top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Verst geymda leyndarmálið


Hlaupahátíð, Vestfirðir, Þingeyri, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Gústi Production, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Hlaupahátíðín teygir nú anga sína til Bolungarvíkur, Ísafjarðar, Súðavíkur, Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Ljósmynd Gústi Production

Dagurinn er bjartur, spáin góð og allt er að verða klárt. Þéttbýli tjalda, tjaldvagna og fellihýsa breiðir úr sér bak við íþróttahúsið á Þingeyri og sífellt bætist í. Það er ekki hægt að segja annað en að eftirvæntingin liggi í loftinu þennan fimmtudagsmorgun. Það stefnir í metþátttöku. Hjól útum allt og sportlegt fólk að spóka sig. Þingeyri er skemmtilegur bær heim að sækja. Hér er belgískt kaffihús, hljóðfærasafn, handverkshús, víkingaskálar (já ekki einn heldur tveir), samvinnurými (coworking space), hestar, gönguleiðir, franskur kirkjugarður og fleira. Já það er margt að sjá en fólkið sem hingað er komið núna er aðallega komið fyrir annað. Það er komið fyrir Vesturgötuna.


Vesturgatan er heiti leiðar fyrir nesið milli Keldudals í Dýrafirði og Stapadals í Arnarfirði. Það er leið sem er bæði stórbrotin og einstök fyrir margar sakir en Elís nokkur Kjaran Friðfinnsson, bóndi á Kjaranstöðum í Dýrafirði, útbjó hana einn síns liðs á litlu ýtunni sinni Teskeiðinni á 8. áratugnum.

Vesturgatan er vinsæl meðal útivistarfólks fyrir göngur, hjól- og hestaferðir. Svo er hún líka tilvalin fjallahlaupsleið, eða það þótti nokkrum vestfirskum hlaupurum og framtaksömu íþróttafólki hjá íþróttafélaginu Höfrungi, sem árið 2006 lögðu í þá vegferð að setja á stofn útihlaup einmitt um þessa leið.
Hlaupahátíð, Gústi Production, Vestfirðir, Þingeyri, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Í ár voru 600 skráningar og þar af um 200 í hjólreiðar. Ljósmynd Gústi Production

Nokkrum árum síðar átti þetta útihlaup eftir að breytast í hlaupahátíð sem teygir nú anga sína til Bolungarvíkur, Ísafjarðar, Súðavíkur, Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Keppnisgreinum hátíðarinnar hefur jafnframt fjölgað og er nú ekki aðeins keppt í hlaupi, heldur einnig sjósundi, hjólreiðum og þríþraut og líkt og vera ber geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi og getu. Keppnin, sem ávallt er haldin þriðju helgina í júlí, nær frá fimmtudegi til sunnudags. Í ár voru 600 skráningar og þar af um 200 í hjólreiðar en keppnin er hluti af Íslandsmeistaramótinu í maraþonhjólreiðum.


Laugardagur. Strax í morgunsárið er lofthiti þónokkur og sólin tekin að skína. Hjólreiðamenn eru ræstir frá íþróttahúsinu á Þingeyri í 55 km fjallahjólreiðar. Leiðin þræðir sig upp um fjöll og firnindi, holt og hæðir. Það er heitt og leiðin er líkamlega erfið. Framhjá flugvellinum í Dýrafirði beygja þátttakendur inn í Kirkjubólsdal, og þaðan burt frá byggðu bóli yfir Álftamýrarheiði í 544 m hæð.

Hlaupahátíð, Vestfirðir, Þingeyri, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Gústi Production, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Hlaupahátíðin á Vestfjörðum lætur ekki mikið yfir sér en þeir sem þekkja til koma aftur og aftur. Ljósmynd Gústi Production

Púff, púff, áfram eftir langri en grófri brekku niður Fossdal að sjó Arnarfjarðarmegin. Eins gott að vera á almennilegum dekkjum! Inní dalnum er enginn vindur og sólin steikjandi svo um stund virðist allt heldur óraunverulegt. Heitt loftið strýkur vangan með snert af miðjarðarhafsstemningu ef ekki væri fyrir lambagrasið sem þýtur framhjá og kallar vitundina til baka til raunveruleikans.

Vatnsberarnir eiga í fullu fangi með að koma upp standi áður en þeir fyrstu þjóta framhjá. Áfram, áfram frá Fossdal yfir í Stapadal og eftir Kjaransvegi (Vesturgötu) yfir að Lokinhömrum, fyrir Sléttanes að Svalvogavita. Fegurðin! Eftir sillunni í Hrafnhólum liggur leiðin inn í Keldudal og nú er stutt eftir inn Dýrafjörðinn og að marklínu við sundlaugina. Sigurvegarinn lýkur keppni á rétt rúmum 2 tímum og áhorfendur klóra sér í kollinum. Jahérna.


Hlaupahátíðin á Vestfjörðum lætur ekki mikið yfir sér en þeir sem þekkja til koma aftur og aftur. Hátíðin sem hefur vaxið og dafnað síðustu 13 ár er nú að verða eitt verst geymda leyndarmál Vestfjarða.

Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Hlaupahátíð, Vestfirðir, Þingeyri, Vesturgatan, landsbyggðin, Gústi Production, úr vör, vefrit
Vesturgatan er vinsæl meðal útivistarfólks fyrir göngur, hjól- og hestaferðir. Ljósmynd Gústi Production


Comments


bottom of page