
Matís hélt svokallað MAKEathon dagana 10. – 18. september á fjórum stöðum á landinu; Reykjavík, Neskaupsstað, Akureyrir og í Bolungarvík. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni, nánar tiltekið nýsköpunarkeppni, sem leggur áherslu á að búa eitthvað til með höndunum til þess að mæta ákveðinni áskoruninni eða vandamáli.
Hlutafélagið Matís ohf. tók til starfa 1. janúar 2007 og heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Í hlutafélaginu sameinuðust þrjár ríkisstofnanir sem unnið höfðu að matvælarannsóknum og þróun í matvælaiðnaði. Þetta voru Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar.
Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti veita matvælaiðnaði þjónustu.
Í MAKEathon á Íslandi á dögunum komu þátttakendur saman í vinnustofum til að finna lausnir við eftirfarandi áskorun: „Hvernig getum við aukið verðmæti á aukahráefni úr sjávarútvegi til að gera vinnsluna sjálfbærari?“
Vinnustofurnar fóru fram rafrænt á öllum stöðum, nema í Bolungarvík. Þar tóku alls 25 nemendur frá Háskólasetri Vestfjarða þátt í vinnustofunni og mynduðu 5 lið. Þátttakendur unnu með hráefni, bein og roð af fiski, og fengu tækifæri til að búa til úr því frumgerð að vöru. Hópurinn SOS var hlutskarpastur í Bolungarvík með hugmynd að vöru sem líkist pepperoni nema munurinn er að vara SOS er gerð úr fiski og þótti hugmynd hópsins bæði framsækin og trúverðug.

Hópinn SOS skipuðu þau Jake Maruli Thompson, sem útskrifaðist úr meistaranáminu í Haf- og strandsvæðastjórnun fyrr á þessu ári, Joyce Bos, nemandi á fyrsta ári í Haf- og strandsvæðastjórnun, Frances Simmons, nemandi á fyrsta ári í Sjávarbyggðafræði og þær Amanda Burman og Passion Taylor sem stunda meistaranám á vegum School for International Training í Háskólasetri Vestfjarða.
MAKEathonin voru opin öllum og engrar sérþekkingu í fiskvinnslu eða öðru er krafist og mögulegt var að taka þátt og vinna verkefnið samhliða vinnu/skóla. Það er óhætt að segja að hér sé um að ræða skemmtilegt og spennandi verkefni sem mun vonandi halda áfram á komandi árum. Nánari upplýsingar um alþjóðlega verkefnið MAKEathon má finna hér.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Commentaires