top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Kindurnar ruddu brautina fyrir fjallahjólin

Updated: Apr 6, 2020


Það eru fallegar heiðarnar á Síðunni rétt fyrir austan Kirkjubæjarklaustur en það eru ekki margir sem eiga þar leið um. Bændur hafa smalað, ríðandi og gangandi, en fáir aðrir hafa séð þessa staði. Fjallið Kaldbakur gnæfir yfir og svörtu móbergsgljúfrin eru ógnvænleg þar sem eru kolsvartir, þverhníptir veggir og fegurðin mikil þar sem falla fossar fram af brúnunum, oft tugi metra.

Margir sækjast eftir að komast til fjalla, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Þau Rannveig Ólafsdóttir og Guðmundur Markússon í Mörtungu á Síðu gripu tækifærið og eru að byggja upp fyrirtækið Mörtunga - Iceland Bike farm sem býður upp á fjallahjólaferðir um heiðarnar og, eða Skaftáreldahraunið.
Hjólreiðafólk í góðum gír. Ljósmynd Jónas Stefánsson

Rannveig er af fimmtu kynslóð sauðfjárbænda í Mörtungu og þau Guðmundur, eða Mummi eins og hann er alltaf kallaður, eru tekin við jörðinni. Göturnar sem kindur hafa mótað í heiðinni eru nú slóðar fyrir fjallahjól og kindur.


Það hefur tekið nokkur ár að þróa hugmyndina, velja leiðir, kaupa búnað, markaðssetja og skipuleggja. Það þarf að læra af reynslunni ekki síður en kynna sér hvernig aðrir hafa gert hlutina. Síðustu vikur hafa þau Rannveig og Mummi tekið þátt í Startup Tourism sem er 10 vikna viðskiptahraðall sem hjálpar frumkvöðlum að móta sín fyrirtæki. Það hefur verið lærdómsríkt ferli sem á eftir að nýtast þeim vel.

Það kom skemmtilega á óvart að sumarið 2018 voru margir Íslendingar sem keyptu ferð á fjallahjóli og komu á námskeið. Það er mjög ánægjulegt að finna hvað áhugi á því að ferðast um á hjóli hefur aukist og vonandi er þessi lífstíll, sem er góður fyrir heilsu og náttúru, kominn til að vera.

Hjólað á kindastígnum. Ljósmynd Rozle Bregar.

Það er ómetanlegt fyrir þá sem lifa við stöðugan eril og áreiti að fá tækifæri til að fara um ósnortna náttúru í fámennum hópi undir styrkri leiðsögn kunnugra. Leiðsögn þar sem eru sagðar af sögur eldgosum, smalamennskum, mannlífinu, gróðurfari og öðru sem fyrir augu ber. Umsagnir ferðamanna hvetja Rannveigu og Mumma áfram en margir þeirra dásama umhverfið og þá ekki síst það að geta verið úti í náttúrunni allan daginn á hjóli. Í mörgum umsögnum nefnir fólk að það hefði viljað viljað vera lengur því í Mörtungu sé fullkomið næði til að njóta náttúrunnar. Við sem höfum alist upp við frelsið sem fylgir því að geta verið ein úti í náttúrunni ættum að velta fyrir okkur verðmætunum sem búa í hverri sveit. Verðmæti sem við getum nýtt en verðum líka að vernda.


Á Suðurlandi er ferðaþjónusta að verða stærsta atvinnugreinin. Flestir gististaðir eru opnir allt árið, líka tjaldsvæði, og veitingastaðir við þjóðveginn blómstra. Í hverri verslun er fólk frá öllum heimshornum að versla mat og aðrar nauðsynjar. Rútur, smábílar og húsbílar eru á ferð alla daga. Á Kirkjubæjarklaustri er ferðaþjónustan eins og hún var í júlí fyrir nokkrum árum.

Það fylgja því mörg verkefni að taka á móti fólki og það verða líka til tækifæri. Það þarf hugrekki og úthald til að byggja upp ný fyrirtæki en vonandi tekst heimafólki á hverjum stað að byggja upp það sem þarf til að gera upplifun ferðamanna þannig að þeir njóti og fari heim með góðar minningar.

Rannveig og Guðmundur. Ljósmynd Oddsteinn Örn Björnsson.

Comments


bottom of page