Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar á dögunum.
Hilmar Jón Kristinsson á ættir að rekja til Skarðs á Skarðsströnd í Dalasýslu. Frá blauti barnsbeini hefur hann týnt og verkað æðardún og dreymir nú um að koma æðadúnssængum sínum á markað erlendis. Undir Skarð heyra hvorki meira né minna en 63 eyjar og því eru hæg heimatökin að nýta dún á þeim slóðum. Hilmar fundar þessa daga með ýmsum aðilum um að koma einni sjálfbærustu lúxusvöru í heimi á markað, en dúnsængurnar hefur hann framleitt og selt undir nafninu Royal Eiderdown.
„Formóðir mín, hún Ólöf ríka, var fyrst allra til að selja út æðadúnssængur á 15. öld. Þannig að við erum svolítið að feta í fótspor forfeðranna að því leitinu til, þ.e. að halda við viðskiptum í þessu nafni.
Ég er alinn upp við meðferð æðardúns og týnslu hans úr eyjunum okkar og þekki það ferli út og inn, alveg frá hreiðrí í sæng. Fyrstu árin og alveg framundir fermingu var vorið undirlagt varðandi þetta og selveiðar og annað. Þetta er vorferli sem hefur lifað alla tíð frá minni æsku og til dagsins í dag.“ segir Hilmar.
Hilmar segir að tímabilið byrji í kringum 20. maí ár hvert og og er út júní og um heilmikið ferli er að ræða. Dúnninn er tíndur úr hreiðrunum, honum safnað saman og verkaður. Svo fer hann í þurrk og svo í grófhreinsun. Í framhaldi af því er hann fínhreinsaður, reykhreinsaður og fíberhreinsaður. Úr því ferli fer hann í svokallaða fjaðrartínsluvél, látinn snúast þar og fer svo í svokallaða handfjaðrartínslu. Þar situr fólk við borð og fer í gegnum hvert einasta gramm á dúninum og handtínir úr honum það sem vélar hafa ekki náð.
„Þá er hann yfirleitt tilbúinn til útflutnings, en við höfum breytt þessu aðeins, við fórum í að fullvinna hann meira hér á landi. Ég fór til Japans og lærði að þvo dúninn og verka hann til fullnustu, það ferli kunni ég ekki, en lærði sem sagt að verka dúninn alla leið til sængurgerðar. Við erum mestmegnis hætt að flytja hann út sem hráefni frá okkur, en við vorum með í 20 ár með hreinsunarstöð þar sem við hreinsuðum dúninn fyrir bændur hvarvetna af landinu og sendum út á Japans markað. Við hættum svo öllum þannig rekstri árið 2013, þá hættum við hrávinnslu og vinnslu fyrir bændur, það var komin samkeppni og lítið úr þessu að hafa, bara kostnaður. Það var því sjálfhætt og við lögðum við þann rekstur niður í kjölfarið.“ segir Hilmar.
Að sögn Hilmars byrjaði hann að framleiða sínar fyrstu sængur í kringum árið 1992 og var þá að búa til sængur fyrir bændur sem áttu dún hjá honum. Bændurnir voru að gefa börnum og barnabörnum þessar sængur í fermingargjöf og segir Hilmar að starfið hafi þróast í gegnum árin úr því að framleiða æðardúnssængur úr skítugum æðardún í að fullvinna hann og búa til lúxusvöru úr honum.
„Planið er að selja vörur á erlendan markað, það er verið að leggja drög að því að færa út kvíarnar og reyna að gera eitthvað af viti úr þessu. Það eru vangaveltur og fundir varðandi þetta, verið að þreifa á ákveðnum aðilum og sjá hvort að þetta gangi upp. Japaninn er mjög stór og sterkur í þessu og það er erfitt að keppa við hann, hann er með þetta um allan heim.
Tíminn leiðir í ljós hvernig þetta fer og hvort að það borgi sig að eiga við þetta, það er mjög kostnaðarsamt að fara út í þetta af fullum þunga, maður þarf að gera þetta í einhverjum hænuskrefum. Það eru ekki heldur margir í þessu hér á landi, ég veit um einn annan aðila sem er eitthvað að brasa við þetta“ segir Hilmar.
Hilmar segir að þróunin sé þannig að heimurinn er orðinn opnari núna gagnvart aðgengi að fólki og mörkuðum, það er auðveldara viðviks í dag heldur en var bara fyrir 10 árum síðan bæði að kynna vöruna og selja hana. Að sögn Hilmars skiptir máli að ná í viðskiptavininn og finna þá, sem tekur tíma og er vandasamt verk.
„Eins og staðan er núna þá brosi ég út í annað, ég er ekki farinn að brosa út í bæði, en þetta lítur ágætlega út. Þetta er náttúrulega ein elsta sjálfbæra lúxus vara í heimi, það liggur í augum uppi, þetta var einu sinni kóngavara. Fuglinn er ekki drepinn eða reittur lifandi á nokkurn hátt, hann kemur alltaf á sama stað að verpa ef hann finnur frið til þess. Svo eru auðvitað ákveðin forréttindi að fá að umgangast æðarvarp, þetta er útivist og útivera almenn. Maður er að vinna með höndunum og líka hausnum og er að lifa og njóta í leiðinni. Maður bara tæmir hausinn, hlustar á fuglasönginn umhverfis mann og svo er best ef síminn þagnar alveg!“ segir Hilmar hlæjandi að lokum.
Commenti