top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Það er bara einhver stemning sem myndast“


Arnhildur Lilý Karlsdóttir, pistill, strandblak, Þingeyri, Dýrafjörður, Vestfirðir, Emil Gunnarsson, úr vör, vefrit
„Íþróttastarfið á djúpstæðar rætur á Þingeyri en Höfrungur er eitt elsta starfandi íþróttafélag landsins.“ Ljósmynd Emil Gunnarsson

Sumrin á Íslandi eru falleg. Líklega geta flestir sammælst um að gott íslenskt sumar sé með því allra besta sem gerist. Það er eitthvað við lyktina, birtuna, náttúruna. Allt iðar af lífi og þegar sólin skín flykkjumst við út og viljum gera helst allt útivið. En góð sumur koma ekki til okkar á færibandi og margir hugsa til hlýrri landa þegar talað er um strandblak. Þrátt fyrir óútreiknanlegt veðurfar á þessari eyju okkar hér í norður Atlantshafi hefur strandblak átt auknum vinsældum að fagna síðustu ár. Þó þeir allra hörðustu fari út í flestum veðrum þá er sumarið tíminn sem íþróttin blómstrar.

Yfir sumartímann eru haldnar fimm stigakeppnir á vegum Blaksambandsins sem gilda sem stigasöfnun fyrir Íslandsmótsið sem haldið er í lok sumars. Um síðastliðna helgi fór fram á Þingeyri annað stigamótið í þessarri mótaröð en ljóst er á nýjustu þátttökutölum úr fyrstu tveimur mótum sumarsins að algjör sprenging hefur orðið í iðkun íþróttarinnar.

„Í fyrra voru um 30 lið skráð til þáttttöku hér á Þingeyri og var það fjöldamet, en í ár eru 57 lið skráð“ segir Dýrleif Hanna Sigmundsdóttir mótstjóri.

Mótið var nú haldið í 16. skipti á Þingeyri en það má segja það sé mikilli framsýni og áræðni í forystu íþróttafélagsins Höfrungs að þakka að tveir strandblakvellir voru standsettir árið 2004. Þeir vellir voru þá meðal þeirra fyrstu á landinu en í dag má finna um 40 velli víðsvegar um landið. Íþróttin fellur á margan hátt mjög vel að aðstæðum hér á Þingeyri. Fyrir það fyrsta eru alla jafna aðeins tveir í liði svo krafan á fjölda þátttakenda er minni en í öðrum boltagreinum. Einnig eru umhverfisþættir heppilegir þar sem veðrátta í Dýrafirði er nokkuð mild, og svo er stutt að sækja hvítan strandsand í hina fögrðu Holtsfjöru í Önundarfirði.

Arnhildur Lilý Karlsdóttir, pistill, strandblak, Þingeyri, Dýrafjörður, Vestfirðir, Emil Gunnarsson, úr vör, vefrit
„Þrátt fyrir óútreiknanlegt veðurfar á þessari eyju okkar hér í norður Atlantshafi hefur strandblak átt auknum vinsældum að fagna síðustu ár.“ Ljósmynd Emil Gunnarsson.

Dýrleif, sem sjálf er gamall Höfrungur, segir alltaf mjög góða þátttöku á mótinu á Þingeyri. Hingað hafi frá byrjun sótt að miklu leyti sami kjarni fólks og því hafi myndast mjög vinaleg stemning meðal mótsgesta. Hún segir að til að byrja með hafi skemmtunin verið ríkjandi en með árunum hafi svolítið meira kapp færst í leikinn en hingað mæta nú sterkustu lið landsins. Aðstæður eru einnig mjög góðar fyrir fjölskyldur að koma saman og eitthvað að gera fyrir alla. Blaksvæðið er t.a.m. við hlið íþróttahúss og sundlaugar, og tjald- og leiksvæði þar hjá. Mótið hefur einnig verið haldið sömu helgi og bæjarhátíðin Dýrafjarðardagar og því hafi hátíðirnar tvær stutt við aðra með viðburðum og skemmtun fyrir gesti og þátttakendur.

Íþróttastarfið á djúpstæðar rætur á Þingeyri en Höfrungur er eitt elsta starfandi íþróttafélag landsins. Mikill metnaður er lagður í alla umgjörð um mótið en aðstandendum Höfrungs og sjálfboðaliðum hefur tekist að skapa einstaklega vinalegt og afslappað andrúmsloft svo fólk hefur orð á og sækir í að koma aftur.

„Það er einhver stemning sem ekki er hægt að lýsa því við höfum fengið allskonar veður, rigningu og ískulda, sól og brjálað gott veður, en það er bara einhver stemning sem myndast.“

Arnhildur Lilý Karlsdóttir, pistill, strandblak, Þingeyri, Dýrafjörður, Vestfirðir, Emil Gunnarsson, úr vör, vefrit
„Mótið var nú haldið í 16. skipti á Þingeyri en það má segja það sé mikilli framsýni og áræðni í forystu íþróttafélagsins Höfrungs að þakka að tveir strandblakvellir voru standsettir árið 2004.“ Ljósmynd Emil Gunnarsson


Comments


bottom of page