Síðastliðið vor fékk Tálknafjarðarskóli í samstarfi við Kómedíuleikhúsið veglegan styrk úr Barnamenningarsjóði til verkefnis sem ber heitið „Listasmiðjur með listamönnum úr heimabyggð“. Í tilkynningu á heimasíðu skólans segir að þetta sé þróunarverkefni sem sé í boði fyrir alla skólana á sunnanverðum Vestfjörðum.
Hugsunin á bak við verkefnið er að auka við flóru listsköpunar í skólunum á svæðinu og um er að ræða samstarf milli skólanna og þeirra listamanna sem búa á eða eru ættaðir af svæðinu.
Listamennirnir taka þátt í verkefninu með því að deila sinni þekkingu og list til barnanna og er verkefnið sniðið að börnum í elstu tveimur árgöngum leikskóla til 10. bekkjar grunnskóla. Vinnunni er skipt niður í tvo hópa, annars vegar börn í leikskóli ásamt börnum í 1.-4. bekk og hinsvegar vinna og börn í 5.-10. bekk saman.
Í fyrrnefndri tilkynningu segir að markmiðið með verkefninu sé að bjóða nemendum uppá fjölbreytt úrval listgreina og opna fyrir fjölbreyttar leiðir svo nemendur geti í listsköpun sinni unnið með hugmyndir, varpað fram spurningum, endurspeglað og túlkað eigin reynslu og annarra.
Að auki er markmið að nemendur öðlist aukinn skilning og læsi á eigið samfélag og menningu og að nemendur kynnist listamönnum af svæðinu. Með því eiga nemendur möguleika að átta sig á að á að unnt er að vinna að list á sínu heimasvæði.
Listasmiðjunum er skipt niður í fimm lotur yfir skólaárið og eru fyrstu fjórar smiðjurnar svokallaðar vinnusmiðjur og sú fimmta lokahátíð og uppgjör. Smiðjurnar eru haldnar á tveggja mánaða fresti og fór sú fyrsta fram dagana 7. -11. september síðastliðinn og verður næsta smiðja dagana 23. - 26. nóvember næstkomandi, með fyrirvara vegna Covid faraldursins.
Listamenn sem kenndu í fyrstu smiðjunni voru þau Þórarinn Hannesson með skapandi skrif, Daníel Perez Eðvaldsson með myndlist, Marion Worthmann með dans og Svavar Knútur með tónlist. Segir í fréttatilkynningunni að gaman hafi verið að sjá, eftir því sem dagarnir liðu, að nemendur tóku sífellt meira og meira þátt í smiðjunum og höfðu gaman af.
Listamenn nóvember smiðjunnar verða svo þau Gígja Skjaldardóttir og Jónas Snæbjörnsson með tónlist og Einar Óskar Sigurðsson með ljósmyndun. Sem sagt fjölbreytt flóra listafólks og er þetta áhugavert framtak sem ber að fagna.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments