Texti: Aron Ingi Guðmundsson

Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR er í samstarfi við Heimildina, þar sem Heimildin birtir efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.
Það kennir ýmissa grasa í Breiðagerði í Skagafirði en þar býr grænmetisbóndinn Elínborg Erla Ásgeirsdóttir. Elínborg keypti jörðina árið 2015 og hefur verið að vinna í því síðan þá að byggja upp búskapinn ásamt því að sinna vöruþróun. Þrátt fyrir að alast upp í sveit hafði Elínborg engan áhuga á hefbundnum búskap, heldur skellti hún sér í garðyrkjuskóla og stundar lífræna ræktun á jörð sinni. Hún lætur ekki þar við sitja heldur sinnir hún einnig formennsku í hagsmunasamtökunum Vor, en það eru samtök lífrænna ræktenda og framleiðanda.
„Ég vann á sínum tíma í tvö haust hjá Akursel og kynntist þar í fyrsta skipti útiræktun og það var gott að sjá hvað þau voru búin að byggja mikið upp þar með afar lítilli yfirbyggingu. Það kveikti í mér að skoða eitthvað annað og fleira en að fara bara í sama búskap og nágranninn er að gera.
Ég er alin upp í sveit, en sá mig ekki í hefbundnum búskap, þ.e. skepnubúskap, en mér finnst gott að búa í sveit og langaði að gera það. Það var lítil jörð til sölu í minni heimabyggð sem ég ákvað að stökkva á, fór í garðyrkjuskólann og lærði lífræna ræktun og hef verið að byggja upp starfsemi þar síðan.“ segir Elínborg.
Þegar Elínborg keypti jörðina voru engin útihús á henni og hafði í raun ekki verið neinn búskapur þar mjög lengi heldur hafði jörðin einungis verið nýtt til beitar. Vegna þessa þurfti hún að byrja frá grunni og hefur það tekið ágætan tíma að koma ræktuninni í góðan farveg.
„Þetta hefur líka þróast heilmikið hérna hjá mér, mig langaði frá byrjun að vera með margar tegundir. Það var enginn útiræktandi hér í Skagafirði, þannig að mig langaði að koma með þann vinkil inn á markaðinn. Svo þróaðist þetta yfir í mikla vinnslu samhliða en í ræktuninni er stór hluti sem er utan við það sem þykir vera fyrsti flokkur. Ég fór að skoða að nýta þá uppskeru betur og minnka sóun í leiðinni. Svo hef ég verið í vöruþróun undanfarið, er að gera salt, chutney og nú síðast grænmetisbollur. Uppistaðan í þessu er aukaafurð eins og t.d. blöð af spergilkáli sem yfirleitt verða bara eftir á akrinum.“ segir Elínborg og stolt hennar leynir sér ekki.

Í Breiðagerði eru þrjú óupphituð gróðurhús og notar Elínborg þau til að lengja tímabilið. Hún segist byrja þar og færa sig svo út. Ræktunin er fjölbreytt og inniheldur meðal annars gulrætur, rófur, ýmiskonar kál líkt og spergilkál og hvítkál ásamt sellerí svo eitthvað sé nefnt. Elínborg segir að ræktunin hafi heltekið allt hennar líf síðan hún festi kaup á jörðinni en bætir við að grænmetið dugi ekki til að borga alla reikninga. „Ég er með ýmislegt í gangi hérna, er með ferskt og unnið og svo er ég líka að vinna að hagsmunamálum í gegnum samtökin Vor. Þar er áherslan á lífræna ræktun líkt og ég stunda hér hjá mér. Í lífrænni ræktun notum við ekki tilbúinn áburð og engin eiturefni. Við leggjum áherslu á jarðveginn og frjósemi hans og þú æktar t.d. ekki sömu tegundina á sama stað í mörg ár, heldur skiptirðu um stað til að ganga ekki á frjósemisbankann. Þetta hjálpar líka til við að sjúkdómar nái sér ekki á strik. Það er kallað eftir ákveðnu hringrásarkerfi í samfélaginu núna og gerð krafa um að þú sért að vinna með hráefni sem er úr nærumhverfinu eins og varðandi áburð og annað.
Ég er viss um að lífræn ræktun sé hluti af lausninni varðandi sjálfbærni til dæmis, lífræn ræktun tikkar í mörg box þar. Það er nýlega búið að birta aðgerðaráætlun varðandi lífræna ræktun á Íslandi og það er mikilvægt að stjórnvöld séu með okkur í liði varðandi þetta svo að greinin vaxi og dafni. “ segir Elínborg.
Elínborg er eini starfsmaðurinn í Breiðagerði, en hefur fengið aðstoð við hin ýmsu tímabundnu verkefni. Hún segir að öll vöruþróun taki langan tíma og hefur hún verið mikið í því síðastliðin fjögur ár að hennar sögn. Elínborg segir að margir sem séu í þessum geira séu að grufla og prófa ýmislegt þó það rati ekki endilega alltaf í hillurnar. Hún hefur sjálf verið að prufa sig áfram með grænmetisbollur að undanförnu „Það er gaman að vera að prófa eitthvað nýtt á hverju ári og skoða hluti. Eins og með grænmetisbollurnar sem ég er farin að prófa, ég er mjög spennt fyrir þeim. Þær eru fulleldaðar og þú þarft bara að hita þær upp. Þetta er svona hliðarvara sem maður getur sinnt, ákveðinn stuðpúði fyrir hitt, maður þarf að hafa eitthvað annað en bara ferska grænmetið.“ segir Elínborg.
Að sögn Elínborgar er þetta erilsamt og segir hún að ræktunin sé tímafrek og að nóg sé af áskorunum sem tengist þessu
„Þetta er tarnavinna, sérstaklega á vorin, þá er þetta tímaviðkvæmt, það þarf að gera ákveðna hluti á ákveðnum tíma og maður er veðurháður. Þetta er mikil áskorun hérna á Íslandi, eins og í sumar, þá var allt á kafi í snjó þann 10. júní og svo aftur þann 10. september! Þannig að það þarf að huga að ýmsu er kemur að þessu.“ segir Elínborg hlæjandi að lokum.
Comments