top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Samkeppnisaðilarnir eru góðir vinir“


Smiðjan brugghús, Vík í Mýrdal, kraftbjór, handverksbjór, suðurland, landsbyggð, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Þórey Richardt Úlfarsdóttir, rekstraraðili Smiðjunnar brugghúss. Ljósmynd Smiðjan brugghús

Smiðjan brugghús í Vík í Mýrdal var opnað í janúar mánuði fyrir ári síðan. Síðan þá hafa forsvarsmenn brugghússins síður en svo setið auðum höndum því milli fimmtán og tuttugu tegundir af bjórum hafa verið bruggaðar á þessu eina ári. Það eru spennandi tímar framundan hjá fyrirtækinu og munu forsvarmenn brugghússins fara á bjórhátíð til Barcelona á næstunni, fyrst íslenskra brugghúsa. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Þóreyju Richardt Úlfarsdóttur, einum eiganda og rekstraraðila Smiðjunnar á dögunum og forvitnaðist um hvernig gengi hjá þeim.

Þórey segir að hugmyndin að verkefninu hafi fæðst um jólin árið 2014 þegar einn af eigendunum fékk bjórbók í jólagjöf og sagði í kjölfarið í gríni hvort ekki væri rétt að opna brugghús. Það kom svo í ljós síðar að það var aðeins meiri alvara á bakvið þetta en stofnendur Smiðjunnar héldu í fyrstu.

Eigendahópurinn samastendur af Þóreyju, eiginmanni hennar Sveini Sigurðssyni, Vigfúsi Þór Hróbjartssyni og Vigfúsi Páli Auðbertssyni.


Samkvæmt Þóreyju var unnið með þessa hugmynd í dágóðan tíma áður en hún varð að veruleika. „Við þurftum að finna út hvernig við ætluðum að láta þessa hugmynd verða að veruleika og þetta þróaðist í leiðinni. Við tókum svo við húsnæðinu árið 2017 og vorum að endurbæta það í tæpt ár, unnum bæði um kvöld og helgar með börnin með okkur. Við erum með veitingastað líka með sama nafni og við ætluðum að opna hvort tveggja á sama tíma, en það fór svo að við opnuðum veitingastaðinn áður. Við opnuðum þar í apríl árið 2018 en við náðum ekki að fara af stað með brugghúsið fyrr en í janúar 2019, það var einfaldlega svo mikið að gera, mun meira strax í upphafi en við bjuggumst við.“ segir Þórey.

Smiðjan brugghús, handverksbjór, brugghús, kraftbjór, Vík í Mýrdal, suðurland, landsbyggð, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Á milli fimmtán og tuttugu bjórar hafa verið bruggaðir frá grunni í Smiðjunni síðan farið var af stað. Ljósmynd Smiðjan brugghús

Þórey segir að veitingahúsið þeirra sé þeirra stærsti kúnninn sem stendur, mest af bjórnum sem framleiddur er í dag er seldur þar og segir hún það vera ákveðinn kost að reka staðina samhliða. Það bjóði upp á að þau geti leikið sér með bjórana, prófað sig áfram og segir hún það vera mjög skemmtilegt og nauðsynlegt. „Við höfum ekkert verið að fara hratt út á almennan markað, við viljum sinna okkur sjálfum fyrst og svo viljum við ganga úr skugga um að varan okkar er góð, í staðinn fyrir að ganga á veggi með þetta.

„Það er ógrynni sem hefur komið og farið varðandi bjórana okkar. Eins og er erum við með níu bjóra frá okkur sjálfum á dælu á veitingahúsinu og ég hugsa að við séum búin að gera á milli fimmtán og tuttugu bjóra frá grunni. En uppskriftir breytast líka, þetta er eins og að elda, maður vill prófa sig áfram og gera betur.“ segir Þórey.

Að sögn Þóreyjar þá myndi muna miklu fyrir lítil brugghús ef hægt væri að selja bjór beint út frá framleiðslustað, en þessa dagana er frumvarp þess efnis í smíðum, auk frumvarps um að leyfa netverslun með íslenska bjórframleiðslu. „Í dag getur þú pantað bjór frá Bandaríkjunum og fengið hann heim að dyrum en þú getur það ekki varðandi íslenskan bjór. En þetta verður vonandi að veruleika með þessu frumvarpi, þetta brennur á flestum í þessum geira. Við erum mörg á afskekktum svæðum og fólk er ábyrgt þegar það kemur til okkar, það drekkur ekki og keyrir. Þannig að þetta er vandamál ef fólk vill taka vöruna með sér heim, það er ekki hægt. Það er vissulega hægt að nálgast eitthvað í vínbúðunum, en það getur verið erfitt að fá hillupláss þar.“ segir Þórey.

Smiðjan brugghús, handsverksbjór, kraftbjór, brugghús, bjór, suðurland, Vík í Mýrdal, landsbyggð, frumkvöðlastarf, veitingahús, úr vör, vefrit
Veitingastaður er einnig rekið samhliða Smiðjunni brugghúss og hefur gengið þar vonum framar að sögn Þóreyjar. Ljósmynd Smiðjan brugghús

Þórey segir að samfélagsáhrifin af stafseminni séu umtalsverð, en fyrirtækið hefur skapað þrettán heilsársstörf og er það allt aðflutt fólk sem bjó ekki í bænum áður. Hún segir að forsvarsfólk Smiðjunnar sé stolt að geta boðið upp á þá menningu sem fylgir kraftbjór og bætir hún við að í þessum geira sé virkilega vinalegur andi.

„Ég hef aldrei átt eins vinalega samkeppni, það hlýtur að teljast sérstakt þegar samkeppnisaðilarnir eru góðir vinir. Svo er auðvelt að leita ráða, við erum náttúrulega ný í þessu og maður getur þurft að spyrja reyndara fólk sem er búið að hlaupa á ýmsa veggi.“ segir Þórey.

Aðspurð segir Þórey það geta verið snúið að koma sér á framfæri í iðnaði þar sem ekki megi auglýsa vöruna, en segir hún að metnaður og dugnaður skili miklu. „Við reynum að vera virk á samfélagsmiðlum og maður getur auglýst sitt vörumerki án þess að vera beint að auglýsa áfengi.

Smiðjan brugghús, handverksbjór, kraftbjór, brugghús, bjór, veitingahús, frumkvöðlastarf, Vík í Mýrdal, suðurland, landsbyggð, úr vör, vefrit
Unnið var að endurbótum á húsnæðinu í eitt ár áður en opnað var, fór sú vinna fram á kvöldin og um helgar og voru börn eiganda oft viðstödd. Ljósmynd Smiðjan brugghús

„Svo er mikilvægt að halda góðum samböndum og vera sýnileg, sækja bjórhátíðir og ræða þetta þar sem maður kemur því maður þekkir mann og góð vara spyrst út. Svo auglýsir veitingastaðurinn okkar brugghúsið vel, það gengur vel þar og þetta helst allt í hendur. Þegar maður er með metnað og maður reynir og leggur allt sitt í þetta þá skilar það sér.“ segir Þórey galvösk að lokum.



Comentarios


bottom of page