top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Byggðaröskun fyrir byrjendur


Byggðaröskun, Þóroddur Bjarnason, landsbyggðin, Ísland, byggðamál, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Það er mikilvægt að átta sig á því að þessi þéttbýlisvæðing er ekki endilega „á kostnað“ annarra – fólksfækkun í sveitum og smærri sjávarþorpum á sér margvíslegri og flóknari ástæður aðrar en sogkraft stærri bæja og borga.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Flestir hafa heyrt því fleygt að meirihluti mannkyns búi nú í borgum heimsins og Ísland sé meðal þeirra landa þar sem borgarbúar séu hlutfallslega flestir. Samkvæmt mannfjöldadeild Sameinuðu þjóðanna býr raunar meira en helmingur mannkyns í byggðarlögum sem viðkomandi þjóðríki skilgreina sem þéttbýli. Þannig búi 94% Íslendinga í þéttbýli, samanborið við t.d. 92% í Japan, 59% í Kína og 37% í Bangladesh.


Þess ber þó að gæta að tölfræði Sameinuðu þjóðanna byggir á afar ólíkum skilgreiningum einstakra ríkja á „þéttbýli“ (e. urban areas). Þannig telst japanskt byggðarlag vera þéttbýli ef íbúarnir eru a.m.k. 50.000 og a.m.k. 60% íbúanna starfa við iðnað, verslun eða önnur þéttbýlisstörf en í Kína þarf byggðarlag að hafa a.m.k. 1.500 íbúa á hvern ferkílómetra eða uppfylla ákveðin önnur skilyrði um mikilvægi. Í Bangladesh teljast byggðarlög vera þéttbýli ef þar er að finna vegi, götulýsingar, vatnsveitu, frárennsliskerfi og hátt hlutfall læsis og þannig mætti lengi áfram telja. Á Íslandi teljast byggðarkjarnar hins vegar vera þéttbýli ef 200 manneskjur eða fleiri eiga þar lögheimili.

Það er umhugsunarvert að höfuðborgarsvæðið með sína 224 íbúa á km2 myndi ekki teljast þéttbýli í Kína, né heldur myndi Akureyri með sína 19 þúsund íbúa teljast þéttbýli í Japan. Það væri freistandi að krefjast þess að öll lönd notuðu einu og sömu skilgreininguna á þéttbýli, en þó er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að íbúafjöldi og þéttleiki byggðar geta haft afar ólíka merkingu eftir aðstæðum á hverjum stað.

Þannig teldist Nuuk til dæmis ekki stórt byggðarlag í mörgum þéttbýlum löndum en í grænlensku samhengi er hún þungamiðja grænlensku þjóðarinnar.


Þótt Ísland myndi teljast strjálbýlt hérað í Kína hefur þéttbýlisvæðing síðustu aldar engu að síður gjörbreytt byggðamynstri landsins. Þar ber vitaskuld hæst tilkoma höfuðborgarsvæðisins þar sem meirihluti þjóðarinnar er nú búsettur. Því er oft haldið fram að vöxtur höfuðborgarsvæðisins hafi verið öðrum landshlutum dýrkeyptur og í raun sé Ísland orðið að borgríki með fámennu og hnignandi dreifbýli sem litlu máli skipti fyrir framtíð landsins.

Slík mynd af óstöðvandi sigurgöngu borgarinnar og vanmætti og hruni „landsbyggðarinnar“ er til margra hluta nytsamleg. Hún réttlætir til dæmis fullyrðingar um að framtíð þjóðarinnar velti á því að efla borgina sem mest sem valkost við útlönd, að það sé tímaskekkja að eyða skattfé borgarbúa í að hindra óhjákvæmilega fólksflutninga til borgarinnar, að til lengri tíma sé nauðsynlegt að efla heilbrigðis- og menntakerfi þjóðarinnar fyrst og fremst í borginni og þannig mætti áfram telja.

En á þessi dramatíska mynd af íslenskri byggðaþróun við rök að styðjast? Eins og sjá má af Mynd 1 bjó yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar í sveitum landsins á síðustu áratugum 18. aldarinnar. Um 15% þjóðarinnar bjó í þéttbýli sem skiptist nokkuð jafnt milli Reykjavíkur og nærsveita annars vegar og fjölmargra vaxandi þorpa um land allt. Á fyrstu áratugum 21. aldarinnar bjuggu hins vegar tveir af hverjum þremur landsmönnum á höfuðborgasvæðinu og aðeins 5% í strjálbýli.

Þessi umskipti frá sveitasamfélagi til þéttbýlis endurspegla umbyltingu á flestum sviðum samfélagsins. Á undraskömmum tíma í lífi þjóðar hefur landbúnaður farið frá því að vera efnahagslegur grundvöllur flestra fjölskyldna yfir í það að vera svo jaðarsett atvinnugrein að rætt sé í fullri alvöru hvort hún svari kostnaði og kolefnisfótspori. Um leið hefur sveitamenningin færst frá miðju íslenskrar þjóðarvitundar yfir í skrumskælda staðalmynd íslenskra kvikmyndagerðarmanna af skeggjaða afdalabóndanum, aleinum og örvæntingafullum í grænu eldhúsi frá sjöunda áratugnum. Alþingisbóndinn verður sífellt sjaldséðari fugl og fáir viðra þá skoðun lengur að hverju barni sé hollast að kynnast sveitastörfum af eigin raun.

Þessi mynd undirstrikar líka ákveðna tilvistarkreppu höfuðborgar sem vaxið hefur þjóð sinni yfir höfuð. Borgin sem eitt sinn var þjónustumiðstöð fyrir margfalt fjölmennara dreifbýli er nú fyrst og fremst þjónustumiðstöð fyrir sína eigin íbúa. Landið sem áður var helsta bakland borgarinnar skiptir hana sífellt minna máli og athygli borgaryfirvalda beinist nú fyrst og fremst að því að finna henni sess sem borg meðal borga á alþjóðavettvangi.


Milli sívaxandi hlutdeildar borgarinnar og síminnkandi hlutdeildar strjálbýlis vekur hins vegar athygli að þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins hefur einnig vaxið hlutfallslega á þessu tímabili. Árið 1881 bjuggu um 7% þjóðarinnar í öðru þéttbýli utan núverandi höfuðborgarsvæðis en náði því að vera þriðjungur þjóðarinnar skömmu eftir seinni heimsstyrjöld. Hæst varð þetta hlutfall 37% á árunum 1980–83 en hefur haldist stöðugt 31-32% það sem af er 21. öldinni.

Ofangreind hlutföll eru hins vegar nokkuð blekkjandi þar sem íbúum landsins fjölgaði mikið á þessu tímabili. Árið 1881 bjuggu þannig tæplega 73 þúsund manns á landinu en 357 þúsund árið 2019. Af þessu leiðir að fjöldi íbúa á einstökum landsvæðum hefði getað allt að fjórfaldast en hlutfall þeirra af íbúum landsins í heild hefði samt lækkað.

Hlutfallsleg fækkun getur vitaskuld haft neikvæð áhrif á stöðu tiltekinna byggðarlaga eða landshluta gagnvart landinu í heild. Þannig voru til dæmis tvö þúsund fleiri kjósendur í núverandi Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum árið 2017 en árið 1959 en þingmönnum þeirra hafði samt fækkað úr fimmtán í átta og áhrif þeirra á sameiginleg landsmál minnkað að sama skapi.


Að flestu leyti skiptir raunveruleg fækkun eða fjölgun íbúa hins vegar meira máli en hlutfallslegar breytingar. Þannig skiptir til dæmis meira máli fyrir Reykjavík hvort fólki þar fjölgi eða fækki en hvort hlutfall hennar af íbúafjölda evrópskra borga hækki eða lækki.

Mynd 2 sýnir fjölda íbúa á höfuðborgarsvæðinu, í öðru þéttbýli og í strjálbýli á tímabilinu 1881–2019. Eins og sjá má fjölgar íbúum á núverandi höfuðborgarsvæði úr tæplega 6 þúsund árið 1881 í 228 þúsund árið 2019. Með öðrum orðum eru núna tæplega fjörutíu íbúar á höfuðborgarsvæðinu fyrir hvern íbúa á því svæði árið 1881.

Árið 1881 var samanlagður íbúafjöldi annarra byggðakjarna næstum sá sami og íbúafjöldi höfuðborgarsvæðsins. Fram til 2019 fjölgaði þeim jafnframt úr 5 þúsund í 112 þúsund eða sem nemur 22-földun íbúafjöldans. Þessi gríðarlegi vöxtur fellur þó í skuggann af vexti höfuðborgarsvæðisins og árið 2019 voru því tveir íbúar á höfuðborgarsvæðinu fyrir hvern íbúa í öðrum byggðakjörnum

Hins vegar fækkaði íbúum í strjálbýli úr 62 þúsund árið 1881 í tæplega 17 þúsund árið 2019. Þeir voru því rúmlega fjórðungur af því sem verið hafði í uphafi tímabilsins, samhliða því sem hlutfall þeirra af þjóðinni í heild lækkaði úr 85% árið 1881 í aðeins 5% árið 2019.

Þegar íbúafjöldi utan höfuðborgarsvæðisins er lagður saman kemur í ljós að íbúum landsbyggðanna hefur ekki fækkað á síðustu 140 árum. Þvert á móti hefur þeim fjölgað hægt en nokkuð örugglega úr 67 þúsund árið 1881 í 128 þúsund árið 2019 og hafa íbúar landsins utan höfuðborgarsvæðisins þannig aldrei verið fleiri en einmitt nú um stundir.

Mannfjöldaþróunin hefur þó verið mjög mismunandi eftir landssvæðum og á þessu tímabili fækkaði íbúum Vestfjarða til dæmis um helming meðan íbúafjöldinn margfaldaðist á öðrum landsvæðum. Sérstaklega hefur fjölgunin verið mikil á suðvesturlandi frá Borgarnesi um Suðurnesin til Selfoss og á Akureyri sem er langstærsti byggðakjarninn utan suðvesturhorns landsins.

Það er því nauðsynlegt að skoða nánar mannfjöldaþróunina annars staðar á landinu án tillits til fólksfjöldans á höfuðborgarsvæðinu.


Mynd 3 sýnir mannfjöldaþróun utan höfuðborgarsvæðsins á tímabilinu 1881–2019. Íbúum í byggðakjörnum á suðvesturlandi fjölgaði á þessu tímabili úr sjö hundruð árið 1881 í 48 þúsund árið 2019 og íbúum Akureyrar úr fimm hundruð í tæplega 19 þúsund. Árið 2019 voru því 66 íbúar í byggðakjörnum á suðvesturlandi og 34 íbúar á Akureyri fyrir hvern íbúa árið 1881, samanborið við tæplega 40 á höfuðborgarsvæðinu.

Allir aðrir byggðakjarnar á landinu höfðu samanlagt tæplega fjögur þúsund íbúa árið 1881 en um 45 þúsund árið 2019. Þótt íbúafjöldi þeirra hafi þannig næstum tólf-faldast á tímabilinu hefur vöxtur annarra byggðakjarna verið talsvert hægari en á Akureyri og í byggðakjörnum á suðvestursvæði landsins.


Með því að leggja saman íbúafjölda í strjálbýli og þéttbýli utan suðvesturhornsins og Akureyrar má svara þeirri spurningu hvort veruleg fólksfækkun hafi orðið í öðrum landsbyggðum. Árið 1881 var íbúafjöldi þeirra tæplega 66 þúsund manns og náði mest tæpum 69 þúsundum í upphafi níunda áratugarins. Árið 2019 hafði þeim fækkað aftur í tæplega 62 þúsund. Mannfjöldinn hefur því næstum staðið í stað yfir lengri tíma en fólki hefur fækkað nokkuð til skemmri tíma litið. Fólki fækkaði þannig aðeins um 6% á þessu 140 ára tímabili en fækkaði um 10% ef miðað er við hápunkt mannfjöldans í þessum byggðarlögum árið 1983.


Hægt væri að halda áfram að draga frá stærri þéttbýlisstaði og sveitir í nágrenni þeirra til að reyna að sýna fram á verulega fólksfækkun á „hinni raunverulegu landsbyggð“, en meginmyndin er nokkuð skýr: Mannfjöldaþróun á Íslandi einkennist ekki af vexti höfuðborgarsvæðisins og hnignun annarra landsvæða.

Fólki hefur fjölgað umtalsvert í flestum landshlutum en þéttbýlisvæðing hefur umbreytt öllum landshlutum síðastliðin 140 ár. Þannig hafa þéttbýliskjarnar almennt stækkað en fólki hefur fækkað mikið í strjálbýli. Sumir kjarnar hafa hins vegar stækkað mun hraðar en aðrir, jafnframt því sem margir minni kjarnar hafa tapað íbúum á síðustu áratugum. Þessi saga hefur endurtekið sig með ýmsum tilbrigðum í einstökum landshlutum, en taka má byggðaþróun á Norðurlandi sem dæmi.

Mynd 4 sýnir byggðaþróun á Norðurlandi frá Hrútafirði í vestri til Bakkafjarðar í austri á tímabilinu 1881–2019. Á síðustu áratugum 19. aldarinnar voru nær allir Norðlendingar búsettir í sveitum en þegar komið var fram á 21. öldina voru Akureyringar helmingur allra íbúa Norðurlands. Árið 1881 voru íbúar í strjálbýli þannig 94% Norðlendinga en aðeins 15% árið 2019, samanborið við 5% fyrir landið í heild.

Eins og sjá má fjölgaði Norðlendingum jafnt og þétt frá níunda áratug nítjándu aldar til níunda áratugar þeirrar tuttugustu. Akureyri óx nokkru hraðar en aðrir byggðakjarnar og um síðustu aldamót voru Akureyringar orðnir eilítið fleiri en íbúar allra annarra byggðakjarna á Norðurlandi. Íbúum í strjálbýli fækkaði hins vegar jafnt og þétt á tímabilinu.

Aldarlöng fólksfjölgun á Norðurlandi stöðvaðist á níunda áratug síðustu aldar or síðastliðin þrjátíu ár hefur samanlagður mannfjöldi á Norðurlandi staðið nokkurn veginn í stað á bilinu 36–37 þúsund íbúar. Undir því yfirborði hefur Akureyringum haldið áfram að fjölga, íbúafjöldi í öðru þéttbýli lengst af nánast staðið í stað en íbúum í strjálbýli hefur til skamms tíma haldið áfram að fækka.

Á allra síðustu árum virðist hafa orðið breyting til batnaðar hvað þetta varðar. Þannig hefur íbúafjöldi í strjálbýli nánast staðið í stað frá árinu 2008 og fólki hefur fjölgað lítið eitt í byggðakjörnum utan Akureyrar. Mannfjöldaþróun á Akureyri hefur hins vegar verið nokkuð línuleg óháð þróun annarra byggðarlaga á Norðurlandi.

Í þessu sambandi er ekki að sjá að vöxtur Akureyrar hafi verið á kostnað annarra byggðarlaga á Norðurlandi. Mannfjöldaþróun í sveitum og öðrum byggðakjörnum á Norðurlandi hefur verið svipuð því sem gerist annars staðar á landinu og vöxtur Akureyrar hefur verið jafn og stöðugur á tímabili þar sem umbyltingar urðu í sjávarútvegi og landbúnaði, þjónusta á sviði heilbrigðismála, menntunar og verslunar tók smám saman við af frumframleiðslu og iðnaði, og samgöngur og samskiptatækni gjörbreyttu tengslum Akureyrar við umheiminn.


Á síðustu 140 árum umbreyttist Ísland úr landbúnaðarsamfélagi í fjölbreytt nútímasamfélag. Meðal áhrifa þessara breytinga var mikil fólksfjölgun sem séstaklega kom fram í gríðarlegum vexti borgarsamfélags höfuðborgarsvæðisins.

Byggðaröskun á Íslandi síðustu 140 árin felst hins vegar ekki í því að höfuðborgarsvæðið hafi í botnlausri græðgi hámað í sig aðra landshluta. Í heildina einkennist byggðaþróun utan höfuðborgasvæðisins af stöðugleika þótt hægt sé að finna ákveðin svæði þar sem þróunin hefur verið neikvæð og tiltekin tímabil þar sem fólki fækkaði frá fyrra hámarki. Að því leyti má segja að íslenskar landsbyggðir einkennist af sjálfbærum hægfara vexti.

Hins vegar hefur orðið mikil þéttbýlisvæðing í öllum landshlutum þar sem fólki hefur til lengri tíma fækkað í strjálbýli og smærri þorpum en fjölgað í stærri bæjum og borgum landsins. Þessi þéttbýlisvæðingin er glettilega einsleit hvort sem litið er til vaxtar höfuðborgarsvæðisins gagnvart landsbyggðunum, vaxtar Akureyrar gagnvart Norðurlandi eða vaxtar Sauðárkróks gagnvart Skagafirði.


Það er mikilvægt að átta sig á því að þessi þéttbýlisvæðing er ekki endilega „á kostnað“ annarra – fólksfækkun í sveitum og smærri sjávarþorpum á sér margvíslegri og flóknari ástæður aðrar en sogkraft stærri bæja og borga. Með sama hætti er nokkuð einfeldningslegt að halda því fram að Reykjavík sé „varnarvirki“ landsins gagnvart fólksflótta til annarra landa. Öll landsvæði á Íslandi njóta meiri aðflutnings frá útlöndum en sem nemur brottflutningi til útlanda og höfuðborgarsvæðið er þar rétt um miðjan hóp hvað varðar jákvæðan flutningsjöfnuð.


Að þessu leytinu til hefur byggðaröskun á Íslandi styrkt ólíkar tegundir byggðarlaga í sessi þótt vissulega séu sumir jafnari en aðrir í því sambandi. Þannig mætti færa fyrir því rök að búseta í Aðaldalnum væri mun erfiðari án Húsavíkur, búseta á Húsavík mun erfiðari án Akureyrar, búseta á Akureyri mun erfiðari án Reykjavíkur og búseta í Reykjavík mun erfiðari án Kaupmannahafnar eða Lundúna. Með sama hætti mætti spyrja hvað yrði um Húsavík ef Þingeyjarsýslurnar leggðust að öðru leyti í eyði, Akureyri án Norðurlands eða Reykjavík án landsbyggðanna.

Texti: Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.


Comments


bottom of page