Þjóðlagasetur séra Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði var sett á fót árið 2006 og hefur verið starfrækt allar götur síðan. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í forsvarsmanni setursins, Gunnsteini Ólafssyni, á dögunum og aflaði sér fróðleiks um sögu, starfsemi og mikilvægi setursins.
Í Þjóðlagasetrinu er hægt að fræðast um íslensk þjóðlög, en í setrinu eru sjónvarpsskjáir þar sem efni um þjóðlagatónlist er sýnt, auk þess sem húsgögn, myndir, bækur og aðrir munir úr eigu Bjarna Þorsteinssonar og Sigríðar Blöndal konu hans eru sýndir. Bjarni bjó á Siglufirði í hálfa öld; hann flutti til Siglufjarðar sem ungur nýútskrifaður prestur og bjó fyrstu 10 árin í Maðdömuhúsi sem nú hýsir Þjóðlagasetrið, en það er elsta hús bæjarins.
„Við byrjuðum árið 2005 að safna íslenskum þjóðlögum, dönsum og hljóðfæraleik á íslensk alþýðuhljóðfæri og setrið var svo vígt af Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta Íslands, árið 2006. Við héldum söfnuninni áfram næstu árin og nú er kominn dágóður sjóður af efni.
Félag um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar keypti Maðdömuhúsið árið 2000 og lét færa það til upphaflegs útlits. Við fengum til þess styrk frá Fjallabyggð, fjárlaganefnd Alþingis og Húsafriðunarnefnd Ríkisins. Þá styrktu líka afkomendur Bjarna Þorsteinssonar setrið fjárhagslega. Fjárlaganefnd stóð vel við bakið á okkur fyrstu árin, bæði við að laga húsið og safna efni, en það var mjög kostnaðarsamt að koma þessu á laggirnar,“ segir Gunnsteinn.
Gunnsteinn segir að samstarf sé á milli Síldarminjasafnsins á Siglufirði og Þjóðlagasetursins þar sem hægt sé að kaupa sameiginlegan miða sem gildi á báða staði. Að sögn hans hefur þetta fyrirkomulag verið mikil lyftistöng fyrir setrið, því þótt aðeins lítill hluti gesta Síldarminjasafnsins komi í Þjóðlagasetrið séu þeir samt bróðurpartur gestanna. Þetta samstarf skipti því miklu máli.
„Við erum með opið þrjá mánuði á sumrin. Enginn starfar þar á veturna en við opnum fyrir gestum sem þess óska allt árið. Okkur hefur lengi langað að setja á fót rannsóknarsetur í íslenskri þjóðlagatónlist í setrinu, en höfum ekki fengið fjármagn til þess. Við höfum margsinnis farið fram á að gera samning um slíkt við Menntamálaráðuneytið en það hefur ekki tekist. Vonandi lukkast það seinna.
„Við keyptum hús við hliðina á Þjóðlagasetrinu, þar sem við hugðumst byggja upp aðstöðu fyrir fræðafólk, bókasafn og skrifstofu, en svo kom hið svokallaða hrun og tekjurnar drógust saman svo við seldum húsið aftur. En það kemur kannski að því að við getum fært út kvíarnar,“ segir Gunnsteinn.
Gunnsteinn er tónlistarmaður og stundaði nám í tónsmíðum í Ungverjalandi á árunum 1983-1987. Hann hélt svo áfram námi í Þýskalandi í hljómsveitarstjórn og tónfræði. Gunnsteinn segir að ungversk þjóðlagatónlist skipti Ungverja miklu máli. „Segja má að Ungverjar byggi menningu sína að stórum hluta á ungverskum þjóðlögum. Til að mynda læra öll börn þjóðlög í grunnskóla og námsefnið sem Zoltán Kodály tók saman um miðja 20. öld og gerði Ungverja að stórveldi í tónlist byggði fyrst og fremst á ungverskum þjóðlögum.
„Þegar ég byrjaði að leiðsegja þýskum ferðamönnum um Ísland saknaði ég þess að geta ekki leyft þeim að hlusta á íslensk þjóðlög í sinni hreinustu mynd. Það sem var til var oft í poppuðum útsendingum en það var ekki uppruni tónlistarinnar. Ég vildi komast að uppsprettunni sjálfri.“
Gunnsteinn er fæddur á Siglufirði og var þar hjá ömmu sinni á sumrin í æsku. Hann fór þangað árið 1997 og kynnti hugmyndir sínar um þjóðlagahátíð og þjóðlagasetur og talaði m.a. við Örlyg Kristfinnsson safnstjóra sem Síldarminjasafnsins sem tók hugmyndinni mjög vel og boðaði strax til fundar með fleiri bæjarbúum. Gunnsteinn segir að hann hafi ekki ætlað ekki að koma nálægt þessari uppbyggingu sjálfur en að Örlygur hafi hringt í hann tveimur árum síðar og sagðt honum að hann yrði að ýta þessu úr vör. Var þá stofnað Félag um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar og fyrsta þjóðlagahátíðin var haldin árið 2000.
Að sögn Gunnsteins hefur margt gerst tengt hátíðinni og setrinu síðan boltinn tók að rúlla. Ungt tónlistarfólk hafi fengið mikinn áhuga á íslenskum þjóðlögum, sama hvaða tónlistarstefnu það aðhyllist. Um gjörbreytt landslag sé því að ræða frá því fyrir árið 2000, þegar fáir létu sig íslensk þjóðlög varða. „Það er mikill sigur, að unga fólkið skuli sýna íslensku þjóðlögunum áhuga,“ segir Gunnsteinn.
Siglufjörður hefur einnig tekið stakkaskiptum frá því að fyrsta þjóðlagahátíðin var haldin. „Bærinn leit ekkert allt of vel út um aldamótin; mörg hús voru í niðurníðslu og fólk fluttist á brott. Nú er allt annað um að litast. Fjölmörg hús hafa verið gerð upp, ný fyrirtæki tekið til starfa og almennt ríkir mikil bjartsýni og ánægja í Fjallabyggð.
„Það er okkur mikil gleði að hafa fengið að taka þátt í þessari jákvæðu þróun og vonandi eiga bæði Þjóðlagahátíðin og Þjóðlagasetrið eftir að styrkja mannlíf á Siglufirði og í Fjallabyggð enn frekar. Þetta hefur verið eitt stórt ævintýri frá upphafi sem ekki sér fyrir endann á,“ segir Gunnsteinn Ólafsson tónskáld og þjóðlagasafnari að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments