Fyrirtækið Saltverk hóf að framleiða salt á Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum árið 2012. Á þeim tímapunkti var engin saltframleiðsla á landinu að sögn Björns Steinars Jónssonar, saltara, sem leitt hefur verkefnið frá byrjun. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Birni á dögunum og forvitnaðist um hvernig hugmyndin kviknað og hvernig framleiðslunni er háttað.
Björn segir að hvergi annarsstaðar séu notaðar sömu aðferðir við saltframleiðslu. Sjó er dælt í tanka og þar er hann hitaður við upp með jarðhita. Þegar náð er ákveðnu seltustigi þá er saltpækilinn færður yfir á saltpönnur og þar er saltið skorið og þurrkað. Að því loknu er saltið tilbúið til pökkunar.
Að sögn Björns er heita vatnið sé aðal orkugjafinn sem notaður er, þó þeir notist aðeins við rafmagn varðandi nokkrar dælur. Að sögn Björns varð hugmyndin til yfir kaffibolla þar sem hann ásamt öðrum spáðu í hvernig hægt væri að nýta jarðvarma við framleiðslu.
Björn var á sínum tíma búsettur í Kaupmannahöfn, var í námi þar, og hafði mikinn áhuga á mat og matargerð. Hann segir að hann hafi ásamt félögum sínum verið að velta á milli sín hugmyndum um hvað væri hægt væri að framleiða á Íslandi og komist að því að það væri ekki framleitt salt á Íslandi á þessum tíma. „Við gerðum tilraunir til þessarar framleiðslu með þeirri aðferð sem um ræðir og komumst að því að það væri hægt.
„Við vissum að það hafði verið framleitt salt áður á Reykjanesi, fyrir einhverjum 200 árum og þar er heitt vatn stutt frá sjó. Þannig að þetta var snjóbolti sem byrjaði að rúlla. Í byrjun var framleiðslan í litlu magni og einungis seld í verslanir innanlands, en svo hefur bæst við eftir það.“ segir Björn.
Að sögn Björns kaupa ferðamenn vörur Saltverks mjög mikið. Hann segir að hugmyndin hafi alltaf verið að framleiða vöru til útflutnings og gerðir hafi verið samningar fljótlega í ferlinu við erlendar verslunarkeðjur á borð við Whole Foods í Bandaríkjunum. Auk þess selur fyrirtækið beint til veitingastaða, bæði hérlendis sem erlendis. Björn segir að útflutningur fyrirtækisins á þessu ári verði örugglega upp undir helmingur af veltunni. Hann segir að drjúgur hluti sölunnar hérlendis sé til ferðamanna sem halda áfram að kaupa vörunna eftir að þeir komi til síns heima.
„Ég hugsa að fjórðungur af sölunni sé til íslenskra neytenda. Það er engin spurning að það að vera frá Íslandi vekur athygli og við miðum markaðssetninguna útfrá því.
„Við seljum til margra af bestu veitingastaða í heimi og þar skiptir gæði vörunnar mestu máli og einnig hvernig við framleiðum og hvar. Við leggjum áherslu á sjálfbærni og lífræna vöru í góðum gæðum og það að við erum að framleiða þar sem hreinleiki náttúrunnar er meiri en víða annarsstaðar, það skilar sér í vörunni. Það er engu bætt við og ekkert tekið út, við sjóðum niður sjó og fáum salt.
„Það er ansi frábrugðið frá iðnaðarsalti, bæði í framleiðsluaðferðum og á framleiðslustöðum þar sem menn þurfa jafnvel að hreinsa sjóinn til að geta framleitt salt.“ segir Björn.
Samkvæmt Birni er áframhaldandi uppbygging á útflutningi þeirra framundan og stefnir fyrirtækið á að auka sölu til Bandaríkjanna, en þar hefur verið töluverður vöxtur undanförnu að hans sögn og munu forsvarsmenn fyrirtækisins taka þátt í sýningu þar í landi sem sett er á fót fyrir matvælaframleiðendur.
Líkt og áður sagði var enginn að framleiða salt á Íslandi þegar Saltverk fór af stað með sína framleiðslu en Björn segir að fyrirtæki hafi farið stað á Reykhólum með saltframleiðslu u.þ.b. ári eftir að Saltverk hóf starfsemi. Auk þess hafa verið tilraunir til framleiðslu á salti á Reykjanesi fyrir sunnan samkvæmt Birni, en hann segir að það hafi verið með talsvert öðrum hætti og heldur að þar sé ekki framleitt neitt í dag.
Björn segir að fyrirtækið hafi fengið góðan stuðning og velvilja nærsamfélagsins fyrir vestan að því marki sem það nær. Ekki sé um að ræða marga íbúa þar né aðila í atvinnurekstri en þeir sem þar eru hafi tekið þeim vel. Samkvæmt Birni hefur starfsemin stækkað og þróast ár frá ári og sé með talsvert öðru sniði en þegar farið var af stað. „Frá fyrsta ári höfum við bætt við framleiðslugetu og það hefur alltaf verið þannig að við höfum getað selt allt sem við framleiðum.
„Við erum með framleiðslu og að hluta til pökkun fyrir vestan, svo skrifstofu og pökkun í Reykjavík og svo vöruhús bæði í Danmörku og Bandaríkjunum og samtals fimmtán starfsmenn. Þannig að þetta hefur breyst frá því að við fórum af stað, þá skar ég saltið, keyrði það í bæinn, pakkaði því og fór með það í þær búðir þar sem þetta var til sölu.“ segir Björn að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
留言