Á Ísafirði fer fram félagslandbúnaður sem ber nafnið Gróandi. Vel er liðið á fjórða rekstrarár félagsins og heyrði blaðamaður ÚR VÖR í Hildi Dagbjörtu Arnardóttur á dögunum sem sagði undirrituðum frá öllu sem tengist slíkri ræktun í heimabyggð.
Samkvæmt Hildi kviknaði hugmyndin á vistræktar námskeiði þar sem hún bjó í Noregi fyrir nokkrum árum. Þar hitti hún par sem er að rækta grænmeti í Finnmörku, sem er mun norðar en Ísland. Þau voru að rækta allt það sem Hildur var að rækta í suður Noregi á þeim tíma að hennar sögn, með því eingöngu að forrækta sumar tegundirnar í gróðurhúsi.
Á sama námskeiði hitti hún svo konu sem var að vinna í elsta félagslandbúnaði í Noregi, í Bærum. „Hún útskýrði það fyrirkomulag fyrir mér og ég sá fyrir mér að það væri tilvalið að stofna félagslandbúnað á Ísafirði og ef það væri hægt að rækta svona fjölbreytt grænmeti í Finnmörku þá ætti það sannarlega að vera hægt á Ísafirði.
Þetta er virkilega einfalt fyrirkomulag, félagsmenn borga árgjöld og þau eru síðan notuð til að borga fyrir starfsmann og aðföng. Síðan deilist uppskeran beint til félagsmanna. Félagsmenn ráða sjálfir hvort þeir vilji taka þátt í ræktuninni, flestir velji að einungis sækja sér uppskeru." segir Hildur.
Einu ári seinna flutti hún til Íslands og fór strax í málið. Stofnað var félag um þetta sem fékk lánað gróðurhús hjá Ásthildi Cesil fyrstu árin og fékk gjaldfrjálst not á landi í eigu bæjarins. Um er að ræða lýðheilsuverkefn og er eini tilgangur þess að koma hollu, lífrænu, umbúðalausu og flutningslausu grænmeti ofan í heimamenn og því sjálfsagt að bærinn styðji við verkefnið.
„Við byrjuðum á njóla- og kerfilvöxnu svæði, það sást ekki í standandi mann á svæðinu, það var svo vel vaxið. Með vistræktar aðferðum (e.permaculture) höfum við smám saman tekið yfir meira svæði og nú erum við með vin í góðgresis eða illgresis engi þarna í hlíðinni, hvernig sem þú lítur á það.“ segir Hildur og hlær.
Að sögn Hildar hefur starfsfemin farið vaxandi, en hún segist hafa verið heppin að strax á fyrsta ári hafi 50 fjölskyldur skráð sig. Hún segir að aldrei hafi þurft að auglýsa þetta, áhugasamt fólk hefur samband og skráir sig. „Allir eru velkomnir í félagið og við bara stækkum svæðið og ráðum inn meira fólk þegar þörf verður á því.
Ræktunin getur aukist talsvert, nú þegar við höfum fundið allar aðferðir og ræktunin gengur vandræðalaust. Það þarf samt alltaf að peppa stemningu í meðlimahópnum og hvetja fólk til að koma að sækja sér grænmeti. Við reynum að búa til viðburði þar sem fólk getur mætt og tekið þátt, lært meira um ræktun og kynnst hvort öðru.“ segir Hildur.
Hildur segir að sumarið hafi gengið stórvel og að fullt af grænmeti, berjum og baunum séu nú í Gróanda sem fólk sækir sér regulega. Hún segir að svæðið sem félagið hafi yfir að ráða stækki alltaf á hverju ári, sem bjóði upp á meiri fjölbreytni og geri það að verkum að þau þori í meira mæli að prufa sig áfram varðandi ræktun á mismunandi tegundum. Nú sé líka gróðurhús í bígerð og það muni aldeilis bjóða upp á lengra uppskerutímabil og fjölbreyttari uppskeru.
Að sögn Hildar var sumarið í ár talsverð áskorun. Það var hlýtt í veðri og það rigndi varla í tvo mánuði. „Flesta daga var óheppilegt að planta því viðkvæmar plönturnar sólbrunnu og visnuðu í endalausri sólinni. Einnig þurfti mikið að vökva, en það var einungis hægt að gera yfir næturna. Hlýindin hjálpuðu til en trufluðu líka. En það er svosem alltaf eitthvað, veðrið er svo ófyrirsjáanlegt þessi árin.
Hildur segist sjá glögglega að fólk taki nú eftir að hægt er rækta á Ísafirði, það sé orðið raunveruleiki, en ekki bara draumsýn. Hún segir að þetta hafi mikil áhrif á bæði fullorðna og börn sem mæta á ræktunarsvæðið. „Þegar þau týna sjálf og taka þátt í ræktuninni er spennandi að smakka, jafnvel þau matvöndustu þora að smakka nánast hvað sem er.
Oft verða þau hissa þegar t.d. salat getur verið sterkt eða með krydduðu eftirbragði. Þau veigra sér ekki við að smakka meira að segja blóm og ýmislegt annað óvenjulegt. Þegar það er eftirsókn í grænkál og krakkarnir hlaupa sjálfir að uppáhalds grænmetinu sínu þá erum við að gera eitthvað rétt.“ segir Hildur og er greinilega ánægð með þessa þróun.
Samkvæmt Hildi er þetta spurning um virðingu fyrir mat og að skilja hve mikil vinna fer í að framleiða matinn. Hún segir að þegar maður hafi tekið þátt þá sjái maður virðið í matnum og þeim mat verði ekki sóað. „Umhverfismál eru ástæðan fyrir að ég byrjaði þetta verkefni. Staðan er sú að matvælaframleiðsla heimsins er það skaðlegasta sem við gerum. Flutningur langar leiðir, eitrun, of mikil áburðarnotkun, matarsóun á öllum stigum og umbúðir. Hér leysum við þetta, þetta er eiturefnalaust, umbúðalaust og í heimabyggð, tilbúið til notkunar.“ segir Hildur.
"Ég hvet fólk til að safnast saman og stofna félagslandbúnað, það er ekkert vit í öðru. Ef það er grænmetisbóndi í nágrenninu þá er hægt að eiga samstarf við hann, það er mjög venjulegt í félagslandbúnaði annarsstaðar í heiminum. Tökum málin í okkar eigin hendur og höfum matarframleiðslu eins og okkur finnst vera rétt!“ segir Hildur ákveðin að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments