Senn líður að því að fyrsta skólaárinu við Lýðháskólann á Flateyri ljúki, en nemendur frá skólanum munu útskrifast þann 4. maí næstkomandi. Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við skólastjóra skólans, Helenu Skaptason Jónsdóttur, og spurði hana út í hvernig hafi gengið í vetur. Helena segir að starfið síðastliðinn vetur hafi gengið vel að öllu leyti. Hún segir að aðstandendur hafi verið ótrúlega heppin hvað nemendur varðar og viðurkennir að allir hafi vitað að um tilraunakennt starf yrði að ræða þennan fyrsta vetur.
„Við vissum það og það var sagt í haust að þetta yrði tilraunakennt og við vissum ekki alltaf hvað við vorum að fara út í. Þetta hefur ekki verið gert áður hér á landi, hvorki það sem við erum að kenna og hvernig við erum að kenna það. Það sem stendur uppúr er að nemendar hafa verið tilbúnir að taka því sem kemur, gera það besta úr öllu, verið virkir að taka þátt og að aðstoða okkur við að gera betur.“ segir Helena.
Að sögn Helenu bjóst hún fyrirfram við því að það yrði meira krefjandi að hafa ofan af fyrir nemendunum utan skólans en raun bar vitni. „Við héldum að við þyrftum kannski að búa til líf utan skólans fyrir þau í meira mæli. En þessir krakkar hafa gripið boltann á lofti og verið dugleg að hafa viðburði fyrir allan hópinn. Einnig hafa þau myndað litla hópa hér og þar, tekið þátt í samfélaginu á Flateyri og glætt það miklu lífi. Þetta kom ekki endilega á óvart en ég verð að viðurkenna að var ótrúlega mikið gleðiefni.“ segir Helena.
Helena segir að það hafi verið aðdáunarvert hversu vel samfélagið á svæðinu hafi tekið nemendum, skólanum og starfsfólki. Hún segir að þau hafi haldið ýmsa viðburði, eins og t.d. bingó og listasýningar og að mætingin hafi ávallt verið til fyrirmyndar.
„Fólk á staðnum sér að bærinn hefur lifnað við, hér eru og voru ljós og jólaskraut í húsum. Svo er fólk á ferli, það náðist í fótboltalið og hér voru settir á yogatímar. Svo auðvitað bætast við viðskiptavinir í versluninni á staðnum og eru samfélagsleg áhrifin af því mikil. Það er líka gleðiefni að margir nemendur ætla að reyna að vera áfram hér í sumar og einhverjir vilja vera áfram hér í lengri tíma en það.“ bætir Helena við.
En þó flest hafið gengið eins og í sögu viðurkennir Helena að hluti af starfinu hafi verið krefjandi. Hún segir að hún ásamt annarri starfskonu við skólann hafi þurft að sinna nánast öllu, líkt og bókhaldi, fjármálum, vera húsverðir og gera allt sem fylgir því. „Þetta er líka eins og að reka fjölskyldu, ekki bara skóla. Svo var líka krefjandi að taka mið af veðri og áhuga hópsins og sú staðreynd að kennarinn sem kom að kenna hafði aldrei kennt námskeiðið áður, því þetta hefur jú ekki verið kennt áður.
„En nemendurnir hafa verið þolinmóðir og líka verið óhræddir við að segja hvernig þau sjá hlutina fyrir sér og hvernig þeir vilja hafa þetta og hefur það auðveldað hlutina að vissu leyti.“ segir Helena.
Samkvæmt Helenu geta nemendurnir tekið mikið með sér eftir þessa reynslu. Hlutir eins og að læra að búa ein út á landi, með fólki sem maður hefur ekki hitt áður og fólk sem væri ekki vinur þinn á förnum vegi er vissulega ákveðin áskorun að sögn hennar. Helena bætir við að margir hafi fundið sig vel á Hugmyndabrautinni í skólanum, sem snýst að miklu leyti að finna sig sem skapandi einstakling. Hún segir að ákveðnir hemendur hafi í kjölfarið sótt um í Listaháskólann, nemendur sem annars hefðu ekki gert það ef þau hefðu ekki stundað nám við skólann að hennar sögn.
Helena segir að litlu verði breytt varðandi námið fyrir næsta ár. Hún segir að allir sem komu að þessu hafi lært margt á þessu ferli og viti því hvað virkar og sjá að þetta virkar.
„Nú kunnum við að gera þetta ennþá betur og í staðinn fyrir að taka sénsinn á að gera eitthvað alveg nýtt og vera aftur á byrjunarreit, þá viljum við bara gera gott betra. Við opnuðum fyrir umsóknir þann 15. mars og núna 10. apríl tökum við á móti fyrsta hópnum og þeir hafa forgang sem höfðu sótt um fyrir þann tíma.
„Lokafresturinn til að sækja um er svo til 15. júní og ef það er orðið fullt þá, þá fer af stað biðlisti. Við vonumst til að hafa 30 til 40 manns á næsta ári hér í skólanum.“ segir Helena.
Helena viðurkennir að hún muni taka mikla og góða reynslu frá verkefninu.
„Fyrir mig, miðaldra skólastjóra, er persónulega afar gefandi að vera í kringum skapandi og orkumikið fólk sem hefur gefið samfélaginu sprautu. Og að sjá hvernig nemendur sem komu hingað með ákveðna eiginleika, hafa vaxið og dafnað. Það má með sanni segja að mömmuhjartað var mikið kreist“
Hún segist ekki hafa ætlað sér að vera í þessu starfi til langs tíma og segist hafa tekið þá ákvörðun á vormánuðum að láta þetta barn í hendurnar á einhverjum sem gæti tekið næsta skref. Ingibjörg Guðmundsdóttir, kennslustjóri í Háskólanum í Reykjavík (HR) fer í tímabundið eyfi frá því starfi og tekur við af Helenu sem skólastjóri Lýðháskólans. Að sögn Helenu hefur Ingibjörg mikla reynslu frá Bifröst og HR og er viss um að hún sé rétta manneskjan til að færa skólann áfram upp á næsta stig.
Aðspurð segir Helena erfitt að segja til um hvort fleiri Lýðháskólar muni verða stofnaðir í náinni framtíð og fari það eftir aðkomu ríkisvaldsins. Hún segir að þeir sem stóðu á bakvið stofnun Lýðháskólans á Flateyri hafi fjármagnað síðastliðið ár algjörlega með sjálfseignarfé og að það verði ekki gert aftur. „Að safna 40 milljónum á einu bretti er mjög mikið og gæti reynst öðrum aðilum erfitt. En það gerist vonandi á vorþingi að lagafrumvarp um Lýðháskóla verða samþykkt.
„Menntamálaráðherra hefur tekið frábærlega í þetta og er það fyrir tilstuðlan hans að þetta er á dagskrá þingsins. Við og Lýðháskólinn Lunga munum njóta góðs af því og þegar hefur komið inn mikill fjárstuðningur fyrir þetta ár og það næsta. Og um leið og lögin verða samþykkt þá verður til langtímasamningur fyrir báða skóla. Svo eru uppi áform um að setja upp Lýðháskóla á Laugarvatni og mér finnst ekki ólíklegt að sá skóli fái sama stuðning og við höfum fengið. Hvort að það er rúm fyrir fleiri, verður bara að koma í ljós.“ segir Helena að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
コメント