Þurfum við að hugsa um fæðuöryggi hérna á Íslandi, höfum við það ekki bara ágætt? Ég velti þessu fyrir mér núna og rifja upp að einu sinni bjó ég í göngufæri við matvörubúð, sérverslun með kjöt og fisk, verslun með lífrænar afurðir og kjörbúð. Ég gat fengið allt sem hugurinn girntist og ég hugsaði aldrei um fæðuöryggi. Núna bý ég í göngufæri við litla smáverslun samtvinnaða við bensínstöð. Ég er þakklát fyrir að hafa þessa smáverslun og dáist að útsjónaseminni sem liggur að baki því að geta komið mörgum vörutegundum fyrir í svo litlu rými. Þessi smáverslun er mikilvæg því hún bjargar okkur sem búum hér á Þingeyri með nauðsynjavöru og annað sem vantar uppá því næsta matvöruverslun er á Ísafirði sem er í 50 km fjarlægð.
Margir keyra langar vegalengdir á dag víðsvegar um landið, bæði til að sækja vinnu og/eða þjónustu, og þykir það ekkert tiltökumál. Okkur þykir það heldur ekki mikið mál „að skreppa í búðina“. Við keyrum 100 km án þess að hugsa sérstaklega um það því þetta er hluti af tilverunni, allir þurfa jú að borða, og ef maturinn er þarna þá sækjum við hann þangað.
Svo gerist það, líkt og gerist oft á veturna, að það verður ófært til Ísafjarðar. Það kemur líklega ekki mikið að sök fyrir flesta sem hér búa þótt ófært sé á milli í nokkra daga. Enda kaupir fólk inn með slíkt í huga, kaupir meira í einu, heldur búr og á fullar frystikistur. En það sem er fljótt að klárast og vantar mest er ferskvaran því fæstir halda kú, hænur eða upphitað gróðurhús í bakgarðinum og það er þá sem hugurinn hvarflar til fæðuöryggis. Hvað felst í því?
Samkvæmt alþjóðlegu matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) má flokka fæðuöryggi í fáanleika, aðgengi og nýtingu matvæla og þegar við hugsum um fáanleika matvæla þá er það helst þrennt sem skiptir máli: matvælaframleiðsla, dreifing og viðskipti. Á Íslandi er matvælaframleiðsla af skornum skammti og við mjög háð innflutningi. Markaðir innanlands eru stýrðir og á höndum fárra. Dreifing matvæla er svo einnig bundin ytri aðstæðum, því ekki aðeins þurfa matvælin að berast til landsins heldur líka dreifast um allar koppagrundir allan ársins hring og í öllum veðrum.
Þeir sem hafa alist upp útá landi þekkja þetta ástand kannski vel: þegar mjólkin er búin og ekki von á henni næstu daga, þegar ávextirnir og grænmetið er nánast allt búið og þú rennir augunum yfir hvað þú átt til í dósum, þegar brauðið er búið og þú þakkar fyrir að eiga hrökkbrauð og veltir fyrir þér hvort þú eigir að láta það nægja eða kannski skella í eitt brauð.
Auðvitað er þetta ástand ekki óbærilegt, spurning er hins vegar, þarf þetta að vera svona? Og kannski enn frekar, er hægt að gera eitthvað í þessu? Kannski er nú kominn tími til að byggja upp sterkt netverk í kringum matvælaframleiðslu og verslun í heimabyggð. Við getum það. Og með því minnkum við kolefnisspor, aukum sjálfbærni okkar og tryggjum fæðuöryggi í heimi framtíðarinnar.
Texti: Arnhildur Lilý Karlsdóttir
Comments