top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

"Fiskikallarnir himinlifandi að fá menningu í bæinn"

Updated: Mar 26, 2019


Elli Egilsson t.v. og Kristján Jón Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÍB ehf. t.h.

ÚR VÖR fékk veður af því að upp væri komin glæsileg gestavinnustofa í Bolungarvík að nafninu BAKKI Stúdíó, með útsýni í allar áttir. Fréttirnar vöktu forvitni og því var pantað langlínusamtal vestur um haf, alla leið til borg englanna, Los Angeles, þar sem listmálarinn Elli Egilsson býr og starfar. „BAKKI Stúdíó er í rými sem var ekki notað í einhver 15 ár. Þetta var helsta fiskvinnsluhús í Bolungarvík á sínum tíma, Íshúsið mikla eins og það er kallað. Pálmi Gestsson leikari, stjúpfaðir eiginkonu minnar hennar Maríu, er frá Bolungarvík.

"Hann var búinn að segja mér lengi að ég þyrfti að verja tíma á Bolungarvík og vera þar og mála. Ég er myndlistarmaður og legg áherslu á landslag og Vestfirðir er sá hluti af Íslandi sem ég átti eftir. Þannig að Bakki er í raun og veru vinnustofa sem ég setti saman.

Elli segir að ýmisskonar starfsemi sé í þessu tiltekna húsnæði sem stendur við Hafnargötuna í Bolungarvík, en mjólkurvinnslan Arna er t.a.m. þarna. Elli segir að það sé þó fullt af rými sem enn sé laust í byggingunni. Hann segir að Kristján Jón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Íshúsfélags Bolungarvíkur (ÍB ehf.) og Jón Guðjartsson eigandi ÍB ehf. hafi verið afar ánægðir að hann skyldi koma þangað vestur og setja upp vinnustofu.


Ljósmynd Elli Egilsson

„Ég dvaldi þarna heilan vetur einn míns liðs. Tók fleka frá gluggum og fékk inn góða birtu. Ég er fullkomnunarsinni og vill hafa hreint og fínt í kringum mig þegar ég mála. Fólk fékk mikinn áhuga á að vita hvað ég væri eiginlega að gera þarna af öllum stöðum. Ég hafði aldrei málað á Íslandi, myndefni sem ég geri er allt eftir minni."

"Það var spennandi tækifæri að fara þangað vestur, þarna var bara snjór og bylur. Ég var t.d. fastur þarna í tvær vikur því það var ekkert flug og enginn var að keyra til Reykjavíkur. Það var bara gaman og stemning og mikil upplifun. Þarna þekkti ég engan, ég vaknaði á morgnana, borðaði morgunmat og synti minn kílómeter í musteri vatns og vellíðunar í sundlauginni í bænum. Og svo málaði ég og útúr því kom sú sýning sem ég sýndi í Reykjavík í fyrrasumar.“ segir Elli.


Ljósmynd Elli Egilsson

Eftir dvöl sína í Bolungarvík var kominn tími fyrir Ella að fara aftur heim til Los Angeles. Hann segir að þá hafi sprottið upp sú hugmynd að leyfa öðru fólki að nota þetta rými sem vinnustofu. Hann segir að það sé hægt að kalla þetta ýmsum nöfnum, en fyrst og fremst sé þetta tækifæri fyrir fólk að koma á staðinn og skrifa, mála, teikna eða gera hvað sem er.

Gömlu kallarnir og fiskikallarnir hérna í Bolungarvík eru himinlifandi að fá menningu í bæinn. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri var líka mikið til í þetta enda er hann mjög menningarlega sinnaður."

Elli segir að það sé búið að vera opið fyrir umsóknir í u.þ.b. mánuð og hafa komið margar fyrirspurnir, bæði frá Íslandi sem og erlendis frá. Hann segir að þessa dagana sé unnið að því að standsetja litla íbúð í turninum í sömu byggingu með útsýni yfir Djúpið og að Hornströndum. „Þetta er algjör gullnáma fyrir þá sem eru skapandi og er það virkilega mikill innblástur að vera í þessu umhverfi, þú hefur lítið annað að gera en að sinna þinni list.“ segir Elli.



Blaðamaður ÚR VÖR spyr Ella hver hvatningin sé fyrir því að setja svona af stað og hver áhrifin hann haldi að svona starfsemi hafi í Bolungarvík. „Ég held að ef svona vinnustofa eða menningarsetur að einhverju leyti lítur dagsins ljós þá mun það hafa mikið að segja fyrir bæinn, það vantar meira af menningu á Vestfirði. Svo má ekki gleyma því að vera þarna í þessu umhverfi er svo einstakt. Þetta er ekki einungis hugsað fyrir myndlistarfólk, heldur fólk sem vill koma, miðla einhverja, fá næði og skapa.“ segir Elli að lokum.



Comments


bottom of page