top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Flott sena hér“


Almar Alfreðsson, Gildagar, Akureyri, menning, úr vör, vefrit
Almar Alfreðsson, verkefnastjóri menningarmála Akureyrarstofu.

Blaðamaður ÚR VÖR náði tali af Almari Alfreðssyni, verkefnastjóra menningarmála Akureyrarstofu, og spurði hann spjörunum úr varðandi menningarlífið á Akureyri. Almar segir að bærinn iði af menningu og að gaman sé að sjá hversu mikil áhersla er lögð á grasrótina þar.


Almar segir undirrituðum að þriðji Gildagur ársins hafi farið fram þann 13. apríl síðastliðinn. Að þessu sinni var Gildeginum slegið saman við Barnamenningarhátíð og því hafi gamanið verið margfalt að sögn Almars. verið margföld skemmtun.

Hann segir að Gildagar, sem nefndir eru eftir Listagilinu á Akureyri, hafi verið til í fjöldamörg ár og hafi byrjað sem ákveðin hefð þegar opnanir voru í Listasafni Akureyrar. Þá hafi önnur gallerí og aðilar sem voru með starfsemi í Listagilinu stillt sig saman að vera með opið hjá sér svo gestir gætu rölt á milli og séð eitt og annað.

Samkvæmt Almari hafi þessi hefð þó lognast útaf fyrir einhverjum árum síðan en segir að Hlynur Hallsson, núverandi safnstjóri listasafnsins hafi haft það eitt af markmiðum sínum þegar hann tók við að endurvekja þessa hefð og að það hafi tekist. „Ég bý hér og starfa í gilinu og það er mín tenging við þennan viðburð. Ég held utan um þessa daga ásamt góðum hópi, við höfum samráð og erum að þreifa okkur áfram hvernig við getum eflt þessa viðburði. Það eru margir listamenn hér og hönnuðir sem hafa góðar hugmyndir varðandi þetta.

Gildagar, Akureyri, menning, úr vör, vefrit
Skemmtileg stemning myndast á Gildögum þegar götunni er lokað.

„Markmiðið er að vera með svona dag einu sinni í mánuði. Við fáum leyfi til að loka götunni og þá myndast jafnan afar skemmtileg stemning því þá er ekki þessi mikla og hraða umferð á ferðinni.“ segir Almar.

Að sögn Almars er reynt að hafa eins margar opnanir og hægt er og bætir við að verslanir séu með sérstök tilboð þennan dag, en sjálfur rekur hann hönnunarverslunina Sjoppan-vöruhús. Hann segir að Gildagur sé alltaf haldinn á laugardegi og að gaman sé að sjá hvað mörg börn leggi leið sína í Gilið og leiki þar um og skreyti göturnar með krítum og öðru.


Líkt og áður segir er Akureyri mikill menningarbær samkvæmt Almari og mikið um að vera þar. Hann segir að mikið af hæfileikaríku og flottu listafólki í öllum greinum búi í bænum og að margir leggi sig fram við að rækta hina flottu grasrót sem er á staðnum. „Margir gestir, bæði innlendir og erlendir tala um að það sé mikil menning hér. Senan í Hofi er virkilega flott og bara hvert sem maður lítur, hvort sem um er að ræða tónleika eða sýningar, þá er margt að gerast.

Gildagar, Akureyri, menning, úr vör, vefrit
Börn skreyta jafnan Listagilið á skemmtilegan hátt á Gildögunum.

„Ég myndi segja að við stöndum framarlega í þessum efnum á landinu. Það hefur verið þannig í langan tíma og hefur bara verið að þróast og aukast. Ég hef verið að fylgjast með ungum listamönnum sem byrja með sínar með sýningar, setja svo upp síðar stærri sýningar og eru nú komnir á heimsmælikvarða.“ segir Almar.

Almar segir að svokölluð Listasumur séu flott regnhlíf fyrir þá sem vilja koma sér á framfæri. Um er að ræða viðburð sem hefur verið í mörg ár og er sífellt að stækka að sögn Almars. Í gegnum þann stökkpall sé hægt að fá rými eða styrki og koma sér á framfæri. „Listasumarið hefur verið að stækka og þróast. Það var í fyrra frá lok júní fram í lok ágúst og voru að meðaltali þrír til fjórir viðburðir á dag og 200 viðburðir í heildina, sem verður að teljast mikið. Það voru margir nýjir sem stigu á stokk og er þetta kjörið tækifæri fyrir fólk til að halda listasmiðjur, námskeið eða sýningar.“ segir Almar.

Gildagar, Akureyri, menning, Almar Alfreðsson, úr vör, vefrit
Opnanir listasýninga eru víða í listagilinu á Gildeginum og segir Almar gaman að sjá hversu mörg börn leggi leið sína á viðburðinn.

Að sögn Almars fór hann og konan hans á sínum tíma suður í nám. Ætlunin var að vera ekki lengur en þrjú ár en þau plön breyttust og voru þau í Reykjavík í rúm 10 ár. Almar segir að svo hafi farið að fjölga í fjölskyldunni og þurftu þau því að ákveða hvort þau ættu að stækka við sig í Reykjavík eða að taka stóra stökkið og koma heim. „Ég var nýútskrifaður frá Listaháskóla Íslands og var að taka mín fyrstu skref sem sjálfstætt starfandi vöruhönnuður. Sumir töldu það algjöra bilun að fara frá aðalsvæðinu fyrir hönnunarvöru sem Reykjavík er og fara norður þar sem töluvert minna væri um að vera. En ég sagði að það skipti ekki máli hvar ég væri, það er allstaðar póstur og netsamband.

„Það kom á daginn að það er búið að vera brjálað að gera síðan ég kom norður og það hefur engin áhrif að vera hér eða fyrir sunnan. Það eru líka flottir hlutir að gerast hér fyrir norðan og eftir því er tekið, þannig að ég er alveg inní senunni, það er flott sena fyrir hér.“ segir Almar.
Gildagar, Akureyri, menning, úr vör, vefrit
Námskeið og listasmiðjur eru haldnar á Gildögum.

Hann segir að hann finni það vel að margir vilja snúa aftur heim frá höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Almars getur það verið erfitt þegar ekki er búið að tryggja vinnu eða annað því tengt. „Það getur kannski fylgt því óvissa en það reddast alltaf. Þetta er eins og áður sagði lítið samfélag og fólk er tilbúið að hjálpa hvort öðru að finna vinnu eða húsnæði. Fólk vill reyna að komast útúr þessu stressi líka, það er svo mikið áreiti og umferð fyrir sunnan.

„Ég finn það svo vel eftir að hafa komið aftur heim þar sem ekkert stress er, ekkert áreiti og maður getur nánast labbað allt. Ef maður þarf að keyra þá eru þetta fimm mínútna akstur. Ég finn það líka þegar ég skrepp suður fyrir eitthvað, þá bölva ég því að hafa verið þar í 10 ár og skil það ekki alveg. Það var frábær ákvörðun að flytja aftur heim og sjáum við ekki eftir því!“ segir Almar að lokum.


Comments


bottom of page