top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Tilvistarkreppa eða framtíðarsýn þorpanna?


Sameining sveitarfélaga, pistill, Guðrún Anna Finnbogadóttir, landsbyggðin, Hólmavík, úr vör, vefrit
„Lítið þorp við lítinn fjörð þarf ekki að verða stórt það þarf að verða sjálfbært og í sjálbærninni felst að allt innviði sé til staðar“ Ljósmynd Guðrún Anna Finnbogadóttir

Nýjustu skilaboð stjórnvalda eru að öll sveitarfélög þurfi að verða 1.000 manns eða fleiri burt séð frá þeirri staðreynd að svo stór sveitarfélög eru fágæti á gnægtarborðinu Íslandi.


Breytt stefna mótast af þeirri staðreynd að skyldur sveitarfélaga eru orðnar svo miklar að lítil sveitarfélög eru að sligast undan skyldunum. Þó er allrar athygli vert að það er ríkið sem hefur flutt þessar skyldur á sveitarfélögin.

Stóru sveitarfélögin fagna þessum breytingum því ekki þrengir að þeim en minni sveitarfélög fyllast kvíða því afhverju í ósköpunum ætti litla þorpið mitt að verða svo stórt? Verður það ennþá litla þorpið mitt á eftir?

Í upphafi skyldi endinn skoða en tekjustofnar allra sveitarfélaga koma frá íbúunum sem greiða til ríkis og sveitarfélaga en margir landshlutar upplifa að fjárstreymið til ríkisins sé leikandi létt en fjárstreymið frá ríkinu sé eins og foss sem á að fara upp í móti, tregafullt streymi.


Það hefur semsagt brunnið við að þessi sömu stjórnvöld sem útdeila verkefnum á sveitarfélögin hafi gleymt að láta fylgja með tekjustofna til að sveitarfélögin geti staðið undir auknum kröfum og bættum aðbúnaði íbúanna. Lítið þorp við lítinn fjörð þarf ekki að verða stórt það þarf að verða sjálfbært og í sjálbærninni felst að allt innviði sé til staðar og fólkið í þorpinu geti nýtt þá auðlind sem til staðar er, aflað tekna og hlúð að þorpinu sínu til framtíðar.

„Öll sú þekking sem heimamenn hafa á umhverfi sínu, náttúrunnu, fjöllunum, sjónum og sögunni á hverjum stað er mjög verðmæt auðlind sem erfitt er að viðhalda og gera sjálfbæra þegar allir eru farnir.“ Ljósmynd Guðrún Anna Finnbogadóttir

Það er umhugsunarvert að á síðustu áratugum hafa erlendir fjárfestar hægt og bítandi keypt það sem hugur þeirra girnist á Íslandi. Íslendingar eru hinsvegar komnir í tilvistarkreppu í eigin landi, vinna alla daga, greiða tæplega 50% af laununum í skatta, fyrir afganginn þarf að reka fjölskylduna með öllu sem því fylgir.

Við greiðum skattana með gleði því við viljum að á landinu séu flottir skólar, heilbrigðiskerfi og samgöngunet sem mætir kröfum nútímamanns þar sem nýsköpun og tækni er leiðarljósið.

Þessi hömlulausi aðgangur að landinu er varinn með Evrópulöggjöf en það stenst enga skoðun því lönd innan Evrópusambandsins hafa varið íbúa sína fyrir þessari ágjöf. Við eigum fallegt og gjöfult land sem við höfum taugar til en regluverk stjórnvalda skortir yfirsýn til að hindra að auðmenn allsstaðar að úr heiminum sem hafa stundað þá list af miklu kappi að borga hvergi skatta, geti keypt það sem þá langar í. Venjulegur Íslendingur sem glaður greiðir sína skatta getur ekki keppt við þetta og fólkið getur ekki hafið búskap eða hafið nýjan atvinnurekstur því þarna mætast gríðarlega ólík öfl. Ísland er bara lítil gjöful eyja þar sem íbúarnir hafa lagst á eitt að skapa gott og heilbrigt samfélag.

Sameining sveitarfélaganna, pistill, Guðrún Anna Finnbogadóttir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Við greiðum skattana með gleði því við viljum að á landinu séu flottir skólar, heilbrigðiskerfi og samgöngunet sem mætir kröfum nútímamanns þar sem nýsköpun og tækni er leiðarljósið.“ Ljósmynd Guðrún Anna Finnbogadóttir

Það er mín skoðun að við eigum að einbeita okkur að hagkvæmni smæðarinnar og finna leiðir til að allir geti átt gott líf. Í stað þess að bóndinn sé étinn af stórbóndanum, stórbóndinn étinn af þorpinu, þorpið étið af borginni og borgin og Ísland étið af erlendum fjárfestum.


Í einu orðinu eigum við að verða umhverfisvæn og hlúa vel að landinu okkar og í því næsta eigum við að bunkast saman í sveitarfélögum sem þurfa bara að stækka þó þau geti ekki sinnt hlutverki sínu vegna landfræðilegra takmarkana. Úr verður nýbyggingar í nýjum kjörnum í stað þess að hlúa að litlu þorpunum okkar sem flest eru vel til þess búin að þjóna íbúum sínum.

Öll sú þekking sem heimamenn hafa á umhverfi sínu, náttúrunnu, fjöllunum, sjónum og sögunni á hverjum stað er mjög verðmæt auðlind sem erfitt er að viðhalda og gera sjálfbæra þegar allir eru farnir.

Þarf þetta örugglega að vera svona, ráðum við þessi stolta þjóð ekki við að verja okkar stolta fólk hvar sem það býr á okkar glæsilega landi? Ráðum við sem þjóð við það verkefni að skapa réttlátt þjóðfélag með blómlegum litlum þorpum og sveitum? Það er list að hlúa að því litla svo það blómstri og japönsk bonsai tré endurspegla það vel lítil og glæsileg þegar vel er hlúð að þeim. Hlúum að sérstöðunni, hlúum að því smáa.

Sameining sveitarfélaganna, landsbyggðin, pistill, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Patreksfjörður, úr vör, vefrit
„Öll sú þekking sem heimamenn hafa á umhverfi sínu, náttúrunnu, fjöllunum, sjónum og sögunni á hverjum stað er mjög verðmæt auðlind.“ Ljósmynd Guðrún Anna Finnbogadóttir


Comentários


bottom of page