Hér á hjaranum, utan við það sem flestum þykir byggilegt, þrífst harðgerð tegund sálna, þrjóskar með afbrigðum en ráðagóðar og ákaflega vinnusamar. Sálir sem hafa harnað í lífsbaráttunni og meyrnað í sigrunum og mennskunni sem er allt um lykjandi í fögrum fjallasölum kjálkans.
Tvífættu sálirnar standa í ströngu í vegagerð og virkjunum og steyta hnefann á loft í fiskeldismálum, horfa sorgmæddar eftir veiðiréttinum og þorskinum en sakna kannski ekki endilega kuldans og vosbúðarinnar á sjónum og á gólfinu.
Þær finna sér þó alltaf tíma til að skála og syngja, skokka og synda, skondrast út í náttúrunni og sinna sínum nánustu, hvernig sem veröldin snýst. Tvífættu sálirnar, hvar í veröldinni sem er, elska lífið og börnin sín.
En sagan geymir líka minningu um ferfætta sál sem svo sannarlega elskaði lífið og afkvæmi sitt, sál sem með ótrúlegum styrk og þrautseigju bjargaði lífi sínu og ófæddu afkvæmi. Hún Harpa var stólpagripur, mjólkaði með afbrigðum og var skapgóð og meðfærileg.
Þegar til stóð að hún mætti skapara sínum í sláturhúsinu á Flateyri tók hún til sinna ráða, sleit af sér öll bönd og stakk sér til sunds í ísköldum októbersjónum í Önundarfirði, á bryggjunni stóðu menn agndofa og störðu enda ekki algengt að kýr stökkvi með þvílíkum elegans yfir fiskikör af fullri stærð.
Í fyrstu stefndi Harpa út fjörðinn en snérist síðan hugur og setti stefnuna á Valþjófsdal, hún hefur sjálfsagt vitað sem var að á þeim bænum byggi sómafólk sem tæki henni vel. Völt á fótum en hnarreist og hvergi smeyk kom hún í land handan fjarðar og var þegar í stað vísað til fjóss, þar fékk hún sinn bás og undi hag sínum vel upp frá því.
Nafni hennar var þegar í stað breytt og hún kölluð Sæunn. Um vorið, nánar tiltekið á sjómannadaginn ól þessi merka sækýr kvígu sem nefnd var Hafdís. Þegar að leiðarlokum kom hjá Sæunni var hún felld í fjörunni þar sem hún kom á land og heygð, þar má nú sjá Sæunnarhaug.
Sæunn þótti einkennileg til augnanna, athugul og fylgdist vel með, næstum eins og mennsk.
Afrek Sæunnar vakti heimsathygli enda einstakt og verður vart leikið eftir af ferfættlingi af þessari stærð. En Sæunn er fyrirmynd, hún hafði markmið og hún gafst ekki upp, eigum við ekki að segja að það hafi verið hin vestfirska þrjóska og þrautseigja sem kom henni yfir fjörðinn og hver fer ekki á heimsenda ef lífi afkvæmis er ógnað, meira að segja hundruð kílóa kýr syndir án allra hjálpartækja, blautbúninga, froskalappa eða sundgleraugna, þvert yfir Önundarfjörð í október og gerum því skóna að hún hafi haft Hafdísi sína í huga.
Við erum þrjósk og þrautseig og erum stolt af því, og hananú.
Texti: Bryndís Sigurðardóttir
Comments