top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ullarvinnslan Urður


Urður ullarvinnsla, Ingibjörg Þóranna Steinudóttir, Dalabyggð, Vesturland, ull, vefnaður, prjónaskapur, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Markmið Ingibjargar er að opna ullarvinnslu sína í apríl á næsta ári og framleiða og selja vörur undir nafninu Urður ullarvinnsla. Ljósmynd aðsend.

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.


Ingibjörg Þóranna Steinudóttir flutti ásamt manni sínum í Dalabyggð fyrir þremur árum síðan. Þau tóku vinnu sína með sér úr bænum, Ingibjörg vinnur fyrir lækningatækjafyrirtæki og getur sinnt vinnunni í tövunni og maður hennar er smiður, en hann er einmitt frá bænum Rauðbarðarholti sem þau fluttu á. Það var svo um haustið árið 2022 að Ingibjörg fékk hugmynd um að vinna ull betur en nú er gert.

„Ég var í réttum og var að draga lömb og fann hvað ullin á lömbunum var einstaklega mjúk og langaði að vita hvort við gætum ekki unnið ullina eitthvað betur en við erum að gera. Ég var að prjóna lopapeysu úr léttlopa á þessum tíma og mér fannst ullin eitthvað svo hörð og gróf þannig að ég fékk ull frá tengdamömmu og fór að vinna hana sjálf í höndunum og komst að því að það er hægt að gera ullina mun mýkri en við fáum hana út úr búð.“ segir Ingibjörg. 

Í framhaldi af þessu sótti hún um styrki og fékk tvisvar styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands og einnig fékk hún styrk úr Frumvkæðissjóði Dalaauðs. Eftir að hafa fengið þá hvatningu pantaði Ingibjörg vélar frá Kanada til að vinna ull og eru þær væntanlegar til landsins um áramótin. „Ég er núna að vinna í að finna húsnæði og frekara fjármagn til að þessi hugmynd geti orðið að veruleika. Ég var í viðskiptahraðli á vegum Vesturbrúar frá desember mánuði fram í febrúar og lærði þar meðal annars hvernig á að setja upp viðskiptaáætlun og kynna verkefnið.“ segir Ingibjörg.


Fyrrnefndar vélar sem eru á leið til landsins í lok árs eru nokkur magnaðar, en þær þvo, tæta, kemba, spinna og vefa ullina upp að sögn Ingibjargar. Þessar vélar eru aðeins minni en þær hefbundnu og anna tveimur kílóum á klukkustund. Þær líkja betur eftir handspunanum heldur en vélarnar sem aðrir eru að nota til að framleiða, en Ingibjörg segir að mýksti lopinn sem er í boði í dag sé óspunninn sem er ástæðan fyrir því hversu viðkvæmur hann er og slitnar auðveldlega. 


Urður ullarvinnsla, Ingibjörg Þóranna Steinudóttir, Dalabyggð, Vesturland, ull, vefnaður, prjónaskapur, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Ullin er mjög merkileg vara, hún er niðurbrjótanleg í náttúrunni og vex aftur á kindinni, þetta er allt annað en plastið sem er svo mikið notað í fatarframleiðslu í dag.“ Ljósmynd aðsend.

Að sögn Ingibjargar þarf hún um 100 fermetra undir vélarnar og starfsemina og er hugmynd þeirra hjóna að gera upp gömul fjárhús sem eru á jörðinni þar sem þau búa, en fjárhúsin eru ekki í notkun, eru að hruni komin og þarf því að gera þau upp. Hugmyndin er svo að heimamenn sem og aðkomufólk geti komið og séð hvernig ullin sé unnin og hvernig framleiðslan fer fram.


En Ingibjörg ætlar ekki að láta þar við sitja heldur langar hana að prófa að gera nýja hluti varðandi ullarframleiðsluna. „Það sem mig langar að gera er að nota lambsullina, hún er mýkst og best, það er mesta þelið í henni og minna tog miðað við eldri kindur.

Einnig langar mig að framleiða gráa ull af gráum kindum, en ekki vera að lita ullina eða blanda, láta litinn njóta sín og nota líka flekkótt, en flekkótt er ekki notað til að búa til band í dag. Það er einstaklega fallegur litur, en í dag er greitt minna fyrir mislita ull en mig langar að nota hana í mína framleiðslu.“ segir Ingibjörg. 

Markmið Ingibjargar er að opna ullarvinnsluna í apríl á næsta ári og framleiða og selja vörur undir nafninu Urður ullarvinnsla. Hún ætlar sér að að selja beint frá býli, en það mun vera verslun í verksmiðjunni, auk þess heimasíða verður sett upp svo fólk geti verslað á netinu. Síðar meir, þegar Ingibjörg verður komin með vöru í hendurnar, mun hún athuga með að koma hennií einhverjar verslanir. 


„Ég finn fyrir miklum áhuga, bæði í nágrenninu og líka á þessum vettvöngum sem ég hef verið að kynna hugmyndina, í viðskiptahraðlinum til dæmis, fólki finnst einstaklega spennandi að það komi framleiðslufyrirtæki í Dalina og að verið sé að vinna ullina í heimabyggð. Það er mikil talað um sjálfbærni samfélaga þessa dagana og að mínu mati geta samfélög ekki orðið sjálfbær nema að við framleiðum afurðirnar sem verða til á staðnum. Þannig að verðmætið verði eftir í samfélaginu til að byggja þau áfram upp.“ segir Ingibjörg.


Samkvæmt Ingibjörgu þá eru einhver ólýsanleg orka sem fylgir sveitalífinu og það að búa í nánd við náttúruna gefi manni allskonar hugmyndir og það er greinilegt að Ingibjörg er með nóg af þeim. „Mig langar að geta keypt ull af sem flestum, en hluti af markmiðinu er að hækka ullarverðið og ég vil borga sama verð fyrir alla lambsull, sama hvernig hún er á litinn. Svo vil ég bara kaupa af öllum á svæðinu sem vilja selja mér ull.

Ullin er mjög merkileg vara, hún er niðurbrjótanleg í náttúrunni og vex aftur á kindinni, þetta er allt annað en plastið sem er svo mikið notað í fatarframleiðslu í dag. Ég trúi ekki nema að við förum aftur í að nota ullina meira, hún er gulls ígildi!“ segir Ingibjörg að lokum.

Comments


bottom of page