top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Það sem þau kalla heim


Þingeyri, Haukur Sigurðsson, Dýrafjörður, Blábankinn, úr vör, vefrit, Arnhildur Lilý Karlsdóttir
Fyrirmyndar fjarfundaraðstaða á Þingeyri. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

„Tíminn líður hratt á gervihnatta öld“ sungu þau Pálmi, Eiríkur og Helga árið ‘86 í Eurovision. En lítið vissu þau þá, umvafin glansefni, með herðapúða og sítt að aftan, um hvað koma skyldi. Árið ‘89 tengdist Ísland alnetinu í fyrsta skiptið og var þá ekki aftur snúið. Internetið kom, sá og sigraði.


Með tilkomu internetsins hefur margt breyst. Ýmislegt skiptir ekki máli lengur, er óþarft eða úrelt og annað hefur komið í staðinn. Nú er til dæmis ekki lengur eins mikilvægt og áður að leggja ýmsan fróðleik á minnið eða læra utanbókar.

Fæstir muna lengur símanúmer og reiða sig á tæknina því allar upplýsingar, og í raunar stór hluti þekkingar, er aðeins í seilingarfjarlægð. Við bara „gúglum“ og tölvan eða snjalltækið færir okkur óhemju margar niðurstöður á aðeins örfáum sekúndum.
Blábankinn, störf án staðsetningar, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Arnar Sigurðsson, úr vör, vefrit
Með internetinu getum við bæði unnið og haft samskipti við aðra hvaðan og hvert sem er í heiminum. Ljósmynd Arnar Sigurðsson

Eitt af því sem fylgir tækniþróuninni er að sífellt fleiri störf eru unnin í gegnum tölvur. Sé internettenging til staðar er tæknilega séð hægt að vinna hvaðan sem er. Vera má að þetta verði einmitt einn af lykilþáttum í búferlaflutningum framtíðarinnar því eitt af því sem haldið hefur aftur af fólksfjölgun á landsbyggðinni er að ungt fólk flytur í burtu til að mennta sig en á sjaldan eða ekki afturkvæmt heim, því þó marga langi að komast að námi loknu aftur á heimaslóðir er þar oft á tíðum mikil fábreytni í störfum, eða þá að heimabærinn býður ekki uppá starfsumhverfi sem styður við menntunina.

Þetta hefur þó verið að breytast, því með internetinu getum við bæði unnið og haft samskipti við aðra hvaðan og hvert sem er í heiminum. Æ fleiri nýta sér hreyfanleikann sem þessu fylgir og kjósa að starfa án fastrar starfsstöðvar.

Í miðri lífskjarahringiðunni er meðal annars talað um lítinn kaupmátt, hátt húsnæðisverð og erfiðleika með daggæslu og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma er orðin sífellt áleitnari spurningin um lífsgæði og er ungt fólk í auknu mæli farið að horfa til annarra búsetusvæða en höfuðborgarinnar. Sem dæmi má nefna þá hröðu fólksfjölgun sem átt hefur sér stað á síðustu árum í næstu bæjum við höfuðborgina líkt og Reykjanesbær, Akranes, Hveragerði og Selfoss.

Landsbyggðin, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, úr vör, vefrit
Erfiðleikar varðandi daggæslu eru minni víða á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu

Í krafti internetsins er það nú ekki aðeins orðinn raunhæfur möguleiki að flytja til baka á heimaslóðir með fjölbreytta menntun að baki og starfa í samræmi við menntun sína, heldur er einnig orðið eftirsóknarvert að búa útá landi því þar má finna það sem margir upplifa sem meiri lífsgæði svo sem lægra húsnæðisverð, auðveldara aðgengi að daggæslu, styttri tíma í samgöngum, fyrir utan minni mengun, meira frjálsræði fyrir börn og betri tengsl við náttúruna.

Nú um liðna páska fylltist bærinn af fólki. Einmitt af fólki sem upphaflega flutti í burtu til að mennta sig, eignaðist svo tengslanet, maka og settist þar að. Þetta fólk kemur með börnin sín í fríum og heimsækir foreldra og heimaslóðir. Eitthvert þeirra gæti kannski hugsað sér að flytja aftur til baka því líkt og einhver sagði um páskana: „Það er gaman að sjá þau koma aftur og mest gleðst ég yfir því að þetta er það sem þau kalla „heima““. Líklegt er þróunin haldi áfram í þá veru að fólk leiti eftir meira frjálsræði og lífsgæðum og muni í framtíðinni fleiri kjósa að flytja aftur heim.

Arnhildur Lilý Karlsdóttir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Bæir víða um land fyllast af lífi í páskafríum, líkt og um síðastliðna helgi. Ljósmynd Arnhildur Lilý Karlsdóttir


Comments


bottom of page