Af hverju leggur ráðherra sveitarstjórnamála og Samband íslenskra sveitarfélaga ofuráherslu á að sameina lítil sveitarfélög, er það af einskærum illvilja og heimsku eða liggja gildar ástæður og rök þar að baki? Á fundi lítilla sveitarfélaga á dögunum kom í ljós að mörg þeirra eru alveg til í sameiningu, sum vilja meira að segja fá þessa valdbeitingu því mótspyrna og hrepparígur heima fyrir er svo sterkur. Umræða um sameiningar getur verið afar hörð og óvægin og ekki alltaf byggð á rökum. Við getum flaggað lágu skuldahlutfalli lítilla sveitarfélaga miðað við þau stóru og þóst gleyma því að mörg hver þeirra hafa ekki þurft að byggja neina skóla og þar af leiðandi ekki að skuldsetja sig, það er stóri nágranninn sem sér um lántökurnar og byggingarnar.
Er það alvöru sveitarfélag sem sinnir ekki þessum þáttum í sínu sveitarfélagi og kaupir hana alla að? Hvernig taka íbúarnir þátt í að móta skólastefnu í skóla sem er staðsettur í öðru sveitarfélagi?
Eftir því sem stjórnsýslan er fjarri íbúum, þeim mun minni skilningur er á þörfum íbúa og íbúarnir missa tengslin við stjórnsýsluna. Þetta þarf að leiðrétta með ákvæðum um dreifða stjórnsýslu. Til dæmis ef við sameinum Tálknafjarðarhrepp og Vesturbyggð væri hægt að hafa bygginga- og tæknisvið á Bíldudal, Fræðslu- og félagsmál á Tálknafirði og fjármálasvið á Patreksfirði. Það er hægt að setja reglur um viðveru starfsmanna og að fundir sveitarstjórnar sé á mismunandi stöðum. Þessa hugmynd má nota í öllum sameiningum og þetta getur komið í veg fyrir höfuðbóla- og hjáleiguhugsunarhátt sem þjakað getur bæði stóra og litla sveitarfélagið.
Lítil sveitarfélög standa sífellt frammi fyrir því að skólinn verði of lítill og í sameiningu við stærri sveitarfélag er hnífurinn oft á loft á litla skólanum. Í sameiningarviðræðum þarf að setja ákveðin viðmið, um til dæmis fjölda barna skóla svo sameinað sveitarfélag megi leggja niður þann skóla. Frá sjónarhorni barnanna sjálfra getur verið gott að sameina skóla.
Er hægt að setja reglur um þetta fyrirfram, um til dæmis samræmdan opnunartíma eða velja aðalsundlaug með lengri opnunartíma. Ræða þarf þennan þátt í sameiningarferlinu svo ekkert komi á óvart. Sundlaugar og íþróttahús er mjög mismunandi og vel hægt að nýta þessar fjárfestingar betur með góðu samkomulagi.
Einn punktur sem gjarnan er settur fram er að sveitarstjórn verði eingöngu frá stóra kjarnanum. Já, þetta er mjög líkleg niðurstaða miðað við núverandi lög. Allir nema einn í sveitarstjórn Árborgar búa á Selfossi, allir nema einn í sveitarstjórn Norðurþings búa á Húsavík og allir í sveitarstjórn Ísafjarðarbæjar búa á Ísafirði. Dreifð stjórnsýsla þar sem íbúum er tryggð raunveruleg völd og aðgengi að ákvörðunum gæti komið í veg fyrir þann doða sem oft skapast á minni stöðunum, doða sem er afleiðing valdaleysis, eða meints valdaleysis.
Það eru gerðar miklar kröfur til starfsmanna sveitarfélaga um góða en oft flókna stjórnsýslu, t.d. persónuvernd, skjalastjórnun, starfsmannamál, skjöluð og rökstudd ákvarðanataka, fjölmennar nefndir o.s.frv. Það er enginn vafi á að þessum málum er betur fyrir komið hjá stærri einingum.
Stórt og öflugt sveitarfélag getur fjárfest í sérfræðingum í mikilvægustu málaflokkunum og þannig bætt framkvæmd sveitarfélagsins. Þetta getur ekki annað en bætt þjónustu við íbúa. Íbúar eiga rétt á góðri, gegnsærri og réttlátri stjórnsýslu, hættan í mjög litlum einingum er að „freki kallinn“ taki yfir og ráði öllu.
Það þarf rándýran og flókinn hugbúnað til að reka sveitarfélag, það þarf allskonar verkfæri og allskonar starfsfólk, samnýting á þessum þáttum getur verið umtalsverður sparnaður og kemur ekki á neinn hátt niður á þjónustu við íbúa nema síður sé. Stórt sveitarfélag hefur meira vægi í opinberri umræðu og ætti að hafa meira afl til breytinga, til dæmis í vegamálum.
Það liggur beinast við að Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð sameinist og það ætti að geta gengið sársaukalítið fyrir sig en mér finnst ástæða til að staldra við og spyrja, hver er framtíðin, eigum við að taka strax stærra skref? Það fer gríðarleg vinna í að sameina sveitarfélag, um það ber öllum saman um, er það kannski tvíverknaður að hefja feril sem við vitum að innan áratugar er orðinn úreltur, jafnvel miklu fyrr. Hversu miklu betra er sveitarfélag með innan við 1500 íbúa miðað við 1000 manna eða 250.
Eigum við að sameina alla Vestfirði í eitt sveitarfélag, við höfum áratuga reynslu í samvinnu í Fjórðungssambandinu, getum við ekki bara haldið því áfram, bara núna sem eitt sveitarfélag. Eigum við að sameinast norður, við Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp, nýr og góður vegur um Dynjandisheiði ásamt Dýrafjarðargöngum eru skilyrði fyrir sameiningu. Það er óumdeilt að stærstu fyrirtækin í þessum sveitarfélögum hafa mikla hagsmuni af því að samgöngur lagist okkar í millum og stjórnsýsla verði einfölduð.
Eigum við að skríða í eina sæng með vinum okkar í Reykhólasveit og græja í sameiningu skipulagsmálin. Hvað með Reykhólasveit, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp og Árneshrepp, er það orðin góð og rekstrarhæf eining. Eða tökum þetta alla leið og stofnum sveitarfélagið Breiðafjörður og förum allan hringinn, frá Bíldudal og að Snæfellsbæ, í þessu sveitarfélagi eru margir öflugir kjarnar, valdahlutföllin ekki hættuleg. Með öflugum stjórnsýslumiðstöðvum víða um svæðið má draga úr fjarlægðarókostum en þetta gæti orðið mjög sterkt og fjölbreytt sveitarfélag. Þetta eru núna átta sveitarfélög, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Reykhólasveit, Dalabyggð, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Grundarfjarðarbær og Snæfellsbær, með tíu byggðakjörnum. Í púkkið mætti bjóða Strandabyggð, Kaldrananeshrepp og Árneshreppi.
Nú er lag að líta upp úr eigin koppi og horfa vítt yfir, hvernig byggjum við upp, sækjum fram.
Texti: Bryndís Sigurðardóttir
Comments