Sauðfjársetur á Ströndum er safn um allt sem við kemur sauðfjárbúskap og var opnað árið 2002. Safnið er opið yfir sumartímann og í tengslum við viðburði og fyrir hópa að vetrarlagi. Aðalsýningin sem er alltaf þar uppi fjallar um sauðfjárbúskap og svo eru líka þrjár aðrar sýningar sem skipt er út reglulega. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í framkvæmdastjóra safnsins, Ester Sigfúsdóttur, á dögunum og forvitnaðist um hvað fari fram á safninu.
Ester segir að í augnablikinu sé ein tímabundin sýning hjá þeim um siðinn að senda börn í sveit. Mjög margir eiga minningar frá slíkri dvöl, oftast góðar en stundum slæmar, og mjög margir gestir hafa þörf fyrir að segja okkur sína sögu eftir að þeir skoða hana.
„Svo erum við með spennandi sýningu um álagabletti á Ströndum, settum hana upp árið 2013 og okkur hefur gengið illa að taka hana út aftur og kannski verður hún bara þarna áfram um ókomin ár. Hún er vinsæl meðal ferðamanna og hefur ratað inn í ferðabæklinga. Svo erum við með sögusýningu um Strandir árið 1918,“ segir Ester.
Í Sauðfjársetrinu er rekið kaffihús sem er kallað Kaffi Kind og svo eru haldnir ýmsir viðburðir sem tengjast safninu. Meðal þeirra eru árvissst þjóðhátíðarkaffihlaðborð þann 17. júní og Furðuleikar á Ströndum sem eru haldnir í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Furðuleikarnir verða 30. júní þetta árið, þetta er fjölskylduskemmtun þar sem keppt er í ýmsum furðulegum greinum, eins og öskurkeppni og kastkeppnum þar sem rekaviðardrumb, girðingastaurum eða stígvélum kastað eins langt og hægt er.
Náttúrubarnahátíð er haldin í Sauðfjársetrinu í júlí mánuði, en yfir sumarið er starfræktur Náttúrubarnaskóli í tengslum við safnið og byrjaði einmitt í vikunni með vikunámskeiðum fyrir náttúrubörn í samvinnu við sveitarfélagið Strandabyggð.
Auk þess má nefna að ýmsir viðburðir eru í safninu yfir vetrartímann og opnað fyrir hópa sem vilja koma í kaffi eða súpu eða skoða sýningarnar. Stórmögnuð sviðaveisla er t.d. alltaf haldin í otkóber og þjóðtrúarkvöldvaka í september.
„Svo er stærsti viðburðurinn hjá okkur í ágúst, þá er haldið Íslandsmeistaramótið í hrútaþukli. Þar koma jafnan á bilinu 300 til 500 manns. Keppt er í tveimur flokkum, bæði flokki vanra hrútadómara og óvanra og hræddra þuklara. Hrútaþuklið er mjög vel sótt, það kemur fólk allstaðar að á landinu. Þetta er viðburður sem við höfum verið með frá því að safnið var stofnað. Það er mikill heiður að vinna Íslandsmeistaratitil í hrútaþukli og er þetta keppni milli þuklara, en ekki hrútanna, öfugt við hrútasýningarnar sem bændafólk þekkir vel.
Þetta er ákveðin færni, þú þarft að hafa þekkingu á hvað einkennir góðan hrút, sérstaklega þegar þú keppir í flokki vanra þuklara. Einungis einu sinni hefur kona unnið keppnina, enda eru fleiri karlmenn sem taka þátt,“ segir Ester.
Ester býr á Kirkjubóli, sem er næsti bær við Sauðfjársetrið. Hún segist hafa verið búin að fylgjast með starfsemi setursins alveg frá því að það opnaði. Hún flutti á Strandir árið 2000 og hóf sjálf störf á setrinu sem framkvæmdastjóri árið 2012. Árlega heimsækja á bilinu 5000 til 6000 gestir safnið og eru það bæði innlendir og erlendir gestir að sögn Esterar, sem finnst mest gefandi að hitta fólk og spjalla við það.
Samkvæmt Ester fá þau mikla athygli frá ferðamönnum og einnig frá íslensku bændafólki, sem kemur mikið til þeirra. Erlendir ferðamenn koma hingað uppfullir af spurningum um sauðkindina, þeir hafa séð hana við veginn allan hringinn um landið og eru forvitnir um hana.
„Í fyrravor tókum við aðalsýninguna í gegn, breyttum henni og skiptum út myndum. Hún hafði verið að miklu leyti eins frá upphafi svo það var alveg kominn tími á breytingu. Svo erum við núna að bæti aðgengi fyrir fatlaða á safninu. Ég myndi segja að safnið og starfsemin hafi gífurleg samfélagsleg áhrif. Húsið er 60 ára gamalt og var félagsheimili sveitarinnar og þetta er svolítið ennþá félagsheimili, menningarmiðstöðin í sveitinni. Fólk kemur hingað í kaffi, hittist og spjallar.
„Yfir vetrartímann höfum við ýmsa viðburði sem eru fyrst og fremst fyrir Strandmenn og nágranna þeirra, höldum sögukvöld, höfum opna fyrirlestra, tónleikar og leiksýningar eru stundum á dagskránni og svo spilum við reglulega félagsvist.“ segir Ester að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments