Hjónin Pálmi Einarsson og Oddný Anna Björnsdóttir keyptu jörðina Gautavík í Berufirði á síðasta ári og stefna á að lifa á sem sjálfbærastan hátt á þeim slóðum. Þau eru farin að gera tilraunir til að rækta iðnaðarhamp og vilja sjá hvort að þau fái eitthvað af stað. Langtímamarkmið þeirra er að að reyna að fá trefjar til að gera trefjaplötur sem hægt er að vinna leikföngin þeirra úr, en þau reka fyrirtæki sem framleiðir módel leikföng. Hingað til hafa leikföngin verið framleidd úr harðpressuðum pappa, en draumurinn hefur alltaf verið samkvæmt Pálma að framleiða eigin efni.
Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Pálma á dögunum og forvitnaðist um þessa áhugaverðu plöntu sem hampur er og hvernig ræktunin gengi.
Pálmi segist alltaf hafa verið að argast í fjölmiðlum og bændum af hverju þeir væru ekki að skoða iðnaðarhampinn varðandi ræktun. Áður fyrr var hampur aðaliðnaðarefnið, t.a.m. varðandi klæði eða segl. Samkvæmt Pálma voru Levi´s buxurnar t.d. upphaflega úr hampi og eru þær bláar á litinn því það sé liturinn á hampinum.
Hampurinn þótti svo mikilvægur um tíma að í seinni heimstyrjöldinni voru bændur skyldaðir til að nota ákveðinn hluta af jörðinni þinni til að rækta hamp samkvæmt Pálma. En síðar var hann svo bannaður. Harry J. Anslinger, sem hafði haft her lögreglumanna í vinnu við að hella niður ólöglegu áfengi þegar áfengisbanni réði ríkjum barðist grimmt gegn hampinum og fór í áróðursherferð því eitthvað vantaði til að taka við af áfenginu.
„Anslinger markaðsetti þetta sem Marijuna og þetta var tengt Mexíkóum sem komu ólöglega yfir landamærin og það myndaðist ákveðin hysteria varðandi þetta. En við viljum eyða þessu Marijuana nafni. Kannabis indica er lyfjahampurinn og kannabis sativa sem er iðnaðarhampur. Það eru til milli 10.000 og 40.000 tegundir af hampi.
„Og þetta skiptist sem sagt í tvennt, annarsvegar lyfjahampur, sem er með THC í sem er í hassi, svo er önnur tegund sem er þessi sativa og þar er ekkert THC. En þeir bönnuðu þetta á þeim forsendum að þetta væri stórhættulegt eiturlyf og iðnaðarhampurinn var tekinn inn í þetta og allt bannað.“ segir Pálmi.
Pálmi segir að fæðubótarefni séu líka unnin úr hampi. Um er að ræða sambærilegt efni og lýsi eða fæðubótarefni sem þú vinnur úr hvönn og hefur þetta verið notað gegn einhverfu og mígreni. Að sögn Pálma virðist þetta efni rétta af líkamann, núllstilla hann að einhverju leyti. Það er því hægt að gera margt með hampinn og segir Pálmi þessa plöntu vera ansi magnaða.
„Fólk er að væla yfir að tré séu felld, en einn hektari í hamp ræktun gefur af sér fimm sinnum meira magn af pappír heldur en tré. Og það tekur fjóra mánuði að rækta hamp en það tekur 20 til 30 ár að rækta tré. Það er bara pólitík sem kemur í veg fyrir að þetta vandamál er leyst og það er mikið þekkingarleysi varðandi þetta.“ segir Pálmi.
Pálmi er menntaður iðnhönnuður og vann hann hjá heilbrigðistæknifyrirtækinu Össur hf. í 18 ár og var þróunarstjóri, tæknistjóri, og sá um stóra deild fyrirtækisins í Bandaríkjunum í sjö ár að hans sögn. Hann segist vera ágætur í að rannsaka og þróa vörur. Samkæmt Pálma snýst þetta mikið til um ef hann nái að gera eina trefjaplötu úr hampi, þá sé hann búinn að sýna fram á þetta sé hægt. „En ég þarf að finna tegundina sem hentar hér. Ljósið er erfitt hér og sumarið stutt og aðstæður þurfa að spila með manni. Nú er til dæmis búið að vera kalt og hvasst og snjór niður í hlíðar og svo hefur ekki rignt í 2 mánuði. Þetta hjálpar ekki, en það eru komnir smá sprotar samt núna.
„Við erum bara að gera tilraunir, litla skammta fyrir okkur og reyna að fá aðra bændur til að gera þetta líka. Þetta er verðmætt til útflutnings líka og það er hægt að nota þetta í svo mikið. Þessi planta er ofsalega spennandi fyrirbæri, ef þú spyrð mig hvað það er sem leysir vanda heimsins þá er svarið einfalt. Það er hampur, en þú þarft að leysa pólitísku flækjuna áður og stöðva þennan áróður sem er í gangi.“ segir Pálmi.
Pálmi segir það hafi verið orðið alltof dýrt að vera með fyrirtæki í bænum og því hafi þau flutt austur. Að sögn hans keyptu þau 30 kindur í staðinn fyrir að kaupa nýjan flatskjá og núna séu þau komin með 30 lömb. „Við eigum nokkrar hænur og höfum sett niður kartöflur og rófur. Svo er fín vík hér og ég er að leita að litlum bát til að ná í fisk. Það er ekkert undir í þessu fyrir mig, mig dreymir um að stofna þróunarsetur sem einblínir á allt sem við kemur sjálfbærni.
„Ég reyndi að koma þessu áfram en við ákváðum að gera þetta svo sjálf að lokum og erum að gera þetta fyrir okkur sjálf. Svo er bara vonandi að aðrir taki eftir þessu, það er virði í þessu og vonandi sér fólk að hér sé komin hugmynd.“ segir Pálmi að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comentários