top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Nágranni þinn er skítablesi!“


Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, nágranni, landsbyggðin, fjölbreytileiki, ferðalög, Ísland, ferðasumar, þorp, úr vör, vefrit
„Ég vona að Íslendingar njóti þess að keyra um landið, að hitta landa sína, sjá fjölbreytileikann og svo er bara allt í lagi að vera yfirgengilega guðs lifandi feginn að komast heim aftur.“ Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Tveir félagar, A og B hittast á förnum vegi. Annar gerir sig gildan og kemur með þessa fullyrðingu:


A:„Nágranni þinn er skítablesi!“

B:„Nú, ha… hvað meinarðu?“ A: „Nú bara, ég hitti hann og hann var bara ekkert spes, sá það á honum hvað hann er leiðinlegur.“ B: „Já ok… ég þekki hann nú bara af góðu, kannski hefur hann ekki átt góðan dag, spjallaðirðu við hann?“ A: „Nei svo sem ekki, hann leit bara þannig út.“ B: „Já ok, hva… hann er nú ekki alltaf í bestu fötunum sínum, en hann er sínu fólki góður og getur verið fjandanum skemmtilegri þegar svo ber undir.“ A: „Já það má vel vera, ég myndi ekki nenna að umgangast hann, og skil ekki þá sem nenna því, algjör skítablesi.“ B: „Já ok… ég hitti hann um daginn í sínu besta skapi og við skemmtum okkur konunglega saman, auk þess sem börnin mín elskuðu hann.“ A: „Já ég myndi ekki láta hann leika við mín börn, alltof lítið sem hann hefur að bjóða.“ B: „Ja, hann gefur þeim frelsi til að leika sér, veiða, gleðjast og alls konar sem aðrir bjóða ekki uppá, er ekki svolítið harkalegt að dæma manninn án þess að þekkja hann nokkurn skapaðan hlut?“ A: „Þetta er bara mín skoðum, ég má mynda mér skoðun og segja hana hverjum sem heyra vill.“ B: „Rétt er það.“


Þessi frásögn er að sjálfsögðu lygi en samt svo sönn. Eflaust höfum við öll við lent í þeim forarpytti að dæma aðra án þess að hafa nokkra forsendu til þess. Og svo keyrum við um landið okkar fallega, litskrúðuga, menningarfjölbreytta, ríka landið okkar. Um sveitirnar og þorpin, fram hjá heimilum fólks, hvar aðrir hafa valið sér að búa, gestkomandi á ferð í annarra konungsríki.

Þar sem liggja rætur, menning, gleði, sorgir og sigrar. Það sem hentar einum fer öðrum illa. Það er nefnilega svo að mannfólkið er allskonar og amma mín sagði alltaf að „lífið væri nú ögn leiðinlegt ef við værum öll eins“. Það sama gildir um landið okkar, mikið væri það tilbreytingarlaust ef það væri bara eitt flatt og eins hverfi.
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, nágranni, landsbyggðin, fjölbreytileiki, ferðalög, Ísland, ferðasumar, þorp, úr vör, vefrit
„Því heimili okkar eru dýrmæt og falleg, borgin, byggðarlagið eða þorpið þar sem okkur finnst best að búa má bara alveg vera fallegast af öllu.“ Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Nú er fram undan annað íslenskt ferðasumar. Sem er æðislegt. Ég var svo heppin að foreldrar mínir ákváðu að sýna okkur landið hér áður fyrr. Gamla Mazta Station var fyllt af dóti, fjögur börn, tjald, svefnpokar, kæliboxið góða og hvaðeina. Eitt sumar voru Austfirðirnir, ég man eftir Mjóafirði og að í Borgarfirði Eystra löbbuðum við einhverja álfaslóð. Annað sumar var það Suðurland og þriðja sumarið Vestfirðir. Hver getur gleymt vegunum á Vestfjörðum. Lentum á eftir líkfylgd og systir mín sagði hneyksluð:


„Vill einhver dauður maður láta keyra sig eftir þessum vegum?!“.


Í minningunni var ferðalagið malarvegir, unglingaveik systir, vöfflufranskar á Flateyri og hörpuskeljar í Bolungavík. Og pabbi að reyna að kenna okkur nöfn á öllum mögulegum fjöllum og fjörðum. Og fyrir ekki svo löngu var ég svo heppin að fá að kynnast nokkrum af þessum Vestfirsku þorpum í mýflugumynd. Sum voru æði, önnur heilluðu ekki eins sterkt, að mínu mati, en það mat er hreinlega einskis virði þar sem ég sá bara brot af öllum fjölbreytileikanum.


Ég vona að Íslendingar njóti þess að keyra um landið, að hitta landa sína, sjá fjölbreytileikann og svo er bara allt í lagi að vera yfirgengilega guðs lifandi feginn að komast heim aftur.

Því heimili okkar eru dýrmæt og falleg, borgin, byggðarlagið eða þorpið þar sem okkur finnst best að búa má bara alveg vera fallegast af öllu. En alveg endilega, ef við hittum á leiðinni það sem að okkar illa upplýsta dómi er eðal skítapleis munum þá bara að það er dónaskapur að drulla yfir annarra hreiður.


Comentários


bottom of page