Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.
Hjónin Anna Björk Nikulásdóttir og Daníel Schnell stofnuðu máltæknifyrirtækið Grammatek haustið 2018 og hafa undanfarin ár einbeitt sér að talgervingu, þar sem tölvurnar eru látnar tala og lesa íslensku. Anna lærði máltækni í Þýskalandi og starfaði við það um tíma þar og Daníel er tölvunarfræðingur með mikla reynslu af hugbúnaðarþróun bæði erlendis, sem og hér á landi. Þau bjuggu saman um tíma í Þýskalandi en búa nú á uppeldisslóðum Önnu, á Akranesi og starfrækja fyrirtækið sitt í nýsköpunarsetrinu Breið, sem er einnig upp á Skaga.
Anna segir að þau hjón hafi unnið að undanförnu að máltækniáætlun stjórnvalda en um er að ræða stórt samstarf fyrirtækja og háskóla hér á landi varðandi grunninnviðaþróun, að koma íslenskunni almennilega inn í tölvuveröldina.
„Þetta verkefni hefur vakið mikla athygli á heimsvísu, sér í lagi því þetta er samstarf milli fyrirtækja og háskóla og svo eru allar afurðir úr þessu samstarfi opnar og aðgengilegar og öllum frjálst að nota, hvort sem það er í viðskiptalegum eða rannsóknar tilgangi.“ segir Anna.
Samkvæmt Önnu er mjög mikið af fólki sem treystir á að hafa aðgengi að hljóðefni, eins og blindir, sjónskertir og lesblindir, en varlega hefur verið áætlað að bara á Íslandi þurfi um 40.000 manns að getað hlustað á efni að frekar en að lesa það. „Svo eru líka alltaf fleiri sem kjósa að hlusta heldur en lesa, til að spara sér tíma og finnst það þægilegra. Þannig að það er þessi þörf sem við erum að vinna í að uppfylla og hefur fókusinn hjá okkur því verið á talgervingu, þar sem við látum tölvurnar tala og lesa íslensku. Við gáfum nýlega út uppfærslu á appi fyrir Android sem heitir Símarómur. Það er notað fyrir íslenskan skjálestur og er ókeypis á Google Playstore þar sem allir geta sótt það og er markmiðið að koma því líka í Iphone tæki í framtíðinni.“ segir Anna.
Að auki eru þau hjón í samstarfi við Hljóðbókasafnið um að framleiða námsbækur sem hljóðbækur með sjálfvirkum lestri, svokölluðum talgervislestri og segir Anna að fyrirtækið sé að byrja vegferð í því að gera sem mest efni aðgengilegt á hljóðformi. „Við viljum líka bjóða þjónustu til fyrirtækja og fjölmiðla og allra sem vilja gera sitt efni aðgengilegt sem upplestur í stað þess að hafa það bara á textaformi.
Það er mikilvægt fyrir íslenskuna að hún haldi velli í þessu umhverfi og viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Fólk er hissa hvað röddin á tækjunum hljómar vel og hvað appið okkar, Símarómur, virkar vel. Eins og áður segir þá er þetta ekki bara fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á þessu að halda, heldur eru sífellt fleiri sem kjósa þessa leið, að hlusta til dæmis þegar það er á ferðinni í bíl.
Við erum reyndar ekki komin af stað með yndislestur eða þannig efni, en um er að ræða námsbækur, skýrslur, tölvupósta og efni sem er gott að nálgast í talkerfi og talkerfishugbúnaði.“ segir Anna.
Anna starfaði um tíma í Háskólanum í Reykjavík og í kjölfar þess kviknaði hugmyndin að Grammatek. Hún segir að ein af ástæðunum hafi verið að skapa sér starf í heimabyggð, en þau hjón vildu frekar starfa þar en að vinna í höfuðborginni. Að sögn Önnu er frábært að vinna í skapandi umhverfi eins og fyrirfinnst í Nýsköpunarsetrinu Breið upp á Skaga sem hún segir að sé frábært framtak fyrir svæðið og íbúa þess, en um er að ræða gamalt frystihús í eigu Brim sem tekið var í gegn og er samstarfsverkefni fyrirtækisins og Akranesbæjar.
Anna segir að þau hjón hafi fengið styrki fyrir verkefni sín í gegnum tíðina, þau fengu til að mynda styrk frá Rannís við að koma fyrirtækinu á koppinn og hafa einnig fengið styrk þaðan fyrir verkefni sem þau vinna með Háskólanum í Reykjavík og fyrirtæki sem nefnist Tiro, en um er að ræða þróunarumhverfi fyrir samræðukerfi á íslensku. Hún segir að þau hjón hafi ávallt alla anga úti er kemur að styrkjaumhverfi og hafi mörg járn í eldinum, eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir. „Við erum ansi öflugt teymi þó ég segi sjálf frá, en Daníel hefur einnig sökkt sér í máltæknina undanfarin ár, sem gagnast fyrirtækinu afar vel, þar sem við erum einu starfsmenn þess eins og er.
Við höfum í nógu að snúast og okkur langar að halda áfram að byggja upp þessa þjónustu, svo að sem mest efni sé aðgengilegt með hágæða talgervingu fyrir íslensku. Einnig langar okkur að halda áfram samstarfi við Hljóðbókasafnið hvað varðar framleiðslu á námsbókum á íslensku, þannig að hægt sé að framleiða meira efni fyrir þann stóra hóp sem treystir á að geta hlustað frekar en að lesa bækurnar.“ segir Anna að lokum.
Comments