top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Líf á Breiðinni


Breiðin, nýsköpun, frumkvöðlastarf, Brim hf., HB Grandi, Akranes, fiskvinnsla, nýsköpunarsetur, samvinnurými, landsbyggðin, Vesturland, úr vör, vefrit
Valdís segir að svona aðstaða hafi gríðarleg áhrif á nærsamfélagið og segir hún að þau hjá Breið fái mikið af heimsóknum allstaðar að. Ljósmynd aðsend.

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.


Það iðar allt af lífi og fjöri í nýsköpunarsetri sem staðsett er á svæði sem nefnt er Breiðin á Akranesi. Þar stunda á annað hundrað einstaklingar rannsóknir og vinnu sína og sýna heimamönnum að lífið getur snúist um meira en fiskvinnslu. Það var Breið þróunarfélag sem kom setrinu á fót, en þróunarfélagið var stofnað sumarið 2020 af Brim hf. og Akraneskaupsstað. Brim hf., sem hét áður HB Grandi, hafði verið með mikla starfsemi á Breiðinni á Akranesi, var með fiskvinnsluhúsnæði og töluverða vinnslu sem lagðist af árið 2018. Eftir sat stórt húsnæði og miklar lóðir og fannst forsvarsfólki Brim hf. þau bera ábyrgð á að skilja ekki of stórt skarð eftir sig í samfélaginu, en á þriðja hundrað störf töpuðust er vinnslan var lögð niður. 


Að sögn Valdísar Fjölnisdóttur, framkvæmdastjóra Breiðar þróunarfélags, þá var farið í hugmyndasamkeppni um hvað hægt væri að gera við svæðið ásamt því að breyta fiskvinnsluhúsnæðinu í nýsköpunarsetur.

„Það gekk ótrúlega vel, og á um þremur árum vorum við komin með um 100 manns í húsið. Þar er mjög fjölbreytt starfsemi, þetta eru helst frumkvöðlar og ýmis nýsköpunarstarfsemi en svo er einnig hefbundin starfsemi hjá okkur, KPMG er til dæmis hér hjá okkur. Svo erum við með samvinnurými í takt við störf án staðsetningar þar sem einstaklingar leigja sér skrifborð, auk sameiginlegra fundarherbergja og svokölluð fljótandi skrifborð fyrir þá sem eru í rannsóknarvinnu.

Hér er líka eldhúsaðstaða og það myndast ákveðinn kjarni, félagslega er þetta mjög sterkt og skemmtileg blanda því það er svo fjölbreytt flóra af starfsemi í húsinu.“ segir Valdís. 


Valdís segir að fyrir tveimur árum hafi svo aftur verið farið í hugmyndasamkeppni og þar vann tillaga frá Nordic arkitektum og er í undirbúningi nú að vinna deiliskipulag varðandi þá hugmynd. Um er að ræða blandaða byggð, íbúðir, atvinnustarfsemi og hótel og lögð er áhersla á sjálfbærni, umhverfismál og nýsköpun hvað varðar atvinnustarfsemina.


Valdís segir að rýmið í nýsköpunarsetrinu sé nánast fullbókað, en það sé þó smá pláss í viðbót fyrir þá sem hafa áhuga. „Viðtökurnar hafa verið frábærar og við fundum að það var mikil eftirspurn eftir svona vettvangi. Við erum ekki of langt frá höfuðborgarsvæðinu, sem getur verið kostir og gallar, en við sáum að mörgum vantaði stað fyrir sína vinnu. Við stofnuðum líka Breið líftæknismiðju, fyrir aðila sem þurfa rými fyrir plássfrekari rannsóknir og vinnslusvæði fyrir sína starfsemi. Þangað geta aðilar komið í styttri eða lengri tíma og fengið afnot af tækjum hjá okkur og þurfa þá ekki sjálf að fjárfesta í stærri tækjum upp á rannsókn sem þeir vita ekki hvort að fari lengra eða ekki.“ segir Valdís.


Breiðin, nýsköpun, frumkvöðlastarf, Brim hf., HB Grandi, Akranes, fiskvinnsla, nýsköpunarsetur, samvinnurými, landsbyggðin, Vesturland, Valdís Fjölnisdóttir, Gísli Gíslason, úr vör, vefrit
Valdís Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri Breið þróunarfélags og Gísli Gíslason stjórnarformaður. Ljósmynd aðsend.

Að sögn Valdísar eru þeir sem vinna í samvinnurýmunum fyrst og fremst heimamenn sem vinna fjarvinnu frá fyrirtækjum úr Reykjavík. „Svo eru fyrirtæki sem vinna að rannsóknum eins og Running Tide, sem eru með loftslags- og þara rannsóknir. Þeir keyra oft frá bænum, en það er ekki mikið úrval af rýmum eins og þau þurfa á höfuðborgarsvæðinu. Það eru svokölluð blautrými, sem eru rými þar sem þú getur spúlað á eftir þér, þar sem þú ert t.d. að vinna með sjávarþang, þara, ensím og í allskyns rannsóknum“ segir Valdís.


Valdís segir að svona aðstaða hafi gríðarleg áhrif á nærsamfélagið og segir hún að þau hjá Breið fái mikið af heimsóknum allstaðar að, fólk sem leiti ráða hjá þeim og hafi áhuga á að sjá hvað sé að virka og hvað ekki. Hún segir að það sé gaman að sjá að samskonar nýsköpunarsetur hafi sprottið upp víða um land og að upplægt væri að hefja eitthvað samstarf milli landshluta.

„Við erum líka með FabLab smiðju hér sem er mikið sótt af heimafólki, þá bæði eldra fólk og börn úr skólunum. Fólki finnst gaman að sjá starfsemina og kraftinn hér, en það var erfitt þegar fjöldi manns missti vinnuna skyndilega þegar fiskvinnslan var lögð niður á sínum tíma. Það var áfall fyrir bæjarfélagið og fólk horfir til gamalla tíma og vill fá aftur sinn sjávarútveg. En við finnum samt að það er breytt hljóð í heimamönnum, þau sjá að það er fullt annað hægt að gera en að vera með fiskvinnslu og við höfum náð að snúa við viðhorfi fólks og fengið það til að horfa ftil framtíðarinnar.

Við berum auðvitað virðingu fyrir sögunni og við breyttum húsinu eins lítið og við gátum, við héldum til að mynda í gömlu flísarnar hér í húsinu. Við vorum með opið hús síðastliðinn föstudaginn þar sem við vorum með svokallað minningarhorn, þar hengdum við upp myndir frá gamla tímanum og það fylltist húsið af gömlu starfsfólki sem var að skoða starfsemina. Ef við gerum þetta með þessum hætti þá eru meiri líkur á að maður fái fólk með sér í lið, sem skiptir auðvitað miklu máli“ segir Valdís að lokum.


Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.
bottom of page