Ég er í sjoppunni. Inn skundar eldri maður, frekar úfinn í vinnujakka og með smurningu á höndum. „Einn“ segir hann og uppá borðið flýgur rauður Winston. Píp heyrist í posanum og út fer hann. Frekari samskipti þarf ekki við.
Ég labba inní búðina að versla. Sé smá augngotur þar sem viðstaddir þekkja mig ekki og það er ekki ferðamannatími. Spyr eftir því hvort það séu til vínber. Nei, bíllinn kemur seinnipartinn með vörur, þau verða til á morgun. Ok, ekkert mál, svoleiðis er þetta bara. Það er til nóg annað.
Ég fer á barinn á pub-quiz. Þar þekkja allir alla, nema mig. Og skotin ganga á milli, þessi hefur ekki gott af stigum, þessi hefur ekkert að gera með meiri bjór og svo mætir einhver og það er fagnað. Kannski ætlaði hann að vera heima í leti en fékk ekki frið. Af því að það vissu allir að hann var í landi.
Ég labba með drenginn minn í skólann á fallegum haustmorgni. Hann fær að vera þar í heimsókn nokkra daga á meðan við erum á staðnum. Þeir sem ég mæti bjóða góðan daginn, smá forvitni í augnaráðinu.
Seinna sama dag segir viðmælandi minn, „já varst það þú sem varst að labba í skólann með strák á hlaupahjóli, vinkona mín var einmitt að spyrja mig hvort ég vissi hver þetta hefði verið.“ Á morgun veit hún það.
Ég fer á jólamarkað, þar eru bændur úr sveitinni og heimafólk með alls kyns varning, þvílíkt lostæti. Unglingar að selja varning til styrktar íþróttastarfi, kvenfélagið með kaffiveitingar. Það er spjallað og hlegið í skammdeginu. Kaupi mér krydd og harðfisk. Vöfflu og kakó. Æðislegt.
Ég fer í apótekið og það er lokað. Það er lokað á miðvikudögum, hefur bara alltaf verið svoleiðis. Enginn sem stressar sig á því.
Ég sé auglýsingu um haustballið sem var um síðustu helgi, missti af því, það hefur verið eitthvað. Einhverjir á bömmer fram að þorrablóti. Jafnvel séð um skemmtiefni fyrir þorrablótið.
Ég kem út úr ræktinni einn morguninn og sé að „kallarnir“ eru í morgunsopanum í sjoppunni að taka stöðuna á bæjarmálunum. Eða var það á verkstæðinu, eða vöruskemmunni?
Ég spjalla við afgreiðsludömuna á kaffihúsinu. Það er ekki til latté en prýðisgott uppáhelt. Tek það, og blöðin, jú það komu ný í dag. Frábært.
Spjall um daginn og veginn, atvinnulífið hefur auðvitað breyst segir hún, það fluttu margir þegar „þeir“ komu og keyptu kvótann, fóru svo með hann þrátt fyrir að lofa öllu fögru. Svona var það bara. Það kemur inn kúnni og hún heilsar glaðlega, fer að snúast.
Ég les á auglýsingarnar á korktöflunni í búðinni. Hús til sölu, annað til leigu, snyrtistofan lokuð tímabundið vegna utanlandsferðar snyrtifræðingsins, tónleikar á ferð á milli staða, bingó til styrkar heimamanni sem berst við krabbamein. Opnunartímar á sundlauginni. Þetta gæti alveg verið heima.
Ég er nefnilega svo heppin að heimsækja íslensk þorp þessi misserin í gagnasöfnun. Alls staðar er eitthvað eins og heima, alls staðar eitthvað nýtt. Það er einhver þekktur fyrir nísku, annar fyrir örlæti, þriðji fyrir kjaftagang og fjórði er brandarakall eins og afi hans var, það er íþróttafríkin, listamaðurinn og svo má áfram telja. Því í grunninn eru samfélög manna keimlík og við þorpararnir líka.
Ég kem heim í þorpið mitt aftur úr einni viðtalsferðinni og svolítið að flýta mér þó það sé hálka á fjallvegum. Því ég var búin að lofa syni mínum að fara með honum á félagsvist í kvöld.
Sá er orðinn lunkinn að spila, betri en ég var á hans aldri. Sama fólkið samt, bara eldra, sumir farnir, aðrir bæst við. Hann er yngstur spilamanna, 9 ára og sá elsti er 91 árs. Labba inní félagsheimilið og hitti fólkið mitt, sé svo unga konu sem ég veit engin deili á. Halla mér að borðfélaga mínum og spyr „hver er þetta“.
Texti: Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Commentaires