top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Farfuglarnir færa samfélaginu svo mikið“


Aron Ingi Guðmundsson, Julie Gasiglia, Húsið-Creative Space, listir, menning, menningarmiðstöð, Patreksfjörður, landsbyggðin, gestavinnustofur, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Aron Ingi Guðmundsson og Julie Gasiglia. Ljósmynd úr safni Hússins-Creative Space

Húsið-Creative Space var sett á fót snemma sumars árið 2017 á Patreksfirði af hjónunum Julie Gasiglia og Aroni Inga Guðmundssyni. Þar hafa þau hjón staðið fyrir ýmsum viðburðum, líkt og tónleikum, listasýningum, listsköpunarkvöldum, bókaklúbbum, spilakvöldum, auk ýmissa annarra menningartengdra viðburðra. Auk þess hafa þau boðið upp á gestavinnustofur fyrir listafólk, samvinnurými, kaffihús og litla handverksverslun.


Verkefnið hefur þróast síðan fyrst var farið af stað og eru örlitlar breytingar í kortunum í Húsinu. Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við þau hjón á dögunum og forvitnaðist um hvernig hugmyndin kviknaði á sínum tíma og hvaða breytingar væru framundan.

Julie segir að hugmyndin að Húsinu hafi kviknað snemma árs árið 2016 þegar hún og Aron bjuggu og störfuðu í London. Hún segir að þau hafi saknað Íslands og þau hafi haft augastað á landsbyggðinni til að setja á fót stað þar sem hönnuðir og listafólk gæti komið saman, unnið og lært af hvort öðru.

„Við skoðuðum hús sem voru til sölu og féllum kylliflöt fyrir húsi á Patreksfirði sem var byggt um aldamótin 1900, gamalt sögufrægt hús sem ber nafnið Merkisteinn. Eftir að hafa heimsótt bæinn og skoðað húsið gerðum við tilboð sem var samþykkt. Þetta var um vorið 2016 og við vorum flutt þangað um haustið sama ár. Svo tók við einn vetur þar sem við tókum húsið í gegn og gerðum tilbúið fyrir þessar vinnustofur. Í vinnuferlinu breyttist hugmyndin svo aðeins, við fundum fyrir þörf í bænum fyrir samkomustað og ákváðum því líka að bjóða upp á ýmsa viðburði á borð við bókaklúbb, spilakvöld, bjórsmökkun og listasýningar. Við opnuðum svo Húsið-Creative Space um Hvítasunnuhelgina árið 2017 þegar Skjaldborgarhátíðin stóð yfir og vorum þar með sýningar á verkum Woody og Steinu Vasulka, var það skemmtileg viðbót við þá frábæru hátíð.“ segir Julie.

Merkisteinn, Patreksfjörður, Húsið-Creative Space, gestavinnustofur, listir, menning, Vestfirðir, landsbyggðin, residency, Julie Gasiglia, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit
Merkisteinn þar sem boðið er upp á gestavinnustofur Hússins-Creative Space. Ljósmynd Julie Gasiglia

Að sögn Arons voru viðtökurnar við Húsinu virkilega góðar og fundu þau fljótt fyrir því að þau þurftu stærra húsnæði undir starfsemina. Um haustið 2017 fóru þau að undirbúa það, en héldu þó áfram starfseminni sem var vel sótt. Þau báru svo undir bæjaryfirvöld hugmyndina um að færa út kvíarnar og var bent á ónotað húsnæði við höfnina, í gömlum beitningarskúrum, í húsi sem jafnan er kallað Gamla Verbúðin.

„Þar fengum við lykla afhenta í byrjun febrúar árið 2018 og opnuðum þann 20. mars með listasýningu og pompi og prakt. Frá þeim tímapunkti höfum við staðið fyrir um 100 viðburðum ásamt því að bjóða upp á viðburði á borð við bjórsmökkun og kareokee kvöld, þannig að þetta hefur líka verið ákveðinn samkomustaður fyrir bæjarbúa og ferðafólk. Þetta hefur vakið mikla lukku og verið bæði skemmtilegur og lærdómsríkur tími.“ segir Aron.

Samkvæmt Julie hefur starfið verið virkilega gefandi og hún segir að það sé gaman að hitta allt þetta fólk, bæði heimafólk og listafólk sem komi allstaðar að og mynda tengsl sem munu vara áfram, vonandi um alla lífstíð. Julie segir að verkefnið sé stöðugt í þróun, sé lifandi og að þau Aron séu bæði óhrædd við áherslubreytingar ef þörfa þykir.

Valdimar, Örn Eldjárn, Húsið-Creative Space, listir, menning, Julie Gasiglia, Patreksfjörður, Vestfirðir, úr vör, vefrit, tónlist, tónleikar
Frá tónleikum Valdimars og Arnar Eldjárns sem fram fóru í Húsinu-Creative Space í nóvember árið 2018. Ljósmynd Julie Gasiglia

„Þetta er auðvitað hugsjónastarf og maður er ekkert í þessu til að fá aur í vasann, þetta er maraþon og það tekur tíma að festa eitthvað svona í sessi. Við ákváðum að breyta aðeins um stefnu varðandi þetta verkefni en við trúum því að starfsemi sem þessi hafi góð áhrif á samfélagið og geti komið Patreksfirði á kortið í lista- og menningarheiminum. Við tókum ákvörðun í lok síðasta árs að flytja okkur um set, færa okkur aftur í Merkistein og einbeita okkur að gestavinnustofunum.

„Gestavinnustofurnar er það sem við höfum haft ótrúlega gaman af, það er það sem hefur gefið okkur hvað mest og hefur gefið góða raun í Húsinu hingað til. Það býður líka upp á svo mikla möguleika hvað varðar samfélagið á svæðinu.“ segir Julie.

Julie og Aron eru á fullu þessa dagana að undirbúa ákveðnar samfélagslegar gestavinnustofur þar sem fólk getur dvalið og sinnt list sinni eða verkefnum. Markmiðið er að gestirnir færi samfélaginu eitthvað og því verður alltaf boðið upp á námskeið, sýningar eða einhverja viðburði fyrir börn og fullorðna sem tengist vinnu notenda vinnustofanna í lok dvalarinnar. Julie segir að þau hafi fengið á dögunum styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða til að setja upp þessar samfélagslegu vinnustofur sem yrðu án aðgangseyris, þar sem fólk mun vinna saman að því að leysa ýmis samfélagsleg vandamál. Vinna við undirbúning á þessum vinnustofum er vel á veg komin og er búið að setja saman vinnuhóp sem samanstendur af fagfólki, bæði innlendum sem erlendum aðilum.

Merkisteinn, Húsið-Creative Space, Julie Gasiglia, Aron Ingi Guðmundsson, listir, menning, gestavinnustofa, residency, Patreksfjörður, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Frá Merkisteini þar sem Julie og Aron undirbúa rými fyrir gestavinnustofur. Ljósmynd Julie Gasiglia.

„Við höfum fengið til liðs við okkur Yasuaki Tanago sem er japanskur arkitekt, en hann hefur unnið verkefni í samstarfi við samfélagið á Þingeyri. Einnig bættist í hópinn Becky Forsythe, Kanadískur sýningarstjóri sem hefur m.a. starfað í Nýlistasafninu. Svo starfar einnig með okkur menningar-og ferðamálafulltrúi Vesturbyggðar, hún Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir. Við vonumst við til þess að geta byrjað með þessar tilteknu vinnustofur í haust eða byrjun næsta vetrar og munum auglýsa þær betur í náinni framtíð. En fyrir almennar gestasvinnustofur sem fólk sækir á eigin vegum, þá höfum við opnað fyrir umsóknir og hvetjum bara sem flesta til að sækja um!“ segir Julie, augljóslega spennt fyrir verkefninu.


Aron segir að þau Julie bindi miklar vonir við starfsemina sem tengist vinnustofunum. Hann segir það vera virkilega gagnlegt og frelsandi að koma í umhverfi líkt og er fyrir vestan, að koma í lítinn bæ á hjara veraldar þar sem er stutt er í hverja náttúruperluna á fætur annarri.

„Þetta gefur manni svo mikinn innblástur og hugarró og við vonumst til þess að fá fjölmarga svokalla farfugla til okkar á næstunni, fólk sem kemur hingað og vinnur í ákveðinn tíma. Farfuglarnir færa samfélaginu svo mikið, við höfum séð dæmi um það nú þegar og það mun eiga sér stað áfram, sem er náttúrulega bara frábært fyrir svæðið og samfélagið!“ segir Aron að lokum.
Gamla Verbúðin, Krot og Krass, vegglist, listir, menning, Húsið-Creative Space, Julie Gasiglia, Patreksfjörður, landsbyggðin, gestavinnustofa, residency, mural, úr vör, vefrit
Listatvíeykið Krot og Krass dvöldu í gestavinnustofu á vegum Hússins-Creative Space í ágúst árið 2019 og unnu verkið "Úr vör" á gafl Gömlu Verbúðarinnar, þar sem Húsið-Creative Space var til húsa áður. Ljósmynd Julie Gasiglia


Comments


bottom of page