top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Norðanáttin gustar

Texti: Aron Ingi Guðmundsson

Norðanátt, Startup Stormur, norðurland, frumkvöðlar, nýsköpun, nýsköpunarhraðall, hraðall, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Fulltrúar Kvarnar, Vallhumals og Ísponicu, sem taka þátt í hraðlinum, á vinnustofu á Húsavík. Ljósmynd aðsend frá Norðanátt

  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar síðastliðinn föstudag.


Í augnablikinu stendur yfir nýsköpunarhraðallinn Startup Stormur á Norðurlandi. Hraðallinn er hluti af Norðanátt, en það er hreyfiafl nýsköpunar sem miðar að því að auka fjárfestingar á svæðinu, skapa kraftmikið umhverfi og þétta möskvana í stuðningsneti frumkvöðla á Norðurlandi. Norðanátt sem hófst árið 2021, stendur fyrir fjölda viðburða á hverju ári og styðja viðburðirnir við grænar nýsköpunarhugmyndir á ólíkum stigum. Hugmyndirnar eiga það svo sameiginlegt að hafa skírskotun í tengsl matar, vatns og orku.

Að verkefninu Norðanátt koma EIMUR, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) með stuðning frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu. Þá var stuðningsfyrirtækið RATA einn stofnaðili verkefnisins ásamt fyrrnefndum aðilum.

Startup Stormur er haldinn nú í þriðja sinn. Hraðallinn hófst þann 4. október síðastliðinn og stendur yfir í sjö vikur, eða til 16. nóvember næstkomandi. Anna Lind Björnsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE segir að hraðallinn sé hannaður með þarfir þátttakenda í huga og að skilyrði fyrir þáttöku sé að verkefnin séu komin af byrjunarreit.

„Hraðallinn fer að mestu leyti fram á netinu þar sem Norðurlandið er frekar stórt, og við viljum að allir geti tekið þátt óháð búsetu. Það er fræðslufundur einu sinni í viku þar sem farið er m.a. yfir rekstraráætlanir, viðskiptaáætlanir, markaðssetningu, samskipti og auglýsingar. Í ár eru sjö teymi þátttakenda og fara þau einnig á mentorafundi með reynslumiklu fólki úr atvinnulífinu, fjárfestum, framkvæmdastjórum og ýmsum fyrirtækjum. Auk þess veitum við, sem stöndum að Norðanáttinni, þáttakendum líka ráðgjöf.“ segir Anna Lind.

Norðanátt, Startup Stormur, norðurland, frumkvöðlar, nýsköpun, nýsköpunarhraðall, hraðall, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Þáttakendur í Startup Stormi 2023. Ljósmynd aðsend frá Norðanátt

Hún segir að mikil eftirsókn sé í hraðalinn og að hingað til hafi verið fleiri umsóknir en hægt sé að taka við. Að sögn Önnu Lindar hittast teymin líka í eigin persónu á þremur vinnustofum yfir þessar sjö vikur, því mikilvægt sé að hittast og efla tengslin á milli þáttakenda.

„Þó þau séu með mismunandi hugmyndir þá eru þau öll að ganga í gegnum það sama og geta deilt sinni reynslu. Þessi hraðall hjálpar verkefnunum og hraðar ferlinu á hugmyndavinnunni og þau halda svo áfram með sín verkefni en geta alltaf leitað til okkar.

Svo bjóðum við upp á mentor fundi eftir hraðalinn, sem er svona smá eftirfylgni og hraðallinn endar á lokaviðburði þar sem þáttakendur kynna verkefni sín fyrir fullum sal af gestum, fjárfestum og sveitastjórnarfólki, auk þess sem þátttakendum er boðið að sækja um að vera með á Fjárfestahátíðinni á Siglufirði sem er á hverju vori.“

Umrædd Fjárfestingarhátíð er hluti af viðburðum Norðanáttar, ásamt Startup Stormup. Að auki býður Norðanáttin upp á Norðansprotann, en það er nýsköpunarkeppni fyrir aðila sem eru á allra fyrstu stigum með hugmyndir sínar. Að sögn Önnu Lindar er mikil gróska í frumkvöðlastarfi og nýsköpun um allt land og þó að Norðanáttin hafi verið sett á fót með það markmið að efla nýsköpun á því svæði þá gleðjist þau að sjá það gerast um allt land.

„Sunnanátt og Austanátt eru farnar af stað fyrir sunnan og austan og svo er líka hraðall á Vestfjörðum. Það er mikið að gerast og við fögnum því að svona hraðlar spretti upp um allt land.

Fólk trúði ekki fyrst hvað væri mikið af frumkvöðlum á Norðurlandi og fannst skrýtið að við ætluðum að keyra svona hraðal á hverju ári. En það er miklu meiri gróska en fólk grunaði og það er mjög gaman að fylgjast með þessum verkefnum og sjá mörg þeirra ná flugi.“ segir Anna Lind full af eldmóði.

Comments


bottom of page