Fjölskylduhátíðin Náttúrubarnahátíð á Ströndum var haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi laugardaginn 11. júlí síðastliðinn. Þetta var í fjórða sinn sem hátíðin var haldin og var hún með heldur viðaminni þetta sumarið en undanfarin ár. Náttúrubarnahátíðin er haldin á vegum Náttúrubarnaskólans sem hefur verið starfrækur á Sauðfjársetrinu síðan sumarið 2015 og stendur fyrir fjölbreyttu námskeiðahaldi yfir sumarið fyrir börn á öllum aldri. Hægt er að lesa meira um Náttúrubarnaskólann hér: https://www.urvor.is/post/natturubarnaskolinn-2019
Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Dagrúnu Ósk Jónsdóttur, sem hefur haldið utan um hátíðina. Dagrún segir að veðrið hafi leikið við gesti hátíðarinnar, sem skipti vissulega sköpum.
„Náttúrubarnaskólinn hefur gengið vel í sumar og náttúrubarnahátíðin gekk líka ljómandi vel og var skemmtileg,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og yfirnáttúrubarn: „Við vorum mjög heppin með veðrið en það skiptir auðvitað öllu máli á svona hátíð sem fer að langmestu leyti fram utandyra að veðrið sé gott“.
Hátíðin er nokkuð sérstök, en á henni er fjölbreytt dagskrá sem einkennist af útivist, fræðslu og skemmtun. „Markmið hátíðarinnar er að hafa fjölbreytta dagskrá sem miðast að því að sýna hvað náttúran er merkileg og spennandi, en ég trúi því að þegar við áttum okkur á því förum við líka ósjálfrátt að hugsa betur um hana. Þá lærum við einnig hvernig má nýta náttúruna í eitthvað skapandi og skemmtilegt,“ segir Dagrún brosandi og bætir við: „Það er líka mikilvægt að Náttúrubarnahátíðin er fyrir náttúrubörn á öllum aldri og öll fjölskyldan getur komið og skemmt sér og búið til skemmtilegar minningar saman“.
Þetta sumar hefur verið ólíkt öðrum þegar kemur að viðburðahaldi: „Já, við vorum ekki alveg viss um hvað við ættum að gera, þetta hefur auðvitað verið mjög sérstakur tími út af svolitlu,“ segir Dagrún kímin. Á hátíðinni koma skemmtikraftar og smiðjustjórnendur víða að og undirbúningur hefst yfirleitt snemma ársins, en vegna óvissunnar sem ríkti var það erfitt þetta árið. Hátíðin í sumar var smærri í sniðum en áður.
„Vanalega hefur hátíðin verið heil helgi, eða þrír dagar en núna var hún bara á laugardeginum. Við ákváðum líka að hafa alla dagskránna utandyra. Þetta er bara lítil og notaleg hátíð svo ég hafði ekki miklar áhyggjur af því við værum í einhverri hættu vegna fjöldatakmarkanna“
segir Dagrún og bætir við að það sé hluti af sjarmanum að hátíðin sé heimilisleg og róleg.
Stór hluti hátíðargesta eru íslenskir ferðalangar. „Náttúruáhuga- og útivistarfólk er líka besti markhópur sem hátíð getur haft, held ég. Og fólk sem hefur gaman af að leika við börnin sín er yfirleitt sérlega þolinmótt og þægilegt í umgengni,“ bætir hún við.
Dagrún bendir á að Strandir henti einstaklega vel fyrir hátíð og starfsemi af þessu tagi. „Við erum gríðarlega vel staðsett, í nafla alheimsins hérna rétt fyrir utan Hólmavík, svo hafa Strandamenn lengi verið rómuð náttúrubörn“. Þá ber dagskráin líka merki um galdratengingu Stranda en þar má til dæmis finna veðurgaldur, töfrasýningu og trölla- og draugasögur í Sagnahúsi í fjörunni. „Ég sé um að segja trölla- og draugasögurnar á laugardagskvöldinu áður en allir fara að sofa, það er dagskrárliðurinn sem ég sé alltaf um og sögurnar eru bara fyrir mjög huguð náttúrubörn að hlusta á“.
Starfsemi Náttúrubarnaskólans er þó ekki búin í sumar og verða námskeið reglulega á fimmtudögum fram í ágúst. „Við höfum líka verið að taka á móti fjölskyldum og hópum í sumar í leiðsagnaferðir að skoða fjöruna, fara í fuglaskoðun og hlusta á þjóðsögur,“ segir Dagrún að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments