Kötlusetur, miðstöð menningar, fræða og ferðamála í Vík í Mýrdal var sett á fót árið 2010 af Háskólafélagi Suðurlands, Mýrdalshreppi og Menningarfélaginu um Brydebúð. Markmið setursins er að efla menningarlíf í Mýrdalshreppi, markaðssetja og auka gæði Mýrdalshrepp sem ferðamannastaðar og stuðla að uppbyggingu og varðveislu menningarminja í hreppnum. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði á dögunum í Völu Hauksdóttir, forstöðukonu Kötluseturs, sem sagði undirrituðum að markmið með starfseminni hefðu verið háleit og að vilji hefði verið að þarna færi fram mjög fjölbreytt starfsemi.
„Markmiðið er að efla menningarstarfsemi í Vík og stuðla að varðveislu menningarminja í hreppnum og svo erum við í raun tengiliður hreppsins við Markaðsstofu Suðurlands. Við sjáum um ferðamál, ráðgjöf og stefnumótun í samstarfi við hreppinn og erum með upplýsingamiðstöð. Við erum með námsver sem ýmsir hafa aðgang að, sérstaklega fræðslunetið á Suðurlandi og erum með regluleg námskeið, þar kemur fræðastarfið inn.
„Fólk sem er í fjarnámi hefur aðstöðu til að sinna námi sínu og íslenskunámskeið hafa verið haldin þar líka, en það er ekki Kötlusetur sem heldur þessi námskeið heldur hýsir þau.“ segir Vala og bætir við að setrið sé í samstarfi við ýmsa aðila, m.a. Kötlu jarðvang og er upplýsingamiðstöðin gestastofan þeirra þar sem sýning um Kötlu og jarðfræði á svæðinu er til staðar að sögn Völu.
Opið er allt árið um kring og samhliða upplýsingamiðstöðinni og Kötlusýningunni er einnig sýning um skipið Skaftfelling. „Það er eitt elsta eftirlifandi skip landsins, skip sem sá um strand- og vöruflutninga árin 1918 til 1938.
„Það er merkilega sjóminjasaga í Vík í Mýrdal því þetta er eina sjávarþorp landsins sem er ekki með höfn og hefur aldrei haft höfn, sú saga og saga skipastranda er reinnig reifuð á sýningunni. Það er mikill fjölda skipa sem hafa strandað hér á þessum söndum Skaftafellssýsla í gegnum árin og það er saga sem við viljum gera meira úr. Ég er alltaf að reyna að fá fjármagn og fólk til að miðla þeirri sögu betur.“ segir Vala.
Vala hefur starfað sem forstöðukona Kötluseturs í sex mánuði, en hún tók við þessu starfi þann 1. apríl síðastliðinn. Hún er eini fastráðni starfsmaðurinn og starfsviðið er fjölbreytt að hennar sögn, en hún er með starfsmenn í upplýsingamiðstöðinni á sínum snærum. Að sögn Völu aðstoðar starfsfólk miðstöðvarinnar við uppsetningu á svokallaðri Regnbogahátíð á hverju ári, en það er lista- og menningarhátíð Mýrdalshrepps og var hún haldin í þrettánda skiptið um síðastliðna helgi.
„Hátíðin er aðalviðburðurinn sem við komum að og stýrum við undirbúningnum. Svo eru minniháttarviðburðir sem við setjum á stokk af og til eða aðstoðum aðra að láta verða að veruleika. Þetta fer svolítið eftir því hvaða hugmyndir fólk fær, við aðstoðum fólk að koma þessu á fót í staðinn fyrir að stuðla að þessu sjálf.
„Heimamenn sækja ákveðna þjónustu til okkar, en við aðstoðum fólk við að sækja um styrki í ýmsa sjóði. Ég er í ráðgjafateymi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og ef fólk hefur hugmynd að menningarviðburði eða vill koma nýju fyrirtæki á laggirnar þá aðstoðum við þau.
Þannig að heimafólk nýtir þjónustu okkar á allt annan hátt en ferðafólk.“ segir Vala.
Samkvæmt Völu er ferðafólk í meirihluta þeirra sem sækja Kötlusetur heim, aðallega vegna þess að þar er upplýsingamiðstöð. Hún segir að síðastliðið sumar hafi gestir verið u.þ.b. 200 manns á dag en svo á veturna fari heimsóknartalan niður í jafnvel þrjátíu manns á dag yfir háveturinn. „Það eru þúsundir manna sem koma til Víkur dag hvern, en við fáum bara brotabrot af því. Það eru margir sem halda að hér sé bara bensínstöð við þjóðveginn og það brunar beint í gegn. En við höfum verið að reyna í samstarfi við sveitarfélagið að leiða fólk in í gamla þorpið, en það er mikil saga þar og mjög fallegt. Vonandi fjölgar fólki eftir því sem okkur tekst að breyta flæðinu um þorpið.“ segir Vala.
Vala segir að starfsemi Kötluseturs hafi töluverð samfélagsleg áhrif en gæti þó haft enn meiri áhrif. Hún segir að miðstöðvar hlutinn hafi mikil áhrif og fólk viti hvert það á að leita þegar það þarf að miðla einhverju eða að fá upplýsingar. „Ég held að öll bæjarfélög þurfa á svona miðstöð að halda í einhverju formi. Í raun og veru þá höfum við á óáberandi hátt mikil áhrif hvað varðar fjölmargt í samfélaginu.
„Okkur hefur tekist að láta litla viðburði verða að veruleika á Regnbogahátíðinni, en það er hátíð sem er mjög fjölsótt og hefur verið í þrettán ár. Þar hafa verið litlir tónleikar og sýningar sem hafa heppnast vel.“ segir Vala.
Vala er héðan og þaðan eins og hún orðar það, hún er fædd á Húsavík, ólst upp í Borgarfirðinum en hef verið viðriðin Suðurlandið síðan 2007 og býr í sveit í nágrenni Víkur. Hún segir það vera gaman að vera tengiliður margra og fá að heyra hugmyndir fólks. „Það kemur fólk hingað líka með mikinn fróðleik og maður er í hringiðunni og er að stýra fólki í þær áttir sem það er að leita að, það er mjög gefandi.
„Að hjálpa fólki að láta hugmyndir sínar verða að veruleika er virkilega gefandi. Það kom mér mikið á óvart þegar ég hóf störf að sjá hvað það er mikið menningarlíf hér á svæðinu. Það er mikið að gerast og það er margt ungt fólk hér og mæli ég því meðað fólk kynni sér svæðið betur og sæki Víkina heim.“ segir Vala að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Commenti