Listmálarinn Svavar Guðnason fæddist á Höfn í Hornafirði 1909. Hann er talinn vera einn af mikilvægustu málurum Íslands á 20. Öldinni og var hann róttækur meðlimur í COBRA listahópnum. Í Ráðhúsinu á Höfn í Hornafirði er staðsett safn sem tilheyrir Menningarmiðstöð Hornafjarðar og er tileinkað Svavari, svokallað Svavarssafn. Kjarni safneignar listasafnsins eru verk Svavars Guðnasonar.
Listasafnið stendur fyrir minnst þremur fjölbreyttum sýningum árlega og er lögð áherslu á að sýna verk Svavars yfir sumartímann.
Þessa dagana er verið að undirbúa opnun listasýningar sem ber nafnið Orkuhreyfingin og eru verk eftir Svavar Guðnason, Hildi Steinþórsdóttur og Rúnu Thors. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði á dögunum í Hönnu Dís Whitehead, safnverði safnsins og sýningarstjóra þessarar tilteknu sýningar.
Fræddi hún undirritaðan um safnið, starfið þar sem og verkin hans Svavars.
Sýningin stendur yfir frá 2. júní til 2. október næstkomandi og segir Hanna að Svavar hafi verið afar fjölbreyttur og áhugaverður listamaður og að gaman sé að skoða verk hans frá ólíkum sjónarhornum. Að sögn Hönnu er verið að rýna í taktinn í verkum hans að þessu sinni, en hún segir að mikil hreyfing hafi verið í verkum hans.
Svavar talaði um hlutverk náttúrunnar í verkum sínum, hrynjandina í landslaginu, víðáttuna og hreyfinguna, orkuhreyfinguna. Í samtali listamanna sýningarinn er þessi hreyfing ýfð upp, rannsökuð, skoðuð og sett í sterkt samhengi við uppsprettuna, náttúruna.
„Svo eru þeir listamenn sem sýna á þessari sýningu með honum, með mikla hreyfingu í sínum verkum og þá magnast þetta upp og verður skýrt. Svavar hafði aðra sýn á umhverfi sitt og við reynum að hafa hana líka. Við erum alltaf með þrjár sýningar á ári. Á sumrin er sýning tileinkuð honum, svo er fræðslusýning á haustin og svo einblínum við list og listamenn tengda svæðinu á vorin.“ segir Hanna.
Hanna segir að aðsóknin að safninu sé ágæt yfir höfuð. Hún segir að nokkrir þættir spili þar rullu. Enginn aðgangseyrir er að safninu og og er þetta eina listasafnið á stóru svæði. Einnig er lögð áhersla að vera með fjölbreyttar sýningar og unnið útfrá heimamönnum að einhverju leyti.
„Eins og fræðslusýningin í fyrra, Náin framtíð, hún fjallaði um nýja sýn á hesta. Það er mikil saga hér um Hornfirska hestinn og við vorum að reyna tengjast henni. Svo er talsverður ferðamannastraumur hingað á Höfn þannig að það er fín ásókn. Vorsýningin er svo stíluð inn á heimamenn og það sem er að gerast hér og þeir sækja hana yfirleitt vel.
Þetta er rosalega skemmtilegt og fjölbreytt starf og það er mjög gaman að vinna með listamönnunum. Ég kom hér fyrst fyrir 15 árum síðan úr vesturbænum fyrir tilviljun að vinna við ferðamennsku við jökulsárlón og er hér enn með hléum” segir Hanna Dís sem er menntaður vöruhönnuður.
Samkvæmt Hönnu er Svavarssafn enn ungt, en það var opnað árið 2011. Hún segir að það hafi verið í þróun og mótun síðan það var stofnað og sé það í raun ennþá. Hanna tók við safninu fyrir tveimur árum síðan og segist finna það vel að það sé enn fullt af möguleikum opnum.
„Við viljum líka móta okkur við samfélagið og finna út hvernig við getum unnið með því og fyrir það. Við höfum verið með barnastarf reglulega. Það er frábært listnám í barnaskólanum og listnámsbraut í framhaldsskólanum en það er ekkert listnám utan skólans og því höfum við reynt að vera með eitthvað fyrir þá sem vilja vera með í þannig starfi.“ segir Hanna að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments