top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Kærkomin viðbót í mannlíf Ísfirðinga 


Heimabyggð, kaffihús, Ísafjörður, landsbyggð, Julie Gasiglia, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Kaffihúsið Heimabyggð sem staðsett er í miðbæ Ísafjarðar. Ljósmynd Julie Gasiglia

Kaffihúsið Heimabyggð á Ísafirði opnaði fyrir rúmu ári síðan, eða nánar tiltekið þann 1. nóvember árið 2018 og eru það hjónin Lísbet Harðar Ólafardóttir og Gunnar Jónsson sem standa á bakvið starfsemina. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Lísbet á dögunum sem sagði undirrituðum að vel hafi gengið síðan þau opnuðu. Hún segir að þau hafi í raun ekkert vitað hver viðbrögðin yrðu og að þetta hafi verið hugsað sem hálfgerð tilraun í upphafi en þau fyndu það þó sterkt að fólk sé ánægt og óhætt sé að hugsa um lengri tíma en nokkra mánuði í einu.


„Upphaflega vorum við ekki með margar fastmótaðar hugmyndir. Til að mynda höfum við alltaf haft mjög opinn og flæðandi matseðil, sem tekur breytingum eftir tíðaranda og stemmingu hverrar árstíðar.

„Það eina sem við vorum ákveðin með í upphafi var að bjóða upp á súrdeigsbrauðið okkar og súpur og matmikla grænmetisrétti  í hádeginu. Kaffihúsið hefur fengið að þróast á fyrsta árinu og mótast í átt að því sem það ætlar að verða.“ segir Lísbet.

Opið er alla daga á Heimabyggð, auk þriðjudags og fimmtudagskvölda. Samkvæmt Lísbet er stemningin á kaffihúsinu afslöppuð og skemmtileg og samfélagið tekur virkan þátt í að móta þá þjónustu sem Heimabyggð býður upp á. Lísbet  segir að margt hafi komið skemmtilega á óvart þetta fyrsta ár.

Heimabyggð, Ísafjörður, kaffihús, menning, landsbyggð, Vestfirðir, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Heimabyggð er vinsæll staður hjá heimafólki sem og ferðafólki, enda er þar notalegt andrúmsloft og gott úrval á matseðli. Ljósmynd Julie Gasiglia.

“Við vissum t.d ekki að við myndum vera með veisluþjónustu, bjóða upp á smárétti í útskriftum eða gera 72 Vegan Wellington steikur fyrir aðfangadag! Það er ótrúlega margt sem hefur komið óvænt inn á borð hjá okkur sem við höfum prófað og síðan fest í sessi hjá okkur.

„Nú síðast skelltum við upp í tilraunaskyni umbúðalausri verslun með þurrvöru sem átti bara að standa í september, en sökum mikilla og jákvæðra viðbragða er hún komin til að vera.


Lísbet segir að mikil áhersla sé lögð á gott hráefni  í allri matargerð á Heimabyggð. „Við erum „flexiterian“ staður, alla jafna erum við með vegan og grænmettisrétti í hádeginu en það kemur þó fyrir að okkur áskotnast góður fiskur sem við bjóðum uppá. Þá reynum við að nýta hráefnin sem við getum fengið í nærumhverfinu. Mjólkurbyrginn okkar er Arna í Bolungarvík, við kaupum saltið af Saltverki og reynum eins og við reynum að halda flutningi á hráefni hingað í lágmarki. Það sem við kaupum annarsstaðar að er valið af mikilli kostgæfni. Gestir Heimabyggðar geta keypt umbúðalausan varning frá Örnu sem hefur ekki verið hægt annarsstaðar og allt sem við gerum á matseðlinum okkar er hægt að taka með sér heim.“ segir Lísbet.

Heimabyggð, kaffihús, ísafjörður, Vestfirðir, landsbyggðin, Julie Gasiglia, umbúðalaus verslun, umhverfismál, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Umhverfismál eru ofarlega í huga eiganda og er boðið upp á umbúðalausa verslun í Heimabyggð. Ljósmynd Julie Gasiglia

En Heimabyggð er ekki eingöngu kaffihús því þar er reglulega boðið upp á allra handa viðburði. Það er t.d. alltaf myndlistarsýning á veggjum staðarins.

„Svo erum við með æðislegt rými fyrir tónleika, gjörninga og stærri sýningar í kjallaranum.  Þá hefur fataskiptimarkaðurinn okkar notið mikilla vinsælda. Við reynum að hafa hann með reglulegu millibili. Þetta er eitthvað sem hefur bara þróast og gerst, ekkert sem var niðurnjörvað frá upphafi.

„Lykilatriðið er að hafa skemmtilegt. Það á að vera skemmtilegt þar sem maður býr og það eykur líkurnar á því til muna að hafa kaffihús á staðnum” segir Lísbet.

Heimabyggð, Ísafjörður, kaffihús, menning, list, Vestfirðir, landsbyggðin, gjörningar, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Skemmtilegt rými er í kjallara Heimabyggðar, þar sem boðið er upp á gjörninga og sýningar reglulega. Ljósmynd Julie Gasiglia

Lísbet og Gunnar fundu vel fyrir ferðamannastraum sumarsins, en voru bæði ánægð og fegin að heimafólk átti alltaf sitt pláss og hélt áfram að koma þrátt fyrir mikla aukningu gesta þessa mánuði. Heimabyggð hafði þá sérstöðu að opna eldsnemma og var eini staðurinn á svæðinu þar sem hægt var að kaupa morgunmat í sumar. Yfir veturinn er heimafólk langstærsti viðskiptahópurinn, en þá kemur traffíkin meira í törnum frekar en á sumrin. „Suma daga er þung hádegistraffík og mikill erill, en aðra er rólegt og þá næst oft stolin stund yfir barborðið.

Við ákváðum líka að hafa opið á þriðjudags og fimmtudagskvöldum.  Á fimmtudögum erum við með skemmtileg tilboð á barnum, svokallaða litla laugardaga og oft er mikið um að vera og góð stemming. Þriðjudagarnir eru fullkomnir í grámyglunni - súrir dagar sem skemmtilegt er að brjóta upp með ferð á kaffihús eða einn drykk með vini um kvöldið.“ segir Lísbet að lokum.
Heimabyggð, Ísafjörður, kaffihús, dögurður, Aron Ingi Guðmundsson, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Ritstjóri ÚR VÖR gæddi sér á dýrindis dögurði í Heimabyggð síðastliðið sumar. Ljósmynd Julie Gasiglia


Comments


bottom of page