top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ilmolíur frá Hraundísi


Hraundís, Hraundís Guðmundsdóttir, ilmkjarnaolíur, olíur, ilmur, frumkvöðlastarf, nýsköpun,  Hvanneyri, Borgarfjörður, Vesturland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Hraundís í skóginum að leita að hráefni fyrir framleiðslu sína. Ljósmynd aðsend.

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.


Hraundís Guðmundsdóttir útskrifaðist sem ilmolíufræðingur árið 2007 og hóf nokkrum árum síðar að framleiða og selja íslenskar ilmkjarnaolíur.

Hún er sú eina hér á landi sem framleiðir og selur slíkar olíur og segir að fólk þurfi að gæta þess að kaupa olíur sem eru náttúrulegar í stað þeirra sem framleiddar eru á rannsóknarstofum.

Að sögn Hraundísar vann hún  mikið með olíuna eftir útskrift, var að nudda og hjálpa fólki varðandi ýmsa kvilla og segist hafa vitað nánast allt um olíurnar, en hana langaði gjarnan að búa þær til, sem var eitthvað sem hún kunni ekki. „Ég fann stað í Arizona og fór þangað árið 2015 til að læra að eima. Ég var svo heppin að fólkið sem kenndi mér kom svo til Íslands og hjálpaði mér með fyrstu skrefin til að koma mér af stað. Ég fór svo í framhaldsmenntun til Washington í fyrrasumar og kynntist þar miklum snillingum allstaðar að og myndaði gott tengslanet í kjölfarið. “ segir Hraundís.


Hraundís er einnig menntaður skógfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands og hefur unnið sem ráðgjafi hjá Skógræktinni síðan árið 2012. Fyrirtæki hennar ber sama nafn og hún, Hraundís, og notast hún fyrst og fremst barrtré í sína framleiðslu og segir framleiðsluna vera sjálfbæra. „Ég er mikið í skóginum, ég fer þangað þegar það er verið að grisja eða kvista tré, þá nýti ég greinarnar sem eru skildar eftir. Það er ekkert arðbært að taka út þessar litlu greinar, það er ekki hægt að selja þær og þær eru of litlar til að kurla, þannig að þetta er skilið eftir og því er þetta er bæði náttúruleg og sjálfbær framleiðsla.“ segir Hraundís.

Hraundís, Hraundís Guðmundsdóttir, ilmkjarnaolíur, olíur, ilmur, frumkvöðlastarf, nýsköpun,  Hvanneyri, Borgarfjörður, Vesturland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Ég sendi allar olíur til efnagreiningar til Frakklands eða Kanada, þannig get ég lesið úr hvaða áhrif þær hafa á líkamann, það eru um 100 efni í hverri ilmkjarnaolíu.“ Ljósmynd aðsend.

Hraundís segir að plönturnar séu afar misjafnar eftir því hvar þær vaxa, veðurfar og jarðvegur hefur áhrif og segir hún að tré sem vex á Íslandi geti líka verið mismunandi eftir landshlutum. Hún segir að í fyrstu hafi hún einungis ætlað að selja íslenskar imkjarnaolíur en eftir að hafa fengið símtal fyrir nokkrum árum hafi þau plön breyst. Í kjölfarið hafi hún farið að selja ýmsar vörur á borð við verkjaolíu, barnaolíu og olíur gegn sveppum og skordýrum svo eitthvað sé nefnt. 

„Það hringdi í mig kona og maðurinn hennar hafði slasað sig á fæti og það virkuðu engin verkjalyf. Hún spurði hvort ég gæti ekki sullað einhverju saman handa honum. Ég gerði það og hún sagði mér að ég yrði að selja þetta, þetta virkaði það vel og þannig varð til verkjaolían.

Þannig að ég hef komið fram með ýmsar vörur sem urðu bara óvart til, eins og Flódís sem er við skordýrabiti. Ég var með hunda og ketti og það virkaði ekkert sem maður keypti í apótekum, þannig að ég bjó til olíu við flónum. Svo er ég með olíu sem fælir í burtu lúsmýið líka. Það er nefnilega merkilegt að olíurnar í plöntunum eru gerðar til þess að fæla skordýr frá, þess vegna virkar þetta svona vel á okkur líka. Ég sendi allar olíur til efnagreiningar til Frakklands eða Kanada, þannig get ég lesið úr hvaða áhrif þær hafa á líkamann, það eru um 100 efni í hverri ilmkjarnaolíu.“ segir Hraundís.


Hraundís, Hraundís Guðmundsdóttir, ilmkjarnaolíur, olíur, ilmur, frumkvöðlastarf, nýsköpun,  Hvanneyri, Borgarfjörður, Vesturland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Hraundís í miðju kafi við eimingu. Ljósmynd aðsend.

Hraundís fékk styrki þegar hún var að fara af stað og segir hún að það hafi hjálpað henni mikið, bæði fjárhagslega sem og að það hafi gefið henni og hugmyndinni byr undir báða vængi. Hún er sem fyrr segir eini aðilinn sem selur íslenskar ilmkjarnaolíur, en segist þó vita um aðra sem séu að eima en ekki selja líkt og hún. Hraundís selur líka olíurnar sínar í heildsölu og nota margir aðilar olíur frá henni, bæði hérlendis og erlendis, til að mynda notar Fischersund olíurnar í allar sínar vörur.

„Mesta vinnan er að safna þessu í skóginum, það getur verið erfitt að labba með þungan poka, sérstaklega þegar skógur er ný grisjaður þá liggja bolir þvers og kruss. Svo fer ég norður eða í Hallormsstað þannig að þetta eru ferðalög líka.

Ég nota gufueimingu og það fara frá fjórum og upp í tíu klukkustundir í að eima, það fer eftir tegund. Fyrst þegar ég fór af stað var að ég leita að eimingartæki á netinu, en endaði á að láta frænda minn smíða tæki fyrir mig tæki sem varð fljótlega of lítið. Þá fann ég gamlan mjólkurtank og frændi minn breytti honum fyrir mig þannig að ég gat notað hann. Ég er með starfsemina á Hvanneyri, hef búið í Borgarfirði í 25 ár og er að leggja lokahönd á nýja vinnslu sem verður tilbúin í vor. Þá ætla ég að hætta að vinna hjá Skógræktinni og einblína á þetta.“ segir Hraundís.


Að sögn Hraundísar þá er mikið af þeim ilmkjarnaolíum sem eru í sölu ekki náttúrulegar. „Þetta eru olíur sem eru yfirleitt alltaf framleiddar á rannsóknarstofu og hafa engin áhrif á líkamann. Það er mikið drasl á markaðnum og fólk þarf að passa sig á að kaupa náttúrulega vöru. Það sést oft á verðinu, ef þú sérð ódýra olíu þá er hún ekki ekta, því það er mikið ferli að búa þetta til og ekki hægt að selja vöruna ódýrt.“ segir Hraundís að lokum.


コメント


bottom of page