top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Friðlandslaxar og hið freka auðmagn


 Eiríkur Örn Norðdahl, pistill, friðlandslaxar, hið freka auðmagn, laxeldi, fiskeldi, landsbyggðin, náttúra, friðland, Vestfirðir, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Að taka friðland – löglega skilgreint eður ei – og breyta því í atvinnusvæði af því að kapítalið getur það, af því að möguleikarnir eru fyrir hendi, er jafn mikið ofbeldi og þegar byggðin er stoppuð upp svo gestir geti komið og dáðst að henni.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

I

Mannskepnan er fyrirferðarmesta dýr merkurinnar. Um þetta verður varla deilt. Hún drottnar yfir láði og legi, hefur sigrað himnana, beislað frumkrafta jarðarinnar og ýmist skilið eftir sig ólýsanleg verkfræðiundur, fagrar listir eða sviðna jörð og stundum allt í senn. Frá píramídunum til tunglferðanna til blústónlistarinnar og Íslendingasagnanna, frá Sovétríkjunum til frönsku lýðveldanna til Bandaríkjanna og aftur til baka. Engin bönd halda mætti mannsins til þess að framkvæma undur og skíta upp á bak af hamslausum yfirgangi – til skiptis eða í einu. Í stórveldisdraumum okkar og markaleysi er bæði fall okkar og ris falið. Við keppum um dýrð og þessi dýrð birtist okkur sem vald, fjárráð eða náð guðanna, við sölsum hana undir okkur, böðum okkur í henni og höfum hana af öðrum. Dýrðin ölvar okkur og við sjáum ekkert nema möguleikana – og einhvern veginn verða þeir takmarkalausir, allt verður mögulegt þegar við erum á valdi dýrðarþrárinnar.

II

Kapítalisminn hefur ekki alltaf dregið það fallegasta fram í okkur. Sá ægikraftur sem hann magnar upp hefur að vísu oft orðið til góðs – bæði í krafti einfaldrar góðmennsku einstaklinga og fyrir þá fullkomnu tilviljun þegar almannaheill og persónulegur gróði fara einhvern veginn saman – en maður þyrfti að vera gersamlega blindur til að sjá ekki harminn og eyðilegginguna sem hann veldur, og hvernig hann er og verður stjórnlaus. Ekki í þeirri merkingu að að baki hans sé ekki fólk sem togar í strengina – á bakvið alla vinnuþrælkun er skrifstofa af hausum að skipuleggja þrælkunina og á bakvið skrifstofuna er maður á Forbeslistanum – heldur í þeirri merkingu að þessi kraftur gerir bara allt sem hann kemst upp með. Svona einsog eldur kveikir í því sem fyrir verður. Ef það er hægt að reikna dæmið út í plús þá mun einhver taka að sér verkið. Allt sem er ekki sérstaklega bannað er framkvæmt og ef það er bannað er barist fyrir að það verði leyft þangað til það er leyft og þá er það framkvæmt. Þannig byggir maður stórveldi. Ef það borgar sig að selja líffærin úr börnunum sínum og það er hægt að fá leyfi til þess þá verður það einfaldlega gert.

III

Fólk þarf að vinna. Bæði er einfaldlega mikið verk að vinna í litlum heimi, við þurfum að sinna því verkefni sem lífið er og þeim verkum mætti skipta talsvert jafnar en gert er; en fólk þarf líka að finna til þess að það hafi tilgang og geri gagn. Slíkt gagn getur verið margs konar og þegar gagnið kemur til tals yfirsést fólki yfirleitt þær stéttir sem sinna vinnu utan brauðstritsins – svo sem þær sem gleðja okkur með því að gera myndir í kaffifroðuna, syngja lög eða grafast fyrir um tilgang tilvistarinnar. En þær eru þarna líka að gera gagn – ofan í þær stéttir sem brauðfæða okkur, ala upp og kenna okkur eða stunda vísindi og verkfræði. Þess utan þarf fólk laun til að éta fyrir, búa fyrir og sinna tómstundum fyrir; framleiðslan og launin standa undir skattheimtu sem stendur undir velferð, fegurð, nautn og visku – og laun fá flestir fyrir vinnu. Það er til lítils að segja atvinnulausum manni að vinnan sé blekking og hann eigi að gleðjast yfir allsleysinu sem atvinnuleysið færir honum, því það sé fyrsta skrefið í falli kapítalismans. Kapítalismann þurfum við að sigra – en ekki með innanholum slagorðum sem hrópuð eru á umkomulaust fólk úr fílabeinsturnum.

IV

Það sem ég er að reyna að koma orðum að skýst alltaf undan mér rétt þegar ég er að koma að kjarnanum. Höldum áfram.

V

Í ljósi markaleysi mannsins, hæfileika hans til að telja sjálfum sér trú um að allt sem hann geri sé mjög þarft og þess ægiafls sem hann beinir hingað og þangað í veröldinni einsog plágusmituðum risabesefa sem hann frjóvgar jörðina með, er mikilvægt að við reynum að hafa svolitla stjórn hvert á öðru, þótt ekki sé nema bara til að tempra afleiðingarnar af tilvist okkar. Til þess eru umferðarreglurnar – svo dæmi sé tekið – því þótt við vitum öll að það sé ekkert vit í því að keyra Súðavíkurhlíðina á 150 km/klst þá vitum við líka að ef við bönnum það ekki og framfylgjum banninu þá munu margir „láta það eftir sér“. Þess vegna hólfum við veröldina svolítið niður. Segjum að hér megi keyra á 90 og þarna bara á 15 og hér megi reka skemmtistað en þarna megi setja niður sorpbrennslustöð – skemmtistaðurinn má samt ekki vera opinn allan sólarhringinn og sorpbrennslustöðin má ekki sprauta díoxíni yfir íbúa. Það eru grensur fyrir öllu – af því okkur er ekki treystandi til að setja okkur mörk sjálf.

VI

Ég hef gjarna sagt að það sé ofbeldi gagnvart fólki að skilgreina heimkynni þeirra sem friðland. Þetta á sérstaklega við þegar það kemur einhver utanaðkomandi aðili og finnst heimamaðurinn lifa í svo mikilli unaðssælu að hana verði að friða og koma byggðinni fyrir í glerkúpli – sök sér ef einhver kýs sér sjálfur að reisa glerkúpul yfir höfuð sér en hitt er ofbeldi og varla gert nema allir íbúar séu dánir. Svo sem í franska smábænum Oradour-sur-Glane, sem þýskir hermenn útrýmdu á flóttanum frá Normandí, og er viðhaldið „í sínu eyðilagða ástandi“ (því jafnvel grotnuninni þarf að viðhalda – rústir þarf að vernda).

Ónefndur þingmaður sagði við mig fyrir nokkru að sig hefði sjálfan alltaf dreymt um að lifa í friðlandi og skildi ekki hvað ég gæti haft við það að athuga. Ég held ég hafi nú bara eitthvað glott þegar hann sagði þetta en ég hugsaði hvers vegna í ósköpunum maðurinn byggi þá á höfuðborgarsvæðinu og hefði alltaf gert og hvort hann vildi þá heldur að það yrði friðað með því að leyfa öllu bara að grotna niður náttúrulega eða hvort hann vildi kalla til vinnuvélar svo skjótar mætti hleypa náttúrunni – og friðnum – aftur að. En af því ég spurði ekki fékk ég auðvitað ekkert svar.

VII

En vegna þess að mannskepnan er einsog hún er, þá er líka ofbeldi gagnvart náttúrunni að leggja meira af henni undir sig en maður þarf. Maður verður að kunna sér hóf. Að taka friðland – löglega skilgreint eður ei – og breyta því í atvinnusvæði af því að kapítalið getur það, af því að möguleikarnir eru fyrir hendi, er jafn mikið ofbeldi og þegar byggðin er stoppuð upp svo gestir geti komið og dáðst að henni. Þegar maðurinn hefur innreið sína á svæði breytist eðli þess hvort sem að í innreið þeirri felst iðnaður, ferðamennska eða friðun (því friðun er líka eins konar inngrip). Sá sem ætlar að reka samfélag ber ábyrgð á því að vöxtur þess byggist ekki á frekju og hamsleysi, hvorki gagnvart íbúum samfélagsins, jörðinni sem það stendur á eða náttúrunni sem umlykur það; og línurnar þurfa að vera skýrar. Sumar götur eru hraðbrautir, aðrar eru vistgötur; sum svæði eru mannabyggð og önnur friðlönd – og svo er eitt og annað þarna á milli, bæði formlega og óformlega skilgreint.

VIII

Og er ég þá svo gott sem kominn að kjarna málsins.

IX

Á dögunum barst bæjaryfirvöldum Ísafjarðarbæjar fyrirspurn frá sjávarútvegsráðuneytinu þess efnis hvort ekki væri ástæða til þess að „takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Jökulfjörðum“. Fyrir þá sem ekki þekkja til skal nefnt að Jökulfirðirnir eru hluti af hinu svonefnda Hornstrandafriðlandi. Ef frá er talin sumarábúð, aðallega í tengslum við ferðamennsku, hefur ekki verið búið í Jökulfjörðum í hálfa öld. Þar eru hús en þangað liggja engir vegir og óþarfi að setja hraðatakmarkanir, þar eru engin iðnaðarhverfi, engir skemmtistaðir, engir grunnskólar eða pósthús. Það eru ekki einu sinni göngugötur. (Og jújú, það má snúa út úr þessu öllu og segja að gamla hvalstöðin sé iðnaðarhverfið, ströndin sé skemmtistaðurinn og firðirnir allir ein göngugata – það er meira að segja „skólahús“. En við kæfum það bara strax í fæðingu og bönnum útúrsnúninga í friðlandinu og nálægum kaupstöðum.)

Svar bæjaryfirvalda, sem líkt og undirritaður styðja við uppbyggingu á fiskeldi í sunnanverðu Ísafjarðardjúpi – sem sannarlega er atvinnusvæði við þjóðveg, hversu fagurt sem það nú annars er – var að slík bönn og takmarkanir væru ástæðulaus að svo stöddu, fyrst þyrfti að framkvæma áhættu- og burðarþolsmat, því mestu skipti að allar forsendur séu á hreinu áður en nokkur ákvörðun sé tekin. Í samtali við formann bæjarráðs á Facebook fullyrti ég að það yrði seint sátt um fiskeldi í Jökulfjörðum og fékk á móti að fyrir mjög mörgum yrði aldrei sátt um að það væri ekki fiskeldi í Jökulfjörðum. Og hananú, hugsaði ég. Einsog hér sé allt á vonarvöl og það sé ábyrgðarhluti að grípa hvert örþrifaráð til að bjarga fjórðungnum frá vísri glötun. Sem hafði bara alveg farið framhjá mér.

Það sem sagt kemur ekki bara til greina að setja upp iðnað í friðlandinu heldur er hugsanlegt að sumir – mjög margir, er mér sagt, en sennilega fyrst og fremst hið illstjórnanlega sinubruna-kapítal – verðir bara aldrei sáttir nema svo verði. Af því auðmagnið verður að fara þangað sem það getur mögulega komist – með þeim fyrirvara samt að það geti afneitað eigin augljósu fyrirætlunum, því bara þótt maður fái læknisálit á því hversu lengi börnin geti lifað nýrnalaus og hvað sé hægt að fá fyrir stykkið, þýði það ekki að maður ætli að selja þau. Maður ætlar bara að hafa forsendurnar á hreinu.

Og þótt það komi mér kannski ekki á óvart – þá setur mig samt svolítið hljóðan, áður en ég bið auðvaldið um að vinsamlegast fjarlægja besefann úr andlitinu á mér og beina honum eitthvað annað. Nei, takk, en takk samt.



Kommentare


bottom of page