top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Effect hefur áhrif

Texti: Aron Ingi Guðmundsson

Effect, Eva Karen Þórðardóttir, Borgarnes, fræðslugreining, greining, fræðsla, tækni, nýsköpun, frumkvöðlastarf, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Að sögn Evu Karenar nýta fyrirtæki um allt land hennar hugbúnaðarlausn og segist hún hafa þjónustað stór fyrirtæki sem og stofnanir. Ljósmynd aðsend.

  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.


Rétt fyrir utan Borgarnes hefur fyrirtækið Effect aðsetur og býður þaðan upp á fræðslugreiningu fyrir fyrirtæki sem og einstaklinga. Fræðslugreiningin byggir á rauntímamælingum sem gefur fyrirtækjum gögn til að bregðast við fræðslu og þjálfun í rauntíma og gefur einnig starfsfólki verkfæri til að taka betur ábyrgð á eigin þjálfunar- og fræðsluvegferð. Það var Eva Karen Þórðardóttir sem stofnaði fyrirtækið árið 2019 og segist hún ekki hafa rekist á fræðslugreiningu annarsstaðar, hvorki hérlendis né erlendis, sem þjónusti bæði starfsfólk sem og fyrirtæki. 


„Ég hef starfað í fræðslumálum allt frá árinu 2016, verið ráðgjafi hjá mörgum fyrirtækjum og unnið við að setja niður fræðslustefnu og greina fræðsluþörf innan þeirra. Þetta er vandmeðfarið, það þarf að fara varlega með tíma fólks í starfi, það er mikið að gera hjá öllum.

Þetta virkar líka ekki þannig að allir taki sama fræðslupakkann, og ég hef verið að reyna að finna leiðir varðandi hvaða fræðslu fólk þarf í rauntíma. Þetta breytist líka hratt á okkar tímum, hvað og hvernig er hægt að greina hluti og hversu reglulega.“ segir Eva Karen.

Að sögn Evu Karenar fór hún af stað árið 2019 með aðferðafræði sem snerist um að reyna að greina hvað hæfni og þekkingu þarf í ákveðin störf og greina hvar fólk er statt og sjá hvað fólk þarf að læra. Hún segist hafa prófað þetta í fyrirtækjum og segist sjá þörfina hjá einstaklingum og einnig hjá ólíkum deildum og sviðum innan fyrirtækjanna. Eva Karen segir að hún hafi verið að vinna þetta fyrst í Excel og senda póst á hvern og einn, en að hún hafi svo fengið aðstoð við að búa til hugbúnaðarlausn sem sé í dag orðin full af gögnum. 


Effect, Eva Karen Þórðardóttir, Borgarnes, fræðslugreining, greining, fræðsla, tækni, nýsköpun, frumkvöðlastarf, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Eva Karen Þórðardóttir hjá Effect. Ljósmynd aðsend.

„Ég vinn þetta þannig að ég sendi út könnun sem fólk svarar og sér hæfnigatið. Þannig að fyrirtækið sér fyrir hvern starfsmann og starfsmaðurinn getur sjálfur mælt sig reglulega, bæði fyrir starfið sitt í dag og mögulega fyrir starfið sem hann langar að vinna í framtíðinni. Ég hef alveg farið inn í fyrirtæki þar sem stjórnendur horfa fyrst á mig stórum augum og halda að þetta muni ekki ganga. En núna hef ég farið í gegnum þetta með yfir tuttugu fyrirtækjum og eru átta fyrirtæki orðin áskrifandi að þessari lausn, sem þýðir að þau geta nýtt þetta eins og þau þurfa. Svo eru önnur fjögur fyrirtæki í innleiðingu með þetta.

Þetta er ákveðin vinna, störfin milli fyrirtækja eru ólík, það þarf að kenna fólki á þetta og það er ákveðið innleiðingarferli. Það tekur tíma að koma inn einhverju nýju, en svo þegar þetta er komið á koppinn þá er  auðveldara að nota þetta.“ segir Eva Karen.

Eva Karen byrjaði á að mennta sig sem kennari, bætti svo við sig námi í forystu og stjórnun frá Bifröst og hefur starfað sem framkvæmdastjóri og stofnað eigið fyrirtæki og segir það skipta máli að vera í kröftugu teymi sem er tilbúið að aðlagast hratt og læra. Hún segir að það heilli hana að komast að því hvaða punktur það er sem drífur fólk áfram og gerir það að verkum að það vill þróast í starfi og finna út hver ástríða þeirra er, þegar kemur að starfinu.


„Ég er eini starfsmaðurinn, en er með dásamlegt fólk sem ég vinn með sem eru verktakar. Það er t.d. fyrirtæki sem heitir ST2 sem er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í Microsoft lausnum, þau hafa hannað þetta með mér alveg frá grunni, hafa unnið mér við hlið í þessu. Svo er lítið markaðsfyrirtæki í Borgarfirði sem ég notast við. Hugbúnaðarlausnin var fyrst hugsuð fyrir mig og mína aðferðafræði, en núna er lausnin orðin miklu stærri en ég ætlaði og mikið af gögnum sem hægt er að nýta á svo marga vegu, þannig að ég þarf mögulega að færa hana á annað form, þetta er búið að stækka í höndunum á mér. Þannig að núna er ég á tímamótum og er að velta vöngum um hvort ég ætli að ráða inn fólk og fá inn fjárfesta. Þetta býður upp á margar leiðir og maður þarf að ákveða í hvaða átt þetta á að fara.“ segir Eva Karen.


Að sögn Evu Karenar nýta fyrirtæki um allt land hennar hugbúnaðarlausn og segist hún hafa þjónustað stór fyrirtæki sem og stofnanir. “Covid breytti svolítið miklu, þá opnaði fólk augun mikið fyrir hvað hægt væri að gera í gegnum netið, í fjarvinnu eða fjarkennslu. Svo hefur hjálpað ótrúlega mikið að ég hef fengið styrki í gegnum tíðina, frá starfsmenntarsjóðum og frá Borgarbyggð og fyrir það er maður svakalega þakklátur.

Það er svo dásamlegt þegar maður er búinn að vera að harka að finna að fólk hafi trú á því sem maður er að gera. Þannig að ég hlakka mikið til framtíðarinnar, núna er gervigreindin að koma líka sterk inn og hún býður upp á ýmsa möguleika er þetta varðar.“ segir Eva Karen að lokum.

Comments


bottom of page