnhildur Lilý Karlsdóttir

„Æ, þú barr sem aldrei blómstrar. Mikið hlýtur það að vera leitt fyrir þig.“

Barrið stóð þögult.

Haustið kom og það kólnaði. Allir hennar guðdómlegu blómknúppar fölnuðu.

Að lokum stóð hún nakin og skjálfandi, ekkert nema þyrnarnir og hégóminn.

Hún leit ekki á fagurgrænt barrið og barrið sagði ekki neitt.

„Það er eitthvað við hið smáa sem er svo heillandi. Þessi heimur sem við umgöngumst daglega en veitum ekki eftirtekt. Ég velti því stundum fyrir mér þegar ég er úti á gangi og rekst á rusl eins og til dæmis sælgætisbréf, hvar það hafi verið áður en það endaði þarna skítugt og þvælt í götunni. Kannski hafði það verið í hlýjum vasa og dottið út þegar eigandinn sótti vettlingana sína. Kannski hafði það líka legið gleymt í vasanum um tíma og þar á undan staðið fyrir fyrirheit um munnfylli af sætum munaði. Hvers á bréfið að gjalda að missa allt sitt svona á augabragði og gjaldfalla, bara fyrir það eitt að hafa misst tilgang sinn? Það er sorglegt.“

Arnhildur Lilý Karlsdóttir hefur um árabil starfað sem pistlahöfundur en hún er menntuð bókmenntafræðingur.

„Ég hef alltaf haft áhuga á bókum og líklega var bókmenntafræðinámið viðleitni til að fá að vera og hrærast í bókum og textum án þess að skrifa sjálf þar sem ég þorði ekki að stefna að því að verða rithöfundur.“

Arnhildur gaf út verkið VIST nú á haustmánuðum en verkið er sjálfstæður hluti af sýningu listakonunnar Dagnýjar Guðmundsdóttur, Svo grænt!, sem sýnd var í Gallerý Stokki á Stokkseyri nú í haust.

Verkið VIST er gefið út í 300 númeruðum eintökum og eru þau bæði handsaumuð og skreytt af Arnhildi sjálfri.

Svo grænt! er innsetting þar sem Dagný vinnur úr því sem hún hefur starfað við síðustu ár, en hún og eiginmaður hennar fluttust fyrir nokkrum árum á Skygginsstein sem stendur rétt utan við Geysi í Haukadal og hófu þar vistræktun.

Á vormánuðum spratt upp sú hugmynd að Arnhildur myndi leggja til texta fyrir sýninguna. Úr því urðu til sjö örsögur byggðar á lífinu í vistkerfi Skyggnissteins.

Í verkinu er einmitt hinu smáa gert hátt undir höfði þar sem einlægt en jafnframt kunnuglegt stef tilfinninga birtist lesandanum á einkar myndrænan hátt, en þó í óvenjulegu samhengi. Þar sem aðeins brot úr þessum sögum voru notuð í innsetninguna lá beinast við að gefa sögurnar að auki út í heild sinni. Verkið er gefið út í 300 númeruðum eintökum og eru þau bæði handsaumuð og skreytt af Arnhildi sjálfri.

Hún horfði á Toppu um stund og fann snögglega fyrir kvíða í brjóstinu yfir þessum óvæntu

tíðindum úr hænsnahúsinu.

Hún tvísteig aðeins og þefaði út í vorloftið.

Þá rak hún augun í slímugan orm sem glitti á í sólinni. Við þessa sjón hvarf allur kvíði og hún stikaði af stað reiðubúin að gogga.

Bókmenntafræðingurinn og pistlahöfundurinn Arnhildur Lilý Karlsdóttir. Aðsend ljósmynd

Arnhildur segist alltaf hafa kunnað að meta hið smáa „Ég hef alltaf haft áhuga á smáatriðum, en það er kannski bara af því að ég er nærsýn!“ segir hún og hlær. Hún segir að það hafi þó ekki verið fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar hún var á námskeiðið í skapandi skrifum á vegum Hversdagssafnsins á Ísafirði, að hún horfðist í augu við það hversu mjög hún dróst að hinu smáa og hversdagslega og ákvað að gefa því meira rými.

„Að horfa á hið smáa vekur undrun og það er hollt að undrast. Það er ekki til neitt sem er venjulegt. Allt er einstakt og á sína sögu og sumar sögur eru jafnvel ævintýri.“

Vitanlega var gott sjá sólina, enn betra væri þó að finna fyrir henni. Hún horfði löngunaraugum á sólbaðaða grasflötina rétt handan við beðið og nötraði enn meira í skugganum.

Hún gaf frá sér andvarp. Rétti svo úr blöðunum sínum. Sólin átti enn eftir að hækka á lofti og vindurinn var byrjaður að snúa sér.

Þetta yrði allt í lagi.



Comments


bottom of page