top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Veitir fólki innblástur að gera eitthvað sjálft“

Updated: Aug 22, 2019


Lunga, Seyðisfjörður, Björt Sigfinnsdóttir, Juliette Rowland, list, menning, landsbyggðin, hátíð, úr vör, vefrit, Austurland
Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri LungA. Ljósmynd Juliette Rowland.

Listahátíð ungs fólks, LungA var haldin hátíðleg dagana 14. -21. júlí síðastliðinn á Seyðisfirði. Um er að ræða listahátíð þar sem sköpun, listum og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 og var þá yfir eina helgi með fjórtán þáttakendum en í ár er hátíðin í tólf daga samtals að meðtöldum þeim fjórum dögum fyrir setningu hátíðar, þegar ungmennaskiptiverkefni á sér stað. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar telur að milli 3-4000 manns sæki hátíðina heim ár hvert.

Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í framkvæmdastjóranum, Björt Sigfinnsdóttir sem sagði að hátíðin hefði gengið vel í heildina litið þrátt fyrir að úrhellis rigning hafi verið nánast allan tímann. Hún segir að framangreint ungmennaskiptiverkefni sé kærkomin viðbót við hátíðina. „Þar erum við yfirleitt að vinna með þema hátíðarinnar hverju sinni og í ár var þemað framtíðarsýn. Við skoðuðum hvernig kynslóðir framtíðarinnar munu horfa tilbaka á okkur, hvað við skiljum eftir okkur fyrir þau.

LungA, Seyðisfjörður, listahátíð, Austurland, list, menning, landsbyggðin, Juliette Rowland, úr vör, vefrit
Að hennar Bjartar eru ýmis afleidd tækifæri sem hafa poppað upp og eflt bæinn með fleiri íbúum, atvinnutækifærum og fjölbreyttara menningarlífi. Ljósmynd Juliette Rowland

„Við vorum með þriggja daga vinnustofu tengt þessu þar sem ungmenni frá Danmörku, Englandi, Svíþjóð og Íslandi tóku þátt. Svo var formleg opnun hátíðarinn á laugardeginum sem opnaði með sýningu sem þessi hópur gerði, auk þess sem listahópurinn Dark Glitter var með sérstaka sýningu í Gallerýi Herðubreið, en sá hópur var einmitt stofnaður í fyrra á LungA.“ segir Björt.

Eftir ungmennaskiptiverkefnið taka við að sögn Bjartar taka svo við vinnustofur sem standa yfir í viku og voru átta vinnustofur þetta árið þar sem ungmenni allstaðar að úr heiminum taka þátt og selst upp í þær á einum degi samkvæmt Björt. „Við erum alltaf með flotta leiðbeinendur, bæði íslenska og erlenda, í ár vorum við t.d. með hana Hrafnhildi Arnardóttir eða Shoplifter eins og hún kallar sig. Hún tók þátt í Feneyjartvíeyringum fyrir Íslands hönd þetta árið. Vinnustofurnar standa yfir frá klukkan 9 til 16 alla daga og svo á kvöldin er þétt og metnaðarfull dagskrá með listasýningum, gjörningum, uppistandi, fyrirlestrum og öðru slíku.

„Gamanið endar svo á tónleikum á föstudags og laugardagskvöld sem haldnir eru á Gamla Síldarplaninu þar sem rjóminn af íslensku tónlistarfólki ásamt nokkrum erlendum böndum halda uppi fjörinu“ segir Björt.
LungA, Seyðisfjörður, listahátíð, list, menning, Austurland, Juliette Rowland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Bæði íslensk sem erlend bönd halda uppi fjörinu á tónleikum hátíðarinnar. Ljósmynd Juliette Rowland

Að sögn Bjartar eru samfélagsleg áhrif hátíðarinnar mikil og eru dæmin fjölmörg um þau að hennar sögn. Sjálf er hún fædd og uppalin á Seyðisfirði og hefur verið með í teyminu á bakvið hátíðina frá því hún var stofnuð og var í fyrsta skiptið bara 15 ára.

„Bara algjör moli en fékk að vera með! Svo tók ég við sem framkvæmdastjóri fyrir nokkrum árum síðan, en ég hef verið sviðsstjóri, tónlistarstjóri og prófað öll hlutverkin. Ég stofnaði svo ásamt Jonatan Spejlborg Lýðháskólann LungA sem er sjálfstætt en beint framhald af hátíðinni. Jonatan kom einmitt fyrst til Seyðisfjarðar í gegnum ungmennaskiptin á hátíðinni.

„Við stofnuðum svo ásamt fjórum vinum okkar gestavinnustofurnar Heima árið 2011 sem dregur til sín fjölmargt listafólk ár hvert. Þáttakendur skólans og hátíðarinnar hafa svo sest að á Seyðisfirði í gegnum tíðina sem er frábært því fólk á þessum aldri hverfur svolítið þegar það fer í menntaskóla en svo kemur á móti fólk með þessum skóla.“ segir Björt.


Hún bætir við að bæði hátíðin og LungA skólinn skapi grundvöll fyrir veitingastaði og farfuglaheimili til að hafa starfsemi allt árið í kring, en farfuglaheimilið á staðnum verður að heimavist yfir vetrarmánuðina að sögn Bjartar. Að hennar sögn eru því ýmis afleidd tækifæri sem hafa poppað upp og eflt bæinn með fleiri íbúum, atvinnutækifærum og fjölbreyttara menningarlífi.

LungA, listahátið ungs fólks, Austurland, Seyðisfjörður, list, menning, Juliette Rowland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Ýmsir gjörningar fara fram yfir hátíðina og vekja jafnan athygli. Ljósmynd Juliette Rowland

„Þetta veitir fólki innblástur að gera eitthvað sjálf og svo er líka frábært að sjá þann stuðning sem hátíðin fær frá heimafólki, það væri ekki hægt að halda þessa hátíð án þess að fá þennan stuðning heimafyrir. Flestir ánægðri með þetta og taka þátt í tónleikum og uppákomum, en svo erum við líka með jaðarviðburði sem höfða kannski ekki alveg til almennings. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem eru fúlir út í horni, en það er bara eins og gengur og gerist.“ segir Björt.

Hátíðin hefur fengið mikla athygli erlendis frá og segir Björt að það sé alltaf mikil þáttaka erlendra gesta. Að hennar sögn þurfa þau því miður að vísa fólki frá á hverju ári, því svo margir sækja um. Björt segir að þau myndu taka við fleirum ef það væri ekki húsnæðisskortur en bætir við að aðstandendur hátíðarinnar séu líka meðvituð um að ef hátíðin stækkar of mikið þá myndi kannski þessi nánd og þessi einlægni sem fylgir hátíðinni hverfa.

LungA, Seyðisfjörður, listahátíð, Austurland, list, menning, Juliette Rowland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Fjölmargir fyrirlestrar eru haldnir á hverri hátíð að sögn Bjartar. Ljósmynd Juliette Rowland

Samkvæmt Björt mun verða gert eitthvað stórkostlegt á næsta ári, þegar hátíðin fagnar 20 ára afmæli, en hún segist ekki vera tilbúin að uppljóstra því að svo stöddu, enda sé fólk bara rétt að ná andanum eftir síðustu hátíð. Að sögn Bjartar er mjög gefandi að standa fyrir hátíð sem þessarar og sat hún ekki lengi á svörum um hvað sé mest gefandi þegar hún var spurð að því. „Það er mjög gefandi að standa og horfa yfir þáttakendur á hátíðinni þegar líður á vikuna og sjá hvernig þau blómstra, sjá nýjar tengingar myndast og verða vitni að því hvernig við náum að skapa ramma fyrir eitthvað einstakt hjá þessu fólki sem kemur og tekur þátt.

„Ég hef lært ofboðslega mikið í gegnum þessa vinnu, hlustað á marga fyrirlestra og tekið þátt í starfi þar sem spennandi málefni eru tekin fyrir, málefni sem snerta okkur öll. Það er gefandi að vinna með þessum hópum, fólk úr ólíkum bakgrunnum og maður fær tækifæri til að endurhugsa hvernig maður lítur á heiminn.“ segir Björt að lokum.
LungA, Seyðisfjörður, Austurland, Juliette Rowland, listahátíð, list, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Það rigndi hressilega á þáttakendur LungA þetta árið en það kom þó ekki að sök að sögn framkvæmdastjóra hátíðarinnar. Ljósmynd Juliette Rowland


댓글


bottom of page