top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Milljónaævintýrið


Eiríkur Örn Norðdahl, pistill, milljónaævintýrið, ferðamennska, ferðalög, Ísland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„...þá legg ég það óhikað fram sem grjótharða staðreynd að það hafi allir gott af því að skipta um himinn og haf af og til, skipta um fjöll og vötn og hús og grös, þótt ekki sé nema bara til að minna líkamann á að þetta getur hann. Maður er ekki fastur.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þegar við höfðum mátt húka heima svo vikum skipti – hvert ofan í öðru öllum stundum –ákváðum við að gera okkur það til dægrastyttingar að hrúga okkur saman í bíltíkina og keyra yfir í Dýrafjörð til að sparka bolta, kasta frisbídisk og éta snúða úr Gamla bakaríinu. Þetta er ekki langt eða tímafrekt ferðalag fyrir fjölskyldu sem hefur búið í mörgum löndum í þremur heimsálfum og eytt stórum hluta tilvistar sinnar í ferðatösku – börnin sennilega með tífalt sótspor á við foreldra þeirra á sama aldri – og kostaði ekki nema sem nam snúðunum og bensíninu. Við stoppuðum heldur varla í meira en tvo tíma áður en við rúntuðum heim og fórum aftur inn í húsið okkar, sem okkur þykir sannarlega vænt um, en var kannski orðið pínulítið þrúgandi. Þetta var örlítill skottúr í kunnuglegan fjörð – en á sama tíma var einsog við hefðum beinlínis rist upp himinninn og stigið inn í nýja veröld. Ég segi ekki að við höfum verið einsog ný þegar við komum aftur heim – en það hafði sannarlega létt aðeins til í sálinni.


Þeir kalla það heimsku að fara aldrei að heiman. Af því er orðið dregið og þótt ég hafi stundum gert mér leik að því að benda á að það gæti allt eins verið dregið af heimur og heima – sem eru eins konar andheiti, og heimskur geti þá þýtt í grunninn það sama og worldly á ensku, veraldarvanur – þá legg ég það óhikað fram sem grjótharða staðreynd að það hafi allir gott af því að skipta um himinn og haf af og til, skipta um fjöll og vötn og hús og grös, þótt ekki sé nema bara til að minna líkamann á að þetta getur hann. Maður er ekki fastur.


Við búum í landi sem hefur síðustu tvo áratugina verið markaðssett sem einstakur áfangastaður fyrir fólk sem er í eitthvað ríflega bærilegum tekjum. Ekki staður fyrir fólk sem er blankt til að sækja í stórum hópum og ekki staður sem þú kemur til með að heimsækja oft um ævina – heldur kannski einu sinni. Once in a lifetime ævintýri. Draumurinn er að standa einn á klakafleka í Jökulsárlóni og finna fyrir ómenguðum kraftbirtingarhljómi guðdómsins. Þetta fólk er kannski ekki mokríkt en nógu ríkt til að spá ekkert í það hvað kökusneið í kaffiteríu kostar þegar það er í sumarfríi (hvern langar líka að eyða sumarfríinu sínu í að kvarta undan verðlagi?)


Þetta er nýtilkomið ástand – þannig lagað – það er ekki lengra síðan en 2003 að ég kom að Jökulsárlóni yfirgefnu. Um kvöldmatarleyti í miðjum júlí. Það voru bara engir túristar. Svo birtust þeir og þeim fjölgaði með veldisvexti og restina þekkja allir. Uppbyggingin var langt komin þegar hrunið brast á fimm árum síðar og þá var – einsog samheldinni peppsjúkri þjóð á stærð við góða fermingarveislu var líkt – öllum eggjunum sem lifðu af hrúgað í sömu körfuna.


Kannski var þetta veðmál, kannski sjálfsbjargarviðleitni, kannski brjálæði, kannski bara klassískur kapítalismi sem þarf pening núna og gerir hvort eð er ráð fyrir beiláti seinna. Hvað sem því líður er þetta staðreyndin og þetta – ásamt rýrðu verðmæti krónunnar og þar með launa verkafólks – borgaði hrunið. Og það gekk hraðar vegna þess að við okruðum á tertum, hótelgistingu og hamborgurum og réðum inn pólskt verkafólk á launum sem við kærðum okkur ekki um að vinna fyrir sjálf og kölluðum það að „markaðssetja okkur fyrir efnaðri ferðamenn“. Arion banki minnti okkur á að „varhugavert“ væri að leggja að jöfnu „magn“ og „gæði“ ferðamanna – og í stað þess að stefna að því að fá til landsins milljón ferðamenn ættum við að stefna að því að fá milljón frá hverjum ferðamanni. Af því það vita allir að fátækt fólk er bara ekki jafn mikið gæðafólk.

Þetta var fyrir tíu árum síðan. Ég veit það hljómar einsog vísindaskáldskapur en á þessum tíma ferðaðist fólk enn um heiminn – þaut eftir himninum í stálfákum. Hingað komu allra þjóða kvikindi, einsog heitir. Þau keyptu rjómatertur fyrir milljón, við fleyttum af því gróðann til að borga stökkbreytt lánin okkur og fórum síðan til Kanarí á sams konar stálfákum til að sturta í okkur ódýrri sangríu fyrir afganginn. Eða kíktum í helgarferð á tvíæringinn í Feneyjum, fótboltaleik í Englandi, heimsóttum barnabörnin í Uppsala, fórum á djammið í Berlín eða bara í skíðaferð í Ölpunum (*hóst*).


Nú eru breyttir tímar – því hvað sem líður „opnunum“ er alveg ljóst að stálfákarnir verða ekki að neinu marki risnir úr öskunni fyrren í fyrsta lagi að ári. Hér hrundi allt, enn eina ferðina, og nýja planið – a.m.k. á meðan við erum að leita að betra plani – er að „ferðast innanlands“. Þá dugir vel að merkja skammt að fara til Dýrafjarðar með frisbídisk og snúð og míga í fjöruna. Nú þurfum við að leggjast í hótelrúmin, ríða út og fara á kajak, kafa í Silfru og fá atvinnulausan leikara til að segja okkur allt það helsta um Gullfoss og Geysi. Öðruvísi gengur þetta ekki upp. Því misskiljið mig ekki nema passlega: Hingað munu áreiðanlega slefa nokkrir útlenskir túristar, sterkefnað fólk, en í millitíðinni er víst ekki annað í boði en að við mjólkum okkur sjálf – fyrir að minnsta kosti milljón á mann. Þá munar nú heilmiklu um fimm þúsund króna ferðaávísun (reyndar dugar hún sennilega akkúrat fyrir snúðum, frisbídisk og bensíni Ísafjörður-Dýrafjörður-Ísafjörður – fyrir fimm þúsund krónur í viðbót skal ég selja ykkur nákvæma ferðaáætlun).


Mér auðvitað bæði grín í huga og alvara. Það hefur staðið til lengi – frá því fyrir kóf – að við fjölskyldan myndum gera okkur ferð um landið í sumar. Við erum yfirleitt ekki á landinu á sumrin en gerum undantekningu í ár – af því við ætlum svo að eyða ári erlendis frá og með haustinu. Þá blasti við að við myndum a.m.k. rúnta hringinn. Þegar kófið kom og farið var að tala um að verðlag yrði að taka mið af – segjum, íslenskum meðalmanni – svoleiðis að vonandi yrði þriggja vikna tjaldferðalag með stöku innanhúsgistingu ekki dýrara en – segjum, pakkaferð til Ischgl – tókum við því eðli málsins samkvæmt fagnandi. Síðan fór „umræðan af stað“, einsog heitir, og þótt margir séu sýnilega að gera sitt besta til að í senn róa lífróður og bjóða upp á gistingu og veitingar á verði sem „fólk“ ræður við, en borga á sama tíma mannsæmandi laun, sýnist mér aðrir mest í því að reyna að berja niður eðlilegar launakröfur verkafólks á milli þess sem þeir skrifa pistla í Viðskiptablaðið um að það allra versta við kóf-sumarið verði allt fólkið sem á eftir að kvarta yfir tvö þúsund króna hjónabandssælunum í bensínstöðvarsjoppunni á Skálasnagavita. Einsog einhverjir slefandi aumingjar á örorkubótum.


Og þá finnst manni skyndilega einsog að ef maður komist í gegnum sumarfríið með fjölskyldunni fyrir minna en fjórar milljónir (miðað við gengið 2011) hafi maður hreinlega brugðist ferðaþjónustunni í landinu og kallað yfir þjóðina slíkar ótölulegar hörmungar að persónulegt gjaldþrot megi sín bara lítils í samanburðinum.



Comments


bottom of page