Mýrarboltinn verður haldinn hátíðlegur í Bolungarvík um Verslunarmannahelgina. Fyrsta Mýrarboltamótið var haldið árið 2004 og er fyrirmynd mótsins frá Finnlandi. Þar í landi er heimsmeistaramót Mýrarbolta haldið en í Bolungarvík er um Evrópumeistaramót að ræða.
Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Charlottu Rós Sigmundsdóttir, sem er svokallaður Drullusokkur Mýrarboltans 2019, en þá skemmtilegu nafngift fær skipuleggjandi hátíðarinnar. Charlotta segir að dagskráin í kringum mótið hafi þróast í gegnum árin og segir hún að nú sé komin þétt skemmtidagskrá samhliða mótinu sem innihaldi m.a. yoga og fjölbreytt tónlistaratriði.
Charlotta tók við sem Drullusokkur hátíðarinnar á þessu ári. Segist hún hafa sent tölvupóst snemma á þessu ári á Jón Pál, bæjarstjóra Bolungarvíkur og viðrað þá hugmynd að taka þátt í skipulagningu á viðburðinum.
„Pósturinn hófst á orðunum: Sæll, Charlotta hér, Evrópumeistari 2017 þrátt fyrir að þú hafir kýlt mig í drullunni! Ég er í markaðsfræði og sagði honum að mér fyndist þetta vera svo flott vörumerki og að ég vildi vera með í skipulagningu á þessum viðburði.
Svo var það fyrir þremur mánuðum sem ég og Jóhann Bæring eigandi vörumerkisins förum að spjalla saman og áður en ég veit af þá er hann farinn að kalla mig drullusokk!“ segir Charlotta og hlær.
Samkvæmt Charlottu þarf að huga að mörgu þegar kemur að viðburði sem þessum. Hún segir mikilvægt að að allir tali saman og að bærinn og íþróttafélögin vinni vel saman.
„Íþróttafélagið Vestri hjálpar okkur að setja upp svæðið og svo erum við í samstarfi við bæinn og fyrirtæki varðandi styrki. Það þarf að vera með viðbragðsáætlanir varðandi eitthvað sem gæti komið upp. Við höfum ekki lent í neinum alvarlegum slysum, bara sár á hné eða rispur á hendi og svo er drullan reglulega skoluð úr augunum.“ segir Charlotta.
Charlotta segir að hátíðin hafi áður verið haldin á Ísafirði en árið 2017 var mótið fært yfir til Bolungarvíkur til þess að auðvelda mótahald og skipulagningu. Hún segir að með því að færa mótið úr Tunguskógi til Bolungarvíkur hafi engin þörf verið lengur á því að vera með bíla og umferðarstjórnun yfir Verslunarmannahelgina. Auk þess þurfa skipuleggjendur ekki lengur að útbúa þvottasvæði fyrir keppendur þar sem Musteri vatns og vellíðunar (sundlaugin í Bolungarvík) er næsta hús við mótssvæðið.
Að sögn Charlottu eru bæjarbúar ánægðir með hátíðina og bætir hún við að aðstaðan í Bolungarvík sé mjög góð, líkt og tjaldsvæði, sundlaugin og svo sé náttúran allt í kring. Að mati hennar eru samskiptin mest gefandi og segir hún það forréttindi að fá að tala við og hitta svona mikið af fólki og sjá samhuginn í svona litlum bæ.
„Stefnan mín hefur verið frá því að ég tók við að gera hátíðina fyrir Vestfirðinga. Það er gaman að fá fólk allstaðar að, en líka nauðsynlegt að halda Vestfirðingum heima þessa helgi. Markmiðið er því að hafa nógu fjölbreytta dagskrá þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi.
Mýrarboltinn sjálfur er ekki fyrir alla fjölskylduna því fólk er að drekka, en þetta er það hóflegt að auðvitað koma börnin líka að horfa á. Þess vegna ákvað ég að bæta við krakkamótinu á sunnudeginum til að aðgreina þetta aðeins og hafa líka fyrir börnin, svo börnin horfi ekki á foreldrana vera í drulluna og fara svo að hoppa á hoppubelg, þau þurfa líka að fá að fara í drulluna.“ segir Charlotta að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments