top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar

Updated: Nov 1, 2019


Ísafjörður, Eiríkur Örn Norðdahl, pistill, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur bölvað skemmtiferðaskipatúristunum sem leggjast á bæinn einsog engisprettur...“ Ljósmynd Julie Gasiglia

Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur flogið þangað í vondu veðri, fyrren þú hefur lent þar í rjómablíðu, keyrt Djúpið á einbreiðu með snjóveggina svo nálægt dyrunum að þú gætir ekki opnað þær til að fara út að moka, hvað þá mætt einhverum, keyrt Djúpið í svo rennblautri hálku að þú gætir ekki stoppað bílinn til að fara út að pissa án þess að bíllinn rynni af sjálfu sér út í sjó.


Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú ert búinn að vera þar nógu lengi til að bölva hverjum einasta díteil fyrir ömurlegan fábreytileika sinn – alltaf sömu bílnúmerin á rúntinum, alltaf sömu húsnúmerin undir sömu upsunum, alltaf sömu trúbadúrarnir á börunum – og þú lætur þig dreyma um fjarlægar strendur, Nauthólsvík, Costa del Sol, Svarta hafið, Skálavík og Ipanema, þú ert ekki í rónni fyrren þú ert laus við kuldann, laus við sama gamla skyndibitann, grænmetisdeildina í Nettó og sunnudagsþynnkuna sem leggst yfir bæinn, byrgir aftur fjörðinn jafn örugglega og þokan sem sest einsog kistulok á Gleiðahjalla.


Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur farið aftur heim, hvaðan sem þú komst, frá Selfossi, Kálfavík eða Bagdad, og aldrei komið aftur og komið svo samt aftur, kemur alltaf aftur og aldrei aftur. Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur misst vinnuna og flutt suður, farið út í nám, og skriðið heim gráðulaus með skottið á milli lappanna til þess eins að borga yfirdráttinn, námslánið, neyslulánið, sveittur og lúinn við þíðingavélina í Olsen, Básafelli, Miðfelli, Kampa, á skaki með frænda þínum frá Bolungarvík, dag eftir dag, skenkjandi bjór á Húsinu, eða skemmtandi ellibelgjunum á Hlíf, alltaf með hrífuna á lofti, alltaf með moppuna á lofti, alltaf nóg að gera.

Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú kemur heim úr margra ára námi með gráðu sem enginn kann skil á og stofnar startöpp, ferð að vinna í eldinu, Háskólasetrinu eða 3X-stál og hrekst í burtu þegar fótunum er kippt undan rekstrinum og lætur ekkert hrekja þig í burtu, þú býrð þar sem þú vilt búa, punktur. Svo er alltaf hægt að kaupa sér sumarhús. Í Reykjavík.

Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur gift þig inn í eina af lykilættunum, eitthvað flott slekti úr Djúpinu eða Hornströndum með nóg af villimannasögum í farteskinu til að réttlæta hreinlegt góðborgaralífið á 21. öldinni; þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur stoppað bæjarstjórann úti á götu, skammað hann fyrir að vera Bolvíkingur og krafist þess að hann geri eitthvað í umferðarhraðanum, dresskóðanum í sánunni, veðrinu, stemningunni á Verslunarmannahelginni og hann hefur bukkað sig og beygt og hlýtt hverju orði.

Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú ert kominn í stjórn Reykvíkingafélagsins á Ísafirði og segir ekki af þér fyrren vegna hagsmunaáreksturs þegar þú ert öllum að óvörum lentur í stjórn Ísfirðingafélagsins í Reykjavík.

Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur fagnað nýju kaffivélinni á Heimabyggð á sama tíma og þú saknar súra uppáhellingsins á Á eyrinni og þú saknar tvöfalda á-sins þegar maður sagði „hittumst á Á eyrinni“; þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur bölvað skemmtiferðaskipatúristunum sem leggjast á bæinn einsog engisprettur, drifnar áfram af svartolíu, og varið þá augnabliki síðar gegn öllum fordómunum sem þeir verða fyrir í landi, þetta er nú einu sinni fólk að sjá heiminn, fólk í leit að víðsýni einsog aðrir og svo skilur það eftir sig milljarða í hafnarsjóði og annað eins í keyptum póstkortum, þurfa allir alltaf að láta allt fara í taugarnar á sér og er nú alltíeinu bannað að ferðast???


Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú ert farinn að láta móðan mása í heimkynnarembingi – Eyri, Eyri über alles – og farinn að skammast þín fyrir hann nánast í sama andardrættinum, afboðar sjálfan þig, skríður í felur og lætur aldrei sjá þig aftur. Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur rifist við besserwisser úr Reykjavík um laxeldi, flugvelli, Facon, virkjanir, Hagalín, dúntekju, nagladekk, kvótakerfið, Albatross, gangagerð, Gísla Martein, Hrefnu-Konna, krókaveiðar og bestu tilboðin í Kringlunni. Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú hefur varið búsetu á „hamfarasvæðinu“, bölvað sumarhúsum utanbæjarmanna, fagnað utanbæjarmönnunum þegar þeir koma á sumrin – ævinlega margblessaðir og hjartanlega velkomnir, gamlir vinir hver og einn – bölvað AirBNB leigunni og leigt út húsið þitt á AirBNB þegar þú bregður þér til Kanarí yfir Fossavatnshelgina og borgar fríið upp í topp fyrir gróðann.

Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar fyrren þú ert farinn, fyrren þú þráir að fara, þráir að koma aftur, þráir að fara aftur, koma aftur, fara aftur alfarinn, koma aftur alkominn, veist ekki hvort þú eigir að fara; giftir þig og kemur aftur, skilur þig og ferð, bölvar því að festast hér á hjara veraldar, í hjarta veraldar; það er aldrei neinn kominn til Ísafjarðar, það er aldrei neinn á Ísafirði, hefur aldrei verið neinn á Ísafirði og verður ekki á meðan fjörðurinn er í byggð.

Þetta er bara misskilningur: Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar.



留言


bottom of page