top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Síðasti vetur


Vetur, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, snjór, ófærð, landsbyggðin, Vestfirðir, Þingeyri, úr vör, vefrit
„Það er annað að búa í litlu bæjarfélagi útá landi en í borginni. Lífshættirnir eru aðrir. Búsetuformið kallar eftir öðrum takti.“ Ljósmynd Arnhildur Lilý Karlsdóttir

Fyrir stuttu hitti ég á förnum vegi gamlan kunningja sem ég hafði ekki hitt lengi, líklega ekki í nokkur ár. Líkt og yfirleitt miðast slík samtöl við upprifjun. „Hvað hefurðu verið gera? Ertu enn fyrir vestan? Áttu þessi tvö börn? Varstu ekki að…“ Og svo er stiklað á stóru eins og minnið leyfir.

„Já Vestfirðir segirðu!“ sagði vinur minn, „var ekki síðasti vetur alveg skelfilegur?“ Ég horfði á hann reiðubúin að bregðast við spurningunni þegar…ekkert svar kom upp í hugann. Þessi spurning sló mig útaf laginu.

„Skelfilegur, af hverju? Hvað var að gerast síðasta vetur?“ hugsaði ég, en gat í fljótu bragði ekki fundið neitt skelfilegt í handraða minninganna.

Í tilraun til að vera einhverju nær rifjaði ég upp í flýti veturinn í tímaröð meðan spurningin lá í loftinu ósvöruð. Eftirá að hyggja hefði ég auðvitað bara átt að spyrja hvað hann ætti við, en í sannleika sagt þá datt mér það ekki í hug á þessari stundu.

Ég var búin að standa vandræðalega lengi í þögn og reyna að muna, þegar loksins tók að rofa til hjá mér. Veðrið. Auðvitað.* Síðasti vetur var all harður, já eða bara mjög harður. Yfir landið gengu lægðir á lægðir ofan, ekkert lát var á gulum og appelsínugulum veðurviðvörunum svo fólkinu á Þingeyri (og líklega um allt land) þótti orðið nóg um. Sjaldan síðustu ár og áratugi hafði verið eins oft ófært yfir á Ísafjörð. Fyrir þá sem ekki vita tilheyrir Þingeyri Ísafjarðarbæ þangað sem íbúar sækja töluverða þjónustu. Þó er minniháttar þjónusta og fjarþjónusta í boði á Þingeyri líkt og víða í minni bæjarfélögum og er t.d. stórfín kjörbúð rekin af metnaði og alúð þangað sem flestir bæjarbúar sækja ferskvöru líkt og mjólk og brauð.


Það var því nýtt fyrir mér, borgarbarninu, að upplifa síðastliðinn vetur að ekki væri hægt að kaupa mjólk af því að mjólkurbíllinn komst ekki margar daga í röð vegna ófærðar. Og það var ekki bara mjólkin því ófærðin riðlaði þjónustu á til dæmis pósti, ferðum lækna yfir á heilsugæsluna á Þingeyri, strætóferðum og birgðaflutningum á matvælum.

Vetur, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, snjór, ófærð, landsbyggðin, Vestfirðir, Þingeyri, úr vör, vefrit
„Skelfilegur, af hverju? Hvað var að gerast síðasta vetur?“ hugsaði ég, en gat í fljótu bragði ekki fundið neitt skelfilegt í handraða minninganna.“ Ljósmynd Arnhildur Lilý Karlsdóttir

Þar sem ég stóð þarna hvarflaði hugur minn snöggvast til fólksins á Þingeyri. Það er annað að búa í litlu bæjarfélagi útá landi en í borginni. Lífshættirnir eru aðrir. Búsetuformið kallar eftir öðrum takti.

Við lögum okkur öll að aðstæðum en þeir sem búa útá landi eru viðbúnir. Ófærðin kemur aldrei á óvart. Fólk birgir sig og gerir hvað það getur til að lifa við þessar aðstæður sem verða fljótt all venjulegar. Hluti af hinu daglega lífi.

Vinur minn horfði á mig og beið eftir svarinu sem nú loksins kom. „Neeeeeiii“ sagði ég með semingi. „Síðasti vetur var kannski snjóþungur en ekkert óbærilegur.“ Og það var satt. En samt sat spurningin í mér eftir að samtalinu lauk. Af hverju snerti síðasti vetur ekkert við mér?

Ég áttaði mig á því hversu lánsöm ég er. Síðastliðinn vetur var sannarlega harður en staðreyndin er að hann var ekki jafn harður fyrir alla. Við fjölskyldan bjuggum í hlýju húsi, höfðum vinnu sem var í göngufæri, áttum góð hlífðarföt og fullan frystiskáp af mat. Þessi skerðing á þjónustu snart okkur ekki dýpra en að mjólkurleysinu sem við leystum með varabirgðum af g-mjólk. Vandinn leystur. En ástandið hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þá sem til dæmis þurftu að reiða sig á lyfjasendingar og heilbrigðisþjónustu. Fyrir þá hefur síðastliðinn vetur líklega verið erfiður og jafnvel skelfilegur.

*Já ég veit Covid er líka hluti af ástandi síðastliðins vetrar, en þessi pistill er bara ekki um heimsfaraldurinn.



Bình luận


bottom of page