Texti: Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Eflaust bregður einhverjum. Sjómannadagur nýafstaðinn, hinir fræknu dáðadrengir og mellur koma málinu ekkert við. En það er nú svo að dáðadrengirnir hér í denn, og líklegast enn, koma glaðir og reifir í land eftir langa túra. Og hvað skyldi vera eðlilegra en sletta aðeins úr klaufunum. Þessi frasi, sem er titill greinarinnar, lifir enn í tungutaki í einhverjum sjávarþorpum, sem betur fer á undanhaldi, en er ekki að finna á prenti eða fræðaskrifum – ef svo er þá lýsi ég hér með eftir því. Uppruninn er óljós en merkingin augljós, gildishlaðin ódulin drusluskömmun á konur.
Sjómennskan er aðdáunarvert starf. Þar er tekist á við ýmsar aðstæður, oft lífshættulegar, erfiðir og langir dagar. Þetta er atvinnugrein sem hefur haldið lífi í hinni í íslensku þjóðarsál svo ekki sé minnst á þjóðarbúskapinn.
Fjarvera frá fjölskyldum, afmælisbörn sem sakna pabba. Gefur kannski vel í aðra hönd en ýmsu er fórnað á móti.
Síðust af öllum skal ég lasta sjómenn en það þarf tvo til að dansa tango. Í sjómannadagsræðu fyrir nokkrum árum talaði Helgi Seljan svo fallega um sjómannskonur, þær sem heima sitja og sinna heimili, börnum, vinnu og halda hjólunum gangandi. Það er vel, enda veit ég það af eigin raun að sjómannskonulífið er ekki alltaf dans á rósum. En fyrst nóg hefur verið skrifað um sjómenn og á tíðum sjómannskonur ætla ég þá aðeins að minnast á skipa”mellurnar”. Konurnar sem fengu á sig druslustimpil fyrir það að gamna sér með sjómönnum sem komu í land.
Af því að fólk skemmtir sér og lifir ástarlífi, sumir full frjálslegu að annarra mati, en hvers er það að dæma? Hvern á að dæma? Eftir að hafa tekið viðtöl í sjávarþorpum vítt og breitt um landið veit ég að orðspor þeirra lifir. Fólk man. Þorpið man. “Þessar sem voru að kíkja í skipin, nei, þær búa ekki hér lengur”. Skyldi einhvern undra, þegar 20 árum síðar er enn hægt að drífa stimpilinn upp á borðið.
Í kjölfar allrar umræðu um drusluskömmun, Metoo og annarrar þjóðfélagsumræðu skulum við hugsa okkur aðeins um áður en gamlar gróusögur eru rifjaðar upp. Ísland er nefnilega frekar lítið. Við segjum sögur, og oft er nú sagt að það megi ekki skemma góða sögu með sannleika. Og sögurnar og slúðrið skapa orðspor sem erfitt er að afmá.
Ástarlíf fólks virðist vera sérstaklega áhugavert umtalsefni. Eftir að fólk hætti að nenna að slást á böllum svo heitið geti, þá er allavega hægt að ræða hver fór heim með hverjum. En ef það eru tveir að dansa tango, af hverju virðist annar dansarinn sitja eftir í drullupollinum á meðan hinn gengur hreinn og strokinn í burtu?
Comments