top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Notuðu galdra til að bæta líf sitt“


Anna Björg Þórarinsdóttir, Galdrasýning á Ströndum, Hólmavík, galdrar, úr vör, vefrit
Anna Björg Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Galdrasýningarinnar á Ströndum. Ljósmynd Anna Björg Þórarinsdóttir

Galdrasýningin á Ströndum var stofnuð á Jónsmessu árið 2000, og fagnar því 20 ára afmæli á næsta ári. Safnið er staðsett á Hólmavík og var hópur fólks af svæðinu sem hóf þetta frumkvöðlastarf þar sem hugmyndin var að búa til aðdráttarafl fyrir ferðamenn til að styrkja samfélagið og auka atvinnu. Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við Önnu Björgu Þórarinsdóttur á dögunum sem leiddi undirritaðan í allan sannleikann um galdra og kuklara á Ströndum.


Samkvæmt Önnu var að hugmyndin upprunulega, fyrir utan að ríma við atvinnustefnu, verið að vinna með þann menningararf sem Strandir og Vestfirðir hafa. Hún segir að sýningin sé tvíþætt, fjalli annars vegar um þjóðtrú sem tengist göldrum þar sem sýndir eru galdrastafir og annað og svo sé sýningin einnig um söguna og um galdrafárið.

Að sögn Önnu varð viðbót við sýninguna árið 2008 þegar Kotbýli kuklarans var opnað í Bjarnarfirði. Þar er sýnt hvernig þeir sem ásakaðir voru um galdra bjuggu en þetta voru yfirleitt fátækir bændur sem notuðu galdra til að bjarga sér og til að bæta líf sitt að sögn Önnu.
Sigurður Atlason, Galdrasýningin á Ströndum, Hólmavík, Strandir, galdrar, úr vör, vefrit
Risið upp frá dauðum, með hjálp galdra! Ljósmynd Sigurður Atlason

Gestir síðasta árs töldu 18.000 manns og voru það bæði gestir á sýningunni og einnig veitingahússins sem rekið er í sama húsnæði á Hólmavík. Árið 2009 opnaði þar kaffihúsið Kaffi Galdur fljótlega eftir hrun til að koma á móts við þær áskoranir sem fylgdu þeirri stöðu að sögn Önnu. „En sú starfsemi hefur þróast og nú er kominn hér veitingastaður. Við erum opin allt árið og þó það komi fáir yfir veturinn þá eru ekki margir dagar þar sem enginn kemur. Aðalhópurinn okkar eru Bandaríkjamenn, þeir hafa greinilega mikinn áhuga á þessu efni, og keyra jafnvel frá Reykjavík og tilbaka á veturna bara til að koma á safnið.

Einhverjir bentu á að vegna þess að Bandaríkin eru ung þjóð, þá hafa þeir ekki sína menningararfleið eða þjóðsögur þar og þeim vantar þetta og leita því að þessu hjá öðrum þjóðum.“ segir Anna.

Anna er uppalin í Reykhólasveit og fékk stöðu framkvæmdastjóra sýningarinnar síðastliðinn vetur. Hún hafði unnið verkefni um sýninguna áður og starfað í nokkurn tíma áður en hún tók við þeirri stöðu. „Ég hef reynt að hafa viðburði hér líka fyrir heimafólk á veturna. Svo vorum við að fá styrk úr Barnamenningarsjóði varðandi að fara í átaksverkefni til að miðla þjóðtrú til barna í Strandasýslu. Þetta er samstarfsverkefni milli Strandagaldurs, sem er nafn sjálfseignastofnunarinnar sem stendur á bak við sýninguna, grunnskóla á svæðinu, Rannsóknarsetursins á Hólmavík og leikfélagsins á svæðinu og mun verkefnið hefja göngu sína næstkomandi haust.“ segir Anna.


Sigurður Atlason, Galdrasýning á Ströndum, galdur, Hólmavík, úr vör, vefrit
Galdur sem notaður var til að vita hver hafði stolið frá manni. Ljósmynd Sigurður Atlason

Að sögn Önnu má rekja upphafið af sýningunni til þess þegar þjóðfræðingurinn Jón Jónsson var að læra þjóðfræði í Háskóla Íslands á sínum tíma vann hann skýrslu um hvernig Strandasýsla gæti nýtt þjóðfræði í ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingu.

Þar var klausa um að hægt væri að halda sýningu um galdra. Þetta vakti mikla athygli samkvæmt Önnu og ákveðið var að vinna með þessa hugmynd áfram. Anna segir að sýningin eigi vel heima á Vestfjörðum þar sem flestir voru dæmdir og brenndir á sínum tíma fyrir galdra.

„Það er ótrúlega margt gefandi við þetta, þetta er svo fjölþætt starf. Við erum með sýningu og erum með veitingarekstur, þetta er ferðaþjónusta og skemmtilegt viðfangsefni sem fólk hefur mikinn áhuga á. Mér finnst mjög gaman að ræða þetta við útlendinga og fá að deila þessari menningu okkar með þeim.

Sigurður Atlason, Galdrasýning á Ströndum, snakkur, tilberi, galdrar, Hólmavík, úr vör, vefrit
Snakkur eða Tilberi, vera sem göldruð var fram til að stela mjólk. Ljósmynd Sigurður Atlason

„Það er auðvitað sorgleg saga í kringum brennurnar, en það er mikilvægt að halda því á lofti. Svo er líka gaman að það er hægt að gera margt í kringum þetta. Við höfum verið að gefa út bækur t.d. um galdra og við seljum þær hérna hjá okkur.“ segir Anna.

Að mati Önnu styrkir sýningin svæðið mikið og sjálfsmynd fólks sem býr þar. Hún segir að áður en farið var af stað með verkefnið hafi eldra fólk ekki hrifið af því að það væri verið að fara að skoða galdrana. „Aðallega af því að þetta var ekki falleg saga, fólk hélt að það yrðu skrípalæti í kringum þetta. En svo þegar fólk sá hvernig þetta var gert, þá voru allir ánægðir.

Við fengum mjög faglegan hönnuð til að hanna þetta og það hafa allir tekið þetta að sér með einhverjum hætti. Þannig að þetta hefur haft góð áhrif á sjálfsmynd fólks af svæðinu, það er ánægja að þetta sé hér og sýningin er þekkt út á við sem gerir það að verkum að fólk er stolt af henni.“ segir Anna að lokum.
Sigurður Atlason, Galdrasýning á Ströndum, kotbýli kuklarans, Bjarnarfjörður, galdrar, úr vör, vefrit
Séð inn í Kotbýli kutlarans í Bjarnarfirði sem opnað var árið 2008. Ljósmynd Sigurður Atlason


Comentarios


bottom of page