top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hughrif menningar


Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, menning, bókmenntir, list, Ísland, kvikmyndir, úr vör, vefrit
„Í hugarheimi bókmenntanna liggur blóðug slóð glæpamanna um landið, hvort sem er í borginni eða í sveitum landsins.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Menningarheimarnir og áherslurnar í hverju landi eru ólíkar en það er áhugavert að skoða afþreyingu ólíkra menningarheima. Þegar við skoðum kvikmyndir frá stríðshrjáðum eða mjög fátækum löndum þá gengur allt út á söng og gleði og við föllum jafnvel í þá gryfju að kalla það lágmenningu. Þegar svo kvikmyndir og þá sérstaklega sjónvarpsþættir frá Norðurlöndum eru skoðaðir þá eru iðulega morð og hörmungar handan við hornið og því meira blóðbað og hryllingur því betri þykja þættirnir.


Íslendingar eru engir eftirbátar í morðsögunum og er svo komið að varla er hægt að ferðast um landið án þess að fá hroll yfir öllum hryllingnum sem hefur verið skapaður um ákveðna staði. Þetta er hreint ekki fyrir viðkvæmar sálir.

Þá er fróðlegt að skoða vinsælustu íslensku bækurnar en þar tróna krimmarnir á toppnum og ef lesandinn hefði aldrei komið til Íslands væri engin leið fyrir hann að ímynda sér að landið væri eitt það friðsælasta í heimi. Í hugarheimi bókmenntanna liggur blóðug slóð glæpamanna um landið, hvort sem er í borginni eða í sveitum landsins. Jafnvel eyðibýli hafa þótt góðir staðir til ofbeldisverkanna, svo enginn er óhultur.
Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, kvikmyndir, bókmenntir, menning, list, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Bækur vekja okkur til umhugsunar um lífið og tilveruna og í raun hversu hverfult það líf sem við lifum hér og nú getur verið.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Í íslenska kvikmyndaheiminum er farið vel í saumana á einbúanum, sérvitringnum og almennum undarlegheitum en þegar kemur að þáttagerð þá eru það aftur morðin sem eiga hug okkar allan. Það er reyndar svolítið kómískt hvað okkur finnst spennandi að gera kvikmyndir um undarlegt fólk í sveitum en stórmyndir eins og „Undir trénu“ hafa þó náð að lýsa undarlegu fólki í borgum svo þetta jafnast aðeins út. Hinsvegar ber lítið á myndum um glatt fólk sem vegnar vel og hefur engar glæpsamlega hegðun á samviskunni.

Bækur vekja okkur til umhugsunar um lífið og tilveruna og í raun hversu hverfult það líf sem við lifum hér og nú getur verið. Bókin The Pianist of Yarmouk eftir Aeham Ahmad er bók sem neyðir fólk til að meta stöðu sína. Höfundurinn fæddist í Sýrlandi 1988 og lifði þar fullkomlega eðlilegu lífi og lærði á píanó og dreymdi um að verða píanóleikari.

Upp úr 2010 fer ástandið sífellt versnandi í Sýrlandi og borgarhverfið sem hann bjó í var lokað af svo skyndilega var fólk án matar og rafmagns og varð að finna leiðir til að bjarga sér undir kúlnaregni, en allt varð þetta hluti af daglegu lífi fólksins. Draumar um framtíðina breyttust á örskömmum tíma og það þurfti að aðlaga sig algerlega nýjum og mjög frumstæðum aðstæðum. Mesta vinnan fór í að afla sér matar og finna eldivið en í innilokaðri borg var það helst plastbrúsar og drasl.

Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, landsbyggðin, list, menning, bókmenntir, kvikmyndir, landsbyggðin, Ísland, úr vör, vefrit
„Það sem situr í huganum eftir þessar pælingar er í raun, getur verið að menningin sé öfugur spegill þannig að þegar að allt gengur vel þá sköpum við óhugnað og sögur um undarlegt fólk?“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þegar aðstæður voru orðnar nær óbærilegar vegna hungurs og skorts á aðbúnaði tók Aeham Ahmad sig til ásamt vinum sínum og útbjuggu þeir kerru undir píanóið hans og keyrðu því út á götu til að spila fyrir börnin í hverfinu og þau sungu með. Þarna sá hann leið til að koma gleði inn í líf barnanna sem bjuggu við hræðilegar aðstæður með tónlistinni. Þetta var svo tekið upp á síma og sent út um allan heim í gegnum samfélagsmiðla og hægt er að sjá þessar myndir á Youtube en á endanum varð hann að flýja land þar sem hann var orðinn þekktur sem píanóleikarinn í Yarmouk og í raun lífshættulegt að verða þekktur. Hann komst til Þýskalands þar sem hann býr nú með fjölskyldu sinni og kennir tónlist.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þessi ungi maður sem lifði eðlilegu lífi í Sýrlandi fyrir innan við áratug hafi þurft að fara í gegnum allar þessar hörmungar sem stríðið í Sýrlandi er og að tónlistin hafi í raun bjargað honum og fjölskyldunni úr landi.

Það sem situr í huganum eftir þessar pælingar er í raun, getur verið að menningin sé öfugur spegill þannig að þegar að allt gengur vel þá sköpum við óhugnað og sögur um undarlegt fólk? En þegar allt er á vonarvöl þá kemur ekkert nema söngur og gleði upp í hugann. Þráum við afþreyingu sem er langt frá raunveruleika okkar? Sókn okkar í ofbeldis- og glæpamyndir hefur náð slíkum hæðum að í öfuga speglinum er auðvelt að lesa út úr öllu drungalega menningarefninu að Íslendingar er ákaflega hamingjusöm, friðsöm þjóð sem lítil ógn steðjar að, njótum þess.



Commentaires


bottom of page