top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Eftirskin


Gallerí Úthverfa, Outvert, Ísafjörður, Vestfirðir, landsbyggðin, list, menning, listasýning, ljóð, myndlist, Elísabet Sóldís Þorsteinsdóttir, úr vör, vefrir
Sjálfsmynd eftir Elísabetu Sóldísi Þorsteinsdóttur

Fimmtudaginn 24. mars síðastliðinn var opnuð sýning á verkum Elísabetar Sóldísar Þorsteinsdóttur í Úthverfu á Ísafirði. Á sýningunni sem ber heitið ,,EFTIRSKIN‘‘ og er fyrsta einkasýning Sóldísar eru nýleg verk, tölvugrafík, teikningar og málverk. Á sama tíma kemur út fyrsta ljóðabók listakonunnar ,,SKÁLDIÐ BLÓMSTRAR“, en þess ber að geta að Sóldís var sjálf viðstödd opnun sýningarinnar og var boðið uppá sýningarspjall af því tilefni.


Í fréttatilkynningu frá forsvarsmönnum Úthverfu er vitnað í Sóldísi og hvað hún hefur að segja um listsköpun sína. „Ég heiti Sóldís og er sjálfskapaður listamaður með miklar skoðanir sem fá útrás og vængi í gegnum fjölbreytta listræna sköpun. Ég hef sótt innblástur og lærdóm frá námskeiðum hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur, Myndlistarskóla Kópavogs og Lýðskólanum á Flateyri og fjölda ritsmiðja um allan bæ.“


“Ég nýt þess að skapa því þá fæ ég hugarró yfir hugsanir mínar sem annars virka svo myrkar en í listsköpun minni hljóma þær nánast aðlaðandi. Það er alltaf gaman að gera það sem maður hefur náðargáfu fyrir mín náðargáfa er að endurorða og að túlka myndrænt en ég þarf annað fólk til setja lífið í samhengi. Eins og diskóljós í rými þá sé ég hlutina alltaf á skrautlegri hátt eftir að ég öðlast skilning, það er kjarninn sem gerir mig að listamanni.


Grafísk hönnun er eftirlætis sjónræna listformið mitt því ég upplifi það meira eins og ævintýraheim. Einskonar einka raunheim sem þarf ekki að blanda við raunveruleikann svo hann er ekki spilltur af staðalímyndum. Texti er mér þó mikilvægari en sjónræn list því þegar ég loka augunum blindast ég og man eftir verkinu á svipaðan hátt og ef lýsa á verkinu fyrir einhverjum sem hefur misst sjónina. Ég sé lit, ég sé texta, ég upplifi tilfinninguna í myndinni en ég get bara ekki séð hana (stundum kallað aphantasia).


Ég vona að þið njótið að sjá heiminn með mínum augum.“


Við hvetjum áhugasama um að kynna sér þessa skemmtilegu sýningu, en verk Sóldísar verða sýnd í Úthverfu til 10. apríl næstkomandi.


Comments


bottom of page