top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Listamannalaun


Listamannalaun, Elfar Logi Hannesson, list, leiklist, landsbyggð, Julie Gasiglia, Húsið-Creative Space, Patreksfjörður úr vör, vefrit
„Einhvernvegin er maður nú svo vitlaus að það skiptir mann miklu meiru að fólk mæti að góna en að maður fái útborgað.“ Ljósmynd Julie Gasiglia

Og ég leit fram í salinn

og bjóst við stjórnlausum fögnuði

fólksins.


En þar var enginn.


Mikið skáld var Steinn Steinarr, svo mikið að oft upplifi ég eigin tilveru í verkum hans. Þetta ljóðastef hér í upphafi er einmitt sótt í ljóð hans, Leiksýning. Og ég get bara sagt yður það kæri lesari að ég sem starfa sem leikari hef marg oft einmitt lent í þessu. Þó eigi í alvöru heldur í draumum mínum. Þetta er mín leikaramartröð og svo á ég aðra sem er mun skæðari og hún er á þann veg að ég man ekki textann minn. Bæði verra ef svo mætti að orði komast.


Þessar leikaramartraðir mínar sækja einkum á mig fyrir frumsýningar leikverka eða þegar álagið í leikhúsinu er mikið og lítið um svefn. Einhvernvegin er maður nú svo vitlaus að það skiptir mann miklu meiru að fólk mæti að góna en að maður fái útborgað. Það er meira að segja þannig enn þann dag í dag að maður er oft bara launalaus heilu misserinn en er samt voða kátur því það er svo mikið að gera í vinnunni. Já, í vinnunni en samt oft launalaus. Gerist vart vitlausara.

Nei, ég ætla ekki að fara útí að tala um að list sé ekki vinna sem fólk eigi að fá greitt fyrir. Og hvað þá að þrátta um það sem maðurinn sagði; að þetta fólk ætti bara að fá sér alvöru vinnu. Því við erum bara komin miklu lengra en það. Ég meina nýleg könnun sýnir að heil 53 prósent landsmanna séu fylgjandi Listamannalaunum. List er nefnilega vinna og það eru svo mikil tækifæri sem felast í atvinnulistum og hvað þá á landsbyggð.

Þetta vita orðið mjög margir nema kannski Menningarmálaráðherra enda hefur stýrelsan þar verið ólandsbyggðavæn í listum síðan ég man eftir mér. Það er miklu frekar að við í atvinnulistinni á landsbyggð finnum stuðning úr öðrum ráðuneytum – já vitleysan verður varla meiri.

Listamannalaun, Elfar Logi Hannesson, pistill, list, leiklist, landsbyggð, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit, japanskir daga, Kumi Koshio, Þingeyri
Frá sýningu listakonunnar Kumi Koshio á japönskum dögum á Þingeyri haustið 2018. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Án þess að hér verið rituð masterspæling né greining á Listamannalaunum þá er þetta í stuttu máli svona. 1600 mánaðarlaunum er úthlutað árlega úr 6 greinum lista; hönnuða, myndlistar, ritlistar, sviðslista, tónlistarflytjenda og loks til tónskálda. Launin eru verkefnatengd og sækja listamenn þá um að vinna að ákveðnum verkefnum. Svo er misjafnt hvað hver fær marga mánuði allt frá 1 – 24. Upphaf Listamannalauna má rekja svo langt aftur til 1891 þegar ríkið úthlutaði í fyrsta sinn listamanni laun til að vinna að list sinni.


Vitanlega eru mjög skiptar skoðanir um það hver fær Listamannalaun hverju sinni. Sem sannar þó um leið hve við erum rík af listamönnum í landi sem telur undir 400 þúsundum. Við getum meira að segja rifist um það einsog listamennirnir sjálfir hver fær laun og hvur ekki.

Nokkur kekkur hefur einnig verið í umræðunni um hvernig skipting launanna dreyfist á listamenn þessa lands. Mörgum finnst sunnanslagsíða allnokkur á úthlutununni. En hér er ritari alls ekki dómbær enda listamaður á landsbyggð. Umræða þarf ávallt að vera einsog í leikhúsinu – ping – pong. En ekki einstefna. Því skil ég þessa vangaveltu eftir fyrir þá sem enn lesa.

Listamannalaun eru ríkislaun en hvað með sveitarfélögin? Þar er víða hlúð að listamönnum þó eigi eiginleg listamannalaun sem íbúar geta sótt um. Undantekning er Akureyri sem úthlutar árlega einum listamanni listamannalaun til 9 mánaða. Nú síðast fékk hinn ástsæli listamaður Pálmi Gunnarsson þau laun. Nú er að vona að ritara hafi yfirsést eitthvað og fleiri bæjir eða sveitarfélög úthluti listamannalaunum til sinna íbúa. Ekki má gleyma því að víða eru bæjarlistamenn útnenfdir árlega um landsbyggð og fylgir því jafnan einhver greiðsla jafnvel að andvirði mánaðarlauna ef til vill meir.

Listamannalaun, Elfar Logi Hannesson, list, leiklist, landsbyggð, pistill, Julie Gasiglia, Lotta Kaarina Nykanen, Húsið-Creative Space, Patreksfjörður, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Teikningar eftir Lotta Kaarina Nykanen úr sýningunni Flora Vulgaris sem sýnd var í Húsinu-Creative Space á Patreksfirði. Ljósmynd Julie Gasiglia

Eitt það besta sem hefur gerst fyrir list á landsbyggð eru uppbyggingasjóðir sem eru nú um landsbyggð alla. Sjóðir þessir hafa skipt miklu og margfalt eflt listastarfsemi á landsbyggðinni og samt er svo ótrúlegt að það sé verið að lækka þessa sjóði með hverju árinu. Uppbyggingasjóðirnir styðja ákveðin verkefni og listastarfsemi. En hvað með listamannalaun? Mætti ekki bæta því við, já og þá um leið og bætt verður aftur í sjóðinn fjármagni því trúið mér, uppbyggingasjóðirnir eru að gera kraftaverk fyrir list á landsbyggð.

Nú fer ég að verða búin með orðin en er samt ekkert búinn að ræða það afhverju þarf þessi sérstöku listamannalaun. Hvaðan svo sem þau koma. Einfaldlega vegna þess að þá skortir mig orðafjöld en lesendur Úr vör um land allt mega gjarnan kasta orðum á millum á kaffi- og samkomustöðum þjóðarinnar. Mega þá gjarnan hafa fleiri greiðslur til hliðsjónar einsog til hinna frábæru bænda um land allt sem við viljum samt alls ekki vera án.

Í heildina er ég samt svo sannfærður um nauðsyn listar og listamannalauna að ég er hræddur um að ef þeim nyti ekki við þá færi þetta einsog í ljóðalokin á Leiksýningu Steins Steinarrs, kvæðinu sem einmitt hóf þessa huxun:


annarleg kyrrð hvíldi yfir

auðum bekkjunum.



Comments


bottom of page